Skattar eru að sumu leyti eins og rentur sem verðmætasköpun gefur af sér. Eins og afurðir t.d. kannabisbúgarðs. Akurinn þolir að skorið sé upp af honum ákveðið magn afurða, t.d. 30%. Ef of mikið er skorið upp, t.d. 70%, nær stofninn ekki að halda sér við og visnar eða jafnvel deyr og gefur ekkert af sér framar. Tölur frá Íslandi (t.d. innlend fjárfesting, úttekt séreignarsparnaðar) benda til þess að renturnar af íslenska kannabisbúgarðinum fari minnkandi. Plönturnar ná sér ekki á strik fyrir dugnaði og ósérhlífni bóndans.
Flestir vita að það er bannað að eiga og rækta kannabisplöntur á Íslandi, almannaheill krefst þess víst. En krefst almannaheill einskis þegar kemur að skatta- og gjaldahækkunum? Eru virkilega engin takmörk fyrir því hvað löggjafinn getur lagt á marga skatta og hækkað þá sem fyrir eru? Er ekkert í stjórnarskránni sem veitir honum aðhald? Er ekkert þar sem verndar tekjur fólks, sem það vinnur fyrir í sveita síns andlits, fyrir ásælni ríkisins? Er ekki verið að ganga á eignarrétt okkar æ meira? Verndar stjórnarskráin ekki eignarréttinn? Er í lagi að klípa hann smátt og smátt í burtu á nokkrum mismunandi stöðum, VSK, vörugjöld, tekjuskattur, eignaskattur, bílaeldsneyti (39 milljarðar af því einu 2012), kolefnisgjald os.frv, fyrir utan launaskerðinguna við sífallandi gengi gjaldmiðilsins?
Í 72. grein stjórnarskrárinnar segir: „Eignarrétturinn er friðhelgur. Engan má skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji. Þarf til þess lagafyrirmæli og komi fullt verð fyrir.“
Og í 77. grein segir: „Skattamálum skal skipað með lögum. Ekki má fela stjórnvöldum ákvörðun um hvort leggja skuli á skatt, breyta honum eða afnema hann.“ Og: „Enginn skattur verður lagður á nema heimild hafi verið fyrir honum í lögum þegar þau atvik urðu sem ráða skattskyldu.“
„Eignarétturinn er friðhelgur.“ Það stendur skýrum stöfum. En það má skattleggja eignina. Og hvað er þá eign? Er það hús, íbúð, land eða seðlarnir undir koddanum? Hvað þýðir þá friðhelgi? Orðabókin: „Réttur (einstaklings) til að vera laus við utanaðkomandi afskipti eða ónæði.“ Hvernig getur skattlagning eignar átt rétt á sér þegar stjórnarskráin kveður sérstaklega á um að eignarétturinn sé friðhelgur? Það er engu að síður gert og það duglega. En gott og vel, skattlagningin er í nafni almenningsþarfa, það þarf að borga fyrrverandi stjórnmálamönnum eftirlaun, reka elliheimili, sjúkrahús, menntastofnanir, stjórnmálaflokka, forsetaembætti, greiða vexti af gjaldeyrisvopnabúrum, bora göng í gegnum fjöll og svo framvegis. En hvar eru þá mörkin? Hvað má taka mikið af eigninni áður en gengið er á friðhelgan eignaréttinn? 10, 20, 50, 99%?
Stjórnarskráin sem verndar friðhelga eignaréttinn veitir okkur sem sagt enga friðhelgi fyrir því til dæmis ef galinn stjórnmálamaður með galinn (eða kúgaðan) þingmeirihluta á bak við sig ákveður að öll verðmætasköpun í landinu skuli vera eign ríkisins, skattar og gjöld séu hér með 100% af öllu. Hæstiréttur gæti hugsanlega komist að þeirri niðurstöðu að það samræmdist ekki almannahagsmunum að skattar væru 100%. Á móti myndi forsætisráðherra geta sagt að það sé sannarlega almannahagsmunir að skattarnir séu 100% vegna þess að þannig sé loksins hægt að fullkomna skjaldborgina sem ríkisstjórnin sé að slá um þjóðina svo smjör geti dropið af hverju strái og norræn velferð nái hámarki. Og farið sínu fram án tillits til réttarins, eins og reynslan sýnir.
Ég tel að Það þurfi að bæta við 77. greinina ákvæðum um hámark skatthlutfalls og skilgreiningu á hvað skattur er (t.d. að tekjur hins opinbera séu skattar, sama hvaða nafni þær nefnast). Það þarf að setja í plaggið að skattur opinberra aðila á einstaklinga megi t.d. aldrei fara samanlagt yfir 30% af heildartekjum, og 15% af tekjum fyrirtækja. Um þetta mætti kjósa í þjóðaratkvæðagreiðslu meðfram þingkosningum, hver og einn myndi ákveða skatthlutfallið með því að skrifa það í auðan reit. Þá gæfist þjóðinni kærkomið tækifæri til að ákveða sjálf hve miklu af tekjum sínum hún ver til samfélagsins. Meðaltalið yrði hið nýja skatthlutfall. Fyrir slíka atkvæðagreiðslu myndi án efa myndast fjörleg umræða um ríkisfjármál, hvað er bruðl, hvað er óþarfi, hvað er nauðsyn og sérfræðingar myndu reikna út hve hlutfallið yrði að vera hátt til að þetta eða hitt væri á könnu ríkisins. Umræðan um Icesave-kosningarnar sýndi að þjóðin er miklu betur fær um að komast að skynsamlegri niðurstöðu en Alþingi (sem virðist í gíslingu nokkurra frekja, eins og glögglega mátti ráða af ræðum þingmanna sem mæltu Icesave frumvarpinu bót). Internetið hefur tryggt að margfalt fleiri sjónarmið í hverju máli njóta sín en áður. Sá tími er liðinn að samtryggingarfjölmiðill stjórnmálamanna RÚV geti stjórnað umræðunni, eða Morgunblaðið eða Fréttablaðið. Bloggheimar, netmiðlar og Snjáldra eru orðin að Alþingi íslensku þjóðarinnar, þar er fjörug umræða um landsins gagn og nauðsynjar alla daga.
Og í 72. greininni þarf að árétta að Alþingi þurfi að samþykkja alla skattheimtu eftir skilgreininguna. Eins og fyrirkomulagið er núna virðist vera hægt að færa skattheimtuna frá löggjafarvaldinu og í hendur framkvæmdavaldsins og fyrirtækja í opinberri eigu án þess að nein viðvörunarljós blikki. Um það var nýlega fjallað í Vefþjóðviljanum. Holræsagjaldið (skítaskatturinn svokallaði) er nú orðinn að fráveitugjaldi í umsjón Orkuveitunnar.
Nauðsynlegt er að fara í saumana á þessum grundvallarmálum, málum sem virðast ekki hafa lotið neinni stjórn hingað til og bara vaxið og bólgnað út, eins og aukning ríkisútgjalda undanfarið ber glögglega með sér. Mikilvægt er að þjóðin taki þátt í þessari vinnu og ákveði sjálf hvað er fyrir bestu í þessum efnum.