Einu sinni var Guðmundur Ólafsson, hinn ágæti leikari og rithöfundur, á ferðalagi í útlöndum. Eins og gerist stundum þá rakst Guðmundur á heimsfrægan mann. Engan annan en Luciano Pavarotti. Þar sem Guðmundur er framfærinn maður og sjálfur liðtækur söngvari (lék slíkan í leikritinu Tenórinn) gaf hann sig á tal við Pavarotti. Fór vel á með þeim skildist mér á Guðmundi, en hann sagði þessa sögu í útvarpinu fyrir nokkrum árum. Það sem mér þótti eftirminnilegast við sögu Guðmundar var staðurinn sem fundum hins ítalska stórsöngvara og íslenska leikara bar saman.
Sjálfur hef ég rekist á frægt fólk í útlöndum, en þó ekki er ég fór í menningarferð til Hong Kong. Hong Kong er fögur borg sem iðar af mannlífi og blikkandi neonskiltum og þar eru margir veitingastaðir vestrænir sem austrænir. Mig langaði að kynnast menningu borgarinnar og þefaði uppi ekta hong kongískan veitingastað. Veitingahúsið var lítið og notalegt og það sátu eingöngu innfæddir til borðs. Er ég gluggaði í matseðilinn komst ég að því að hann var á ljómandi útlitsfríðri mandarínsku. Þar sem ég skil ekki það tungumál valdi ég matinn af handahófi. Rétturinn sem ég pantaði var fráhrindandi. Sjávarskordýr á núðlubeði með slorbragði. Sjávardýrið hef ég hvorki fyrr né síðar séð.
Ég yfirgaf staðinn án þess að borða matinn og fór á næsta McDonalds. Matseðilinn þar skildi ég vel vegna þess að á honum voru myndir auk þess sem hann var á ensku. Ekki nóg með það, ég vissi hvernig rétturinn sem ég pantaði var á bragðið þótt ég hefði aldrei komið inn á þennan stað áður.
Á framandi slóðum er gott að eiga fasta keðju í tilverunni. Þótt hægt sé að lesa sig til um góða veitingastaði í ferðahandbókum, eru ekki allir sem nenna því, einkum ef ferðin er stutt. McDonalds var mér skjól og það gerði mér svo aftur kleift að kynnast annarri menningu Hong Kong saddur og sæll en ekki svangur og fúll. Maður þarf jú að borða nokkrum sinnum á dag og er ekki alltaf reiðubúinn að prófa „eitthvað nýtt“.
„Á McDonalds veit maður að minnsta kosti hvað maður fær“ er viðkvæði sumra skyldmenna minna á ferðalögum í útlöndum. Og þetta fólk vandi ekki komur sínar á McDonalds á Íslandi, meðan sá staður var og hét, vegna þess að á Íslandi hefur það komið sér upp næringarkerfi sem það þekkir í þaula. Ég hygg að það öryggi sem skyndibitastaðir eins og McDonalds veita með því að bjóða allstaðar upp á sama matinn sé lykillinn að vinsældum þeirra. Það er miklu meiri óvissu háð að fara td. á Chongs Steakhouse, Jacks Noodle Bar eða Luigis Pastaplace í útlöndum. Hver veit nema Chongs Steakhouse sé sóðaleg búlla? Hver veit nema Jacks Noodle Bar sé frontur eiturlyfjasala og Luigis Pastaplace sé rekið af óvönduðum mönnum sem stela kortanúmerum?
Mannskepnan leitar að öryggi og vanafestu, ekki síst hvað mat snertir, vegna þess að áður fyrr var það trúlega spurning um að komast af að finna þann mat sem hentaði og hengja sig á hann (ekki eitraður, næringarríkur, fór vel í viðkomandi maga). Allir þekkja fólk, ósjaldan börn, sem er dyntótt í mataræði. Sem borðar eingöngu hamborgara með tómatsósu og engu öðru, pylsu með tómatsósu ofan á og undir, drekkur eingöngu Pepsi Max, borðar ekki rauðkál, baunir, blómkál, tómata, lauk osvfrv. Gyðingar borða ekki svínakjöt vegna þess að einu sinni fylgdu því sjúkdómar (etv. inflúensuveira, svínaflensa). Síðan varð það hluti af trúnni. Það að borða ekki svínakjötið var lykilatriði í því að komast af. Matseðill sem virkar vel, er ein af grunnþörfum mannskepnunnar.
Það að McDonalds sé ekki lengur í boði á Íslandi er trúlega meiri ímyndarskaði fyrir landið en virðist í fyrstu. Margir útlendingar sem lásu fréttina töldu að það væri matarskortur á Íslandi eða eitthvað þaðan af verra. Þeir sem hyggjast etv. koma til landsins hafa einum valkosti færra hvað mat snertir eftir að McDonalds hætti. Geta ekki lengur kynnt sér sviða- og hrútspungamenninguna vitandi af McDonalds í nágrenninu.
Hráefnið í McDonalds á Íslandi kom frá Þýskalandi og þeir sem telja það sem miður fer í matvælaframleiðslu í Bandaríkjunum koma því eitthvað við, eru lítilla sanda. Vandinn við fjöldaframleiðslu matvæla er almennur, ekki bundin við einstaka keðjur eða skyndibita. Fáir hafa sakað Þjóðverja um óvönduð vinnubrögð í matvælaframleiðslu þótt eflaust sé þar pottur brotinn eins og annars staðar.
Ítalir eru frægir fyrir að vera matgæðingar, ótal veitingastaðir tengdir Ítalíu bera þess glöggt vitni. En hvar skyldu leiðir hins ítalska stórtenórs Pavarottis og Guðmundar Ólafssonar stórleikara hafa borið saman? Jú, á McDonalds. Nú grunar mig að Guðmundur sé enginn sérstakur aðdáandi bandarískra stórfyrirtækja og allra síst kona hans Olga Guðrún Árnadóttir (sem söng um Keflavíkurveginn og Karl Marx á sínum tíma). Það aftraði honum þó ekki frá því að fá sér einn feitan BigMac. Líklegt má teljast að Guðmundur, eins og margir aðrir, hafi einfaldlega verið svangur og viljað fá sér eitthvað sem hann þekkti á einfaldan fljótlegan hátt. Og Pavarotti líka.