Þriðjudagur 03.11.2009 - 05:41 - FB ummæli ()

Misheppnuð ferð á McDonalds

Eins og rithöfundurinn í kvikmyndinni Misery hafði fyrir vana að kveikja á kerti og fá sér rauðvínsglas þegar hann hafði lokið við skáldsögu, er það komið í vana hjá mér að fara á hamborgarastað eftir vinnustofuna á þriðjudögum. Ég missi af kvöldverðinum þann dag og veiti mér því þann munað síðar um kvöldið. En vaninn minn fór í vaskinn á þriðjudaginn var. Ástrósu langaði að fara í bíó og ég skutlaði henni í bíóið á leiðinni í vinnustofuna. Á heimleiðinni sótti ég hana í bíóið og hugðist svo fara á hamborgarastaðinn. Þetta auka umstang tók um hálftíma. Það var nóg. Þegar við komum á McDonalds var búið að loka, var greinilega lokað klukkan tíu (klukkan var nokkrar mínútur gengin í ellefu). Ég vissi um annan stað í nágrenninu og bjóst kannski við að hann væri opinn (sumir eru opnir allan sólarhringinn), en hann var lokaður líka. Nær dauða en lífi úr hungri ruddist ég inn í pizzubúllu og keypti mér eina pepperóní sneið sem ég tróð í mig í einum bita.

Um svipað leyti og ég á í þessum vandræðum les ég svo að það eigi að loka McDonalds á Íslandi (hvílík tilviljun!) og breyta staðnum í Brúnó, eða hvað þetta á að heita. Þótt ég fái mér BigMac einu sinni í viku er ég enginn sérstakur aðdáandi staðarins, þetta eru jú bara hamborgarar og það eru takmörk fyrir því hve nánum tilfinningaböndum hægt er að tengjast þeim. Samt þykir mér lokunin á Íslandi frekar dapurleg – séu forsendurnar sem sagðar eru, réttar. Það er hálf hallærislegt að það sé varla hægt að reka erlenda hamborgarakeðju á Íslandi. Þegar krónan var hvað sterkust var McDonalds hamborgarinn sá dýrasti í heimi samkvæmt hinni frægu vísitölu (og þar með krónan of hátt verðlögð). Þegar gengið hrynur og fer nær því sem eðlilegt er miðað við vísitöluna er ekki lengur grundvöllur fyrir rekstrinum. Hm…

Fréttin um lokun McDonalds á Íslandi hefur vakið talsverða athygli úti í hinum stóra heimi því það þykir mörgum skringilegt að þetta sé að gerast. Héldu eflaust að þetta væri bara sjálfsagður hlutur. Þetta er jú bara hamborgarastaður. Þægilegur valkostur fyrir þá sem vilja ekki hafa of mikið fyrir matnum, vita að hverju þeir ganga og ekki borga of mikið (ég er þar á meðal).

Ég tel að þessi lokun sé ekki síst vegna krónunnar okkar sem svo margir elska. Krónan viðheldur sjálfsblekkingu, ýmist um fátækt eða ríkidæmi og kostar miklar fjárhæðir í skriffinsku og umstangi á nánast öllum sviðum efnahagslífsins. Hún ruglar fólk í ríminu um raunveruleg verðmæti vöru og þjónustu og er fórnarlamb óheiðarlegra manna með nokkur fjárráð, enda minnsti gjalmiðill í heimi. Hún gefur ráðamönnum peningamála á Íslandi þá tálsýn að þeir séu mikilvægir menn í hagstjórnarleik þegar það blasir við að hagkerfið sveiflast sem lauf eftir alþjóðlegum efnahagsvindum og þeir eru raunverulega heimóttarleg viðundur sem ekkert geta né kunna í þessum efnum. Ég veit það núna og þeir líka, en það kostaði eitt stykki hrun.

Þótt það kosti fórnir, held ég að atvinnuleysi sé skömminni skárra en þessi krónu-blekkingarleikur. Menn fara þá að hugsa upp nýjar leiðir í verðmætasköpun í stað þess að hökta eins og aumingjar á launum í gjaldmiðli sem er ekki pappírsins virði. Í sögu landsins hefur þessi skipan mála aðeins verið við lýði í stuttan tíma. Þetta er tilraun sem mistókst. Því fyrr sem við horfumst í augu við þá staðreynd, því betra.

Fyrst ég er farinn að tala um McDonalds verð ég að víkja að þeirri þórðargleði sem virðist hafa gagntekið suma yfir því að staðurinn er að hætta á Íslandi. Er hægt að vera öllu plebbalegri? Lítilla sanda, stranda, sæva og snæva? Hvaða máli skiptir það þótt amerísk keðja selji mat á íslandi? Af ofsafengnum viðbrögðum fólks, nánast óðri gleði yfir endalokum keðjunnar, má greina ákveðna sýki. Og það er ánægjulegt að þetta skyldi koma upp, því þá kemur þetta fólk út tréverkinu og afhjúpar sig. Sýkin er því svæsnari sem lengri munur er á milli ímyndarinnar af Íslandi og raunveruleikans. McDonalds er eins og fleinn í holdi ímyndarinnar um „hreint og ómengað“ ísland. Minnisvarði um óæskileg amerísk áhrif. Á þessu svekkir einhver sig haldandi á PepsiMax dós og Tommaborgaranum í Levi’s gallabuxunum sínum, horfandi á Elvis á Youtube milli þess sem hann uppfærir Facebook statusinn.

Drauma-Ísland er hin nýja trú. Mótsagnarkennd og órökrétt, en samt furðu útbreidd. Og ákafastir virðast þeir vera sem telja sig trúlausa.

Jæja, ég ætla ekki að æsa mig yfir þessu frekar og hugga mig við að enn um sinn get ég etið minn hamborgara á McDonalds á þriðjudagskvöldum hér í Kaliforníunni.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Sigurgeir Orri Sigurgeirsson
sögumaður. Sagði söguna af Alfreð Elíassyni og Loftleiðum í samnefndri heimildarmynd og Árna Sam. í SAM-bíóunum í bókinni Á fullu í 40 ár.
RSS straumur: RSS straumur