Michael Lewis sem svo eftirminnilega var dreginn á asnaeyrunum í Íslandsheimsókn sinni skömmu eftir hrunið er hálfgerður seppi þeirra sem sáu þetta sama hrun fyrir. Svo mikill að hann skrifaði heila bók um þá, The Bigh Short. Efniviður bókarinnar var síðar notaður í samnefnda kvikmynd sem naut mikilla vinsælda.
Ef Michael Lewis hefði verið sagt í heimsókn sinni eins og satt var að Davíð Oddsson forsetaframbjóðandi væri í hópi þeirra sem sáu hrunið fyrir hefði tónninn trúlega verið annar í hans garð í greininni Wall Street on the Tundra. Davíðs væri jafnvel getið í The Big Short. Davíð ætti sér jafnvel tryggan seppa í Michael Lewis.
6. nóvember 2007, tæpu ári fyrir bankahrunið mikla, sagði Davíð þetta um bankakerfið: „Allt getur þetta farið vel, en við erum örugglega við ytri mörk þess sem fært er að búa við til lengri tíma.“ Hafa verður í huga að Davíð varð að gæta orða sinna vegna þess að hann var bankastjóri Seðlabankans. Ef þetta er það sem hann sagði opinberlega er ekki nokkur vafi að hann hafði meiri og þyngri áhyggjur með sjálfum sér.
Fróðlegt er að bera Davíð saman við annan frambjóðanda og sérfræðing og kennara í hrunmálum. Á meðan Davíð var skarpskyggn á hlutina var hinn frambjóðandinn einkar glámskyggn á hlutina og tók virkan þátt í einhverju mesta afglapamáli allrar Íslandssögunnar 2009; talaði landið niður og hótaði þjóðinni einangrun og örlögum kommúnistaríkja.
Kannski er frambjóðandinn svona hrekklaus að hann lét plata sig út í þetta? Hver sem ástæðan var set ég stóran fyrirvara við að slíkur maður gegni forsetaembættinu. Það er algjört lágmark að forsetinn haldi með Íslandi.