Hvurslags aumingjaskapur er það að hafa það að stefnu að gera „lífið innan haftanna bærilegra“? (Sbr. Birgir Tjörvi Pétursson í Mbl. í dag föstudag 26. júlí.) Gera þessir menn sér ekki grein fyrir að höftin eru brot á mannréttindum, stjórnarskránni og EES-samningnum? (Ætlar enginn að kæra þetta?) Höftin koma í veg fyrir að Íslendingar geti tekið eðlilegan þátt í viðskiptalífi heimsins og skapað nauðsynleg verðmæti til að koma efnahag landsins á réttan kjöl. Höftin eru meira að segja svo gáfuleg að Íslendingar sem eiga lögheimili utan Íslands geta ekki selt nokkur hlutabréf í íslenskum fyrirtækjum fyrir krónur til að borga reikninga á Íslandi (jafnvel þótt þau hafi verið keypt fyrir mörgum árum). Viðkvæðið er: „Það má ekki selja bréfin, þau skilgreinast sem skuld Íslands við útlönd.“ Ríkisstjórnin verður – VERÐUR – að afnema þau að fullu og það strax. Annars á hún ekki von á góðu frá kjósendum í næstu kosningum því í höftum dregst landið aftur úr og eykur heift og vonleysi þeirra sem ekki verða farnir (fjölgun í hópnum „Virkir í athugasemdum“ er óumflýjanleg ef svo fer fram sem horfir). Ef það þarf að kasta krónunni þá verður að hafa það. Höftin eru stærsta vantraustsyfirlýsing á íslensku krónuna sem um getur.