Þótt bjórbannið hafi verið einhver hallærislegasti og heimskulegasti kafli Íslandssögunnar (og er þá af nægu að taka) hafði bannið eitt gott í för með sér. Það eru engir verndartollar á bjór – enn. Ef Íslendingar hefðu verið svipað sinnis og Danir og leyft bjórnum að njóta sín en ekki ákveðið að halla sér að sterkari drykkjum (til að vernda æskuna) væru hér eflaust öflug framleiðendasamtök með ítök í stjórnmálaflokkunum og tollmúrar á bjór. Þá væru svör við óskum um meira úrval eitthvað á þessa leið: Við verðum að vernda höfuðatvinnuveginn fyrir ódýrum, niðurgreiddum bjór frá útlöndum sem framleiddur er við vafasamar aðstæður. Þetta snýst um matvælaöryggi! Það er hér kerfi sem við þurfum að vernda.
Tæland er gott dæmi um muninn á frelsi og ófrelsi. Tælenskur matur er einhver besti matur í heimi. Gríðarlega fjölbreyttur, hollur og vinsæll um gervallan heim, enda reyndi enginn að stjórna matarmenningu þeirra að ofan (ólíkt okkur). En úrvalið af tælenskum bjór er sama og ekkert. Tvær tegundir eru ráðandi. Það er vegna þess að leyfi til bjórframleiðslu voru takmörkuð. Tveir framleiðendur ráða markaðnum. Og til að vernda innlenda og ómissandi gæðabjórinn sinn hafa Tælendingar reist tollmúra.