Fimmtudagur 30.12.2010 - 22:23 - FB ummæli ()

Auglýsingar í barnasjónvarpi

Nú á víst að banna auglýsingar innan um barnaefni í íslensku sjónvarpi með lögum. Er þörf á því?

Í Bandaríkjunum er sjónvarpsstöð fyrir börn sem heitir Nick Jr. Þar eru engar auglýsingar. Nick Jr. er áskriftarstöð og foreldrar sem vilja að börn þeirra séu án áreitis auglýsinga, þar á meðal ég, velja hana í stórum stíl. Engin lög þurfti að setja á þinginu til að koma því um kring.

Skoðanakönnun sem talsmenn tilvonandi bannlaga vísuðu í sýndi að 70% þjóðarinnar er á móti auglýsingum í barnasjónvarpi. Það kemur ekki á óvart og ætti að vera þeim sem reka sjónvarpsstöðvar vísbending um að það sé nægur markaður fyrir auglýsingalaust barnaefni. Það er hins vegar ekki röksemd fyrir bannlögum.

RÚV sem þjóðareign og flaggskip menningar vorrar, ætti að sjá sóma sinn í að birta ekki auglýsingar í barnatímum, fyrst meirihluti þjóðarinnar, eigendur fyrirtækisins, vilja það.

Án bannlaga má hæglega halda auglýsingum frá börnum, einfaldlega með því að vera eigin dagskrárstjóri. Flestir ef ekki allir foreldrar eru með safn af DVD diskum og VHS snældum fyrir börnin (ráðherrar eru án efa þar á meðal). Þetta efni er spilað daginn út og inn á mörgum heimilum því börn virðast ekki geta fengið leið á eftirlætis þáttunum sínum. Skoppa og Skrítla eru afar vinsælar á mínu heimili svo dæmi sé tekið og ég er með Heyrðu snöggvast snati minn-stefið á heilanum.

Margir kjósa að hafa enga móttakara fyrir sjónvarpssendingar á heimilinu, þar á meðal frændfólk mitt. Börnin hafa aldrei séð annað en það efni sem foreldrarnir sjálfir kjósa þeim.

Á netinu er gríðarlegt framboð af auglýsingalausu barnaefni í formi leikja og þátta.

Það er með öðrum orðum óþarft með öllu að setja um það sérstök lög að ekki megi auglýsa í barnatímum í sjónvarpi. Það er bæði tímasóun og peningasóun og vitnisburður um hugarfar frekju og tilætlunarsemi sem klædd er í búning umhyggju fyrir börnum.

Skoppa og Skrítla er góður valkostur fyrir þá sem vilja auglýsingalaust barnaefni á íslensku

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Sigurgeir Orri Sigurgeirsson
sögumaður. Sagði söguna af Alfreð Elíassyni og Loftleiðum í samnefndri heimildarmynd og Árna Sam. í SAM-bíóunum í bókinni Á fullu í 40 ár.
RSS straumur: RSS straumur