Fimmtudagur 11.11.2010 - 14:49 - FB ummæli ()

Einkabílismaviðbjóðurinn

Mikið er „Nú er lag“ greinin hans Ármanns Jakobssonar góð. Ekkert minna en frábær! Ég er hjartanlega sammála honum.

Skoðanakannanir sýna svo ekki verður um villst að almenningssamgöngur eiga sér mikið fylgi. Nú er lag að láta almenning standa við stóru orðin og beina honum rétta leið.

Eitt helsta sameiningartákn okkar vinstrimanna, almenningssamgöngur, hefur ávallt verið mér hugleikið. Við viljum vel flestir af fullri einlægni koma öllum í strætó eða lestir og leggja einkabílnum fyrir fullt og allt. Ég blæs á allt tal um að þetta sé birtingarmynd á stjórnlyndi, eða frekju, eða tilætlunarsemi. það er bara kjaftæði runnið undan rifjum frjálshyggjumanna. Gatnakerfið er að sliga þetta þjóðfélag. Það fer ekki framhjá neinum. Og ég styð Katrínu systur hans heilshugar í staðfastri viðleitni hennar við að taka einkabílnum 1600 grafir í Reykjavíkurhöfn. Það er viðeigandi fyrir þetta járnarusl.

Ég á mér draum. Sé fyrir mér hóp af glöðum borgarbúum á leið upp í strætó. Svo ekur strætóinn sína leið um bæinn, stóran hring og slaufur til að taka upp fleiri farþega á nokkurra mínútna fresti. Allir taka lagið saman. Þetta er svo falleg sýn! Verst er að fáir deila þessari sýn með okkur í verki.

Bölvaður skríllinn vill ekki ferðast með strætó! Eins og þetta er nú hagkvæmur og umhverfisvænn kostur. Gerir fólk sér ekki grein fyrir að klukkutími aukalega á dag í ferð í og úr vinnu er lífsgæði sem eru stórlega vanmetin? Það má til dæmis lesa í bók meðan maður líður áfram á fráteknum akreinum framhjá pöpulnum í einkabílagildrunni. Gargandi krakkarnir og karlinn heima geta vel verið án mömmunnar aðeins lengur á hverjum degi.

Samverustundir fjölskyldunnar sem allir þessir fræðingar keppast um að mæra, er bara blaður. Strætó gefur manni kost á að hugsa aðeins meira um sjálfan sig. Ekki veitir af í firringu nútímans.

Nóg pláss er í strætó fyrir alla þá Bónuspoka sem við getum borið. Svo það er engin afsökun að bera við óþægindum við að nota strætó í verslunarferðir. Það er heldur engin afsökun að bera við óþægindum við að skutla börnunum í skóla og tómstundaiðju. Senda þau í strætó, þau hafa gott af því vera innan um raunverulegt fólk. Sagt er að einkabíllinn sé úlpa Íslendinga. Ekkert smá dýr úlpa! Þá kýs ég heldur gömlu góðu Álafossúlpuna. Hún er með hettu og stroffi. Vissirðu það?

Svo er nú ályktun Ármanns um að vond bílalán séu bílum að kenna eins og töluð úr mínu hjarta. Auðvitað! Ef enginn væri einkabíllinn, væru engin vond bílalán til. Aðeins ódýr strætókort. Rangar ákvarðanir í fjármálum væru ekki til á Íslandi frekar en hommar í Íran ef enginn væri einkabíllinn. Hugsa sér! Og ef það væru engir einkabílar þá væru engar götur nema götur fyrir strætó. Hm… væri gatnakerfið minna umfangs ef það væri eingöngu fyrir strætó? Ja, það má allavega fullyrða að það væri ekki gjaldþrota og plássfrekt eins og gatnakerfi einkabílsins sannarlega er!

Ekki er annað hægt en klappa fyrir tillögum Ármanns um að hækka enn frekar skatta á einkabílismann. Tær snilld, eins og einhver sagði.

Nú ætla lífeyrissjóðirnir að fjármagna gatnaframkvæmdir fyrir milljarða fyrir gjaldþrota þjóð á gjaldþrota gatnakerfi í gjaldþrota einkabílum! Þjóðhagslegur sparnaður af því að vörur og fólk komist á sem skemmstum tíma milli staða er ofmetinn. Þjóðarlíkaminn getur vel verið án þessa súrefnis svo notað sé líkingamál. Hver þarf súrefni þegar maður getur tekið strætó? Ekki ég, svo mikið er víst.

Nú þarf ég að rjúka, klukkan er orðin þrjú, verð að ná upp í Norðlingaholt fyrir sex.

Flokkar: Óflokkað · Dægurmál · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Sigurgeir Orri Sigurgeirsson
sögumaður. Sagði söguna af Alfreð Elíassyni og Loftleiðum í samnefndri heimildarmynd og Árna Sam. í SAM-bíóunum í bókinni Á fullu í 40 ár.
RSS straumur: RSS straumur