Fimmtudagur 26.8.2010 - 10:03 - FB ummæli ()

Kauptu (létt)ölið okkar

Ég er hjartanlega sammála þeim sem bent hafa á þá ósvífni sem áfengisframleiðendur á Íslandi hafa sýnt við að auglýsa vöru sína. Það fór til dæmis ekki framhjá neinum sem horfði á hálfleiki HM á RÚV í sumar.

Á meðan sjálfum leikjunum stóð voru þó enn meiri brot framin á íslenskum lögum en í hálfleiknum. Nægir þar að nefna að HM var í boði Budweiser. Hvílík ósvífni! Veit FIFA ekki að það er bannað að auglýsa áfengi í íslensku sjónvarpi?

HM er því miður engin undantekning. Enski boltinn er jafnvel verri en HM. Gulu spjaldi er varla veifað án þess að áfengisauglýsing sé ekki í bakgrunninum. Sjálfur á ég Liverpool-treyju með Carlsberg auglýsingu framan á. Enski boltinn er trúlega eitt vinsælasta sjónvarpsefni ungmenna á Íslandi. Þarf ekki að gera út sendinefnd á vegum ríkisins til að upplýsa Bretana um þessi svakalegu brot á íslenskum lögum? Sýna þeim gula spjaldið ef til vill?

Það er ekki laust við að sú hugsun læðist að manni að íslensku lögin um bann við áfengisauglýsingum hafi ekki tilætluð áhrif. Ekki síst ef horft er til þess að í tölvum unglinga og erlendum tímaritum í hillum íslenskra bókaverslana, á biðstofum tannlækna, á heimilum barnafjölskyldna og víðar er vín auglýst sem aldrei fyrr.

Hugsunin að baki lögunum er skýr og falleg. Góði viljinn og kærleiksrík hugsunin sem miðar að því að vernda æskuna, draga úr áfengisneyslu og minnka líkur á áfengissýki. En það er eins og það hafi farið framhjá þeim sem komu lögunum um kring að Ísland er ekki eyland þótt eyja sé, ekki gluggalaust, sambandslaust míkrókosmos á sjálfstæðum veltingi í ólgusjó lífsins. Og annað sem farið hefur framhjá höfundum laganna er að það hvers og eins að bera ábyrgð á sjálfum sér, og barna sinna meðan þau eru börn. Sumir virðast halda að með því að banna eitthvað sé hægt að útrýma því. Það er því miður algengur misskilningur. Einhverjir myndu kalla það sjálfsblekkingu en ég ætla ekki að ganga svo langt.

Það er staðreynd að fyrirkomulag áfengismála á Íslandi, ríkiseinokun, gríðarlegur skattur á hvern dropa og umrætt bann við auglýsingum, hefur ekki komið í veg fyrir misnotkun þess. Öðru nær. Neysla áfengis hefur aukist mjög undanfarna áratugi. Árangur meðferðarstofnana er skelfilegur þegar kemur að því að endurhæfa þá sem dottið hafa í ólukkupottinn. Ég man ekki töluna, en innan við 10% af þeim sem fara í meðferðarprógramm bragða ekki áfengi aftur. Er það ásættanlegt? (Þótt ekki sé lítið gert úr þeim sem náð hafa áttum með aðstoð þeirra.)

Góðviljaðri lagasetningu og reglum fylgja ósjaldan afleiðingar sem enginn sá fyrir. Ófyrirséðar afleiðingar af áfengisauglýsingabanninu eru m.a. þær að auglýsingastofur og fjölmiðlar verða af talsverðum tekjum. Það gætu verið aukakrónurnar sem halda auglýsingateiknaranum í atvinnu en ekki atvinnulausum. Eða gerir tímariti kleift að koma út. Eða gerir fjölmiðli kleift að ráða málfarsráðunaut.

Ef einhver þingmaður leggur til breytingar á núverandi fyrirkomulagi verður hann úthrópaður sem „vondi kallinn“ af stjórnlyndum andstæðingum áfengis (þ.e. þeim sem telja sig vita best hvað mér er fyrir bestu). Þingmaðurinn sem hefur í mörg horn að líta, ekki síst nú um stundir, kærir sig ekki um að fá á sig slíkan stimpil í augum kjósenda og kýs að leiða hjá sér málið þótt hann – og vitaskuld flestir sem leiða hugann að þessu – vita að lögin eru marklaus og hafa ófyrirséðar afleiðingar sem eru verri en ef þau væri ekki til staðar.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 18.8.2010 - 13:45 - FB ummæli ()

Bílastæðin eru ekki ókeypis Gísli

Eitthvað er Gísla Marteini að fatast flugið í fræðunum, ef marka má bloggfærslu hans. Bílastæðin í borginni eru ekki ókeypis frekar en göturnar. Fyrir bílastæðin greiða bíleigendur með svimandi háum sköttum á ökutæki og eldsneyti, sköttum sem nefndir eru ýmsum nöfnum eins og bensíngjald, bifreiðagjald, virðisaukaskattur og innflutningstollur (og eflaust eru gjöldin fleiri). Bifreiðagjaldið er lifandi dæmi um ósvífni og getuleysi stjórnmálamanna sem lofuðu því, þegar gjaldið var tekið upp 1988 ef ég man rétt, að það ætti að vera tímabundið meðan verið væri að koma ríkiskassanum á rétt ról. Gísli Marteinn, það er búið að margborga fyrir stæðin. Sérstök rukkun í miðbænum fyrir stæði er sköttun ofan á margsköttun.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 17.8.2010 - 19:41 - FB ummæli ()

Heimurinn árið 2000

Rakst á þessa skemmtilegu grein í Fálkanum en hún var birt 21. apríl 1928. Óhætt er að segja að þessi maður, Anton Lübbe, hafi verið nokkuð framsýnn. Firðsjá er skemmtilegt orð yfir sjónvarp, leitt að það skyldi ekki festast í málinu.

Þjóðverji nokkur hefir nýlega skrifað grein um, hvernig heimurinn muni líta út árið 2000. Þá verður rafmagnið komið í þjónustu mannsins í ótal greinum. Notkun kola verður óþekt fyrirhrigði þá, en vatnsföll, vindar og sólin leggja mönnunum til allan þann kraft, sem þeir hurfa að nota. Jarðhiti verður og mikið notaður.

Erfitt telur Þjóðverji þessi — Anton Lübbe heitir hann — að gera sjer grein fyrir hvernig daglegir lifnaðarhættir verði eftir 75 ár, en þó kemur hann með nokkrar tilgátur, bygðar á þeirri þróunarstefnu, sem nú er ráðandi í heiminum. Á heimilunum verður rafmagnið notað svo að segja til alls og ótal vjelar verða til taks til flestrar þeirrar vinnu, sem tafafrekust er. Vjelar til að þrífa húsin, þvo og sterkja þvott og því um líkt. Rafsuðuvjelar verða þá orðnar svo fullkomnar, að þær skili honum tilbúnum að ákveðnum tíma liðnum. Þá verður eingöngu notað gler, sem ekki getur brotnað — og í rúður verður notað kvartsgler, sem ultrafjólubláir geislar komast gegnum. Til lýsingár í húsum verða þá ef til vill notaðar frumeiningar sem tvístrast eða radium-geislar. Raflamparnir sem nú eru notaðir munu þá þykja of orkufrekir, því aðeins tíundi hluti orkunnar verður að birtu, en hitt breytist í hita.

Í iðnaði verða miklar breytingar. Sótararnir hverfa og verksmiðjurnar með sígjósaudi reykháfunum sömuleiðis. Verksmiðjur framtíðarinnar verða fögur hús, með blómgörðum umhverfis, háreistum og björtum sölum. Í framtíðinni ryðja ljettu málmarnir sjer stórkostlega til rúms. Aluminíum hefir þegar náð mikilli útbreiðslu, en í framtíðinni mun það og aðrir ljettir málmar útrýma járni og stáli að mestu leyti. T. d. verða járnbrautarvagnar og bifreiðar framtíðarinnar bygðar úr aluminium.

Öld miljónaborganna er liðin hjá. Eftir því sem samgöngu- og sambandstækin fullkomnast betur og tæki til orkuflutnings úr einum stað í annan verða hagkvæmari, þverrar nauðsynin á því, að fólk þyrpist saman í stórborgir. Í stað þeirra myndast aðrar minni borgir, og hefir hver borgin einhverja sjerstaka atvinnugrein sem flestir stunda, eins og þegar er farið að verða vart i Ameríku.

Hraði samgöngutækjanna fer sívaxandi. Flugvjelar sem fara 600 kílómetra á klukkustund munu halda uppi öllum samgöngum milli fjarlægra staða, en stuttar leiðir fara menn á rafknúnum bifreiðum — ef menu þá ekki hafa lært að nota vatn i stað benzíns, eins og prófessor einn við Parísarháskóla hefir spáð.

Annars þarf maður ekki að ferðast til að sjá fjarlæga staði, því firðsjáin verður þá orðin fullkomin, svo að menn geta skoðað fjarlæg lönd i þeim undrakíki.

Ef þetta, sem prófessorinn hefir sagt, reynist rjett, er það vonandi, að Voronoff prófessor eða Jónas læknir á Hvammstanga yngi okkur öll upp svo að við verðum þessara gæða aðnjótandi.

Glöggur lesandi sendi bloggara þessa slóð með svipuðum framtíðarspám.

Flokkar: Dægurmál

Föstudagur 18.6.2010 - 08:37 - FB ummæli ()

Bin Laden, Al Gore og Ólafur Ragnar

Hvað eiga þessir menn sameiginlegt?

Þeir snapa sér athygli með hræðsluáróðri sem draga má saman í eina setningu: „You ain’t seen nothing yet.“

Það hlýtur að vera sæt tilfinning að finna fyrir hræðslunni breiðast út meðal áheyrenda. Einhver lotning á sér stað og þeir lyftast upp og finna til sín. Finnst þeir mikilvægir, finnst þeir skipta einhverju máli, vera eitthvað. Þess á milli hlýtur þeim að finnast þeir vera tómir að innan. Ætli þeir séu ekki einmitt það, tómir að innan. Ónógir sjálfum sér svipað og þeir sem sækja vellíðan til vímuefna.

Bin Laden: „You ain’t seen nothing yet. Kristnir munu brenna í víti.“
Al Gore: „You ain’t seen nothing yet. Heimurinn hlýnar, golfstraumur stöðvast.“
Ólafur Ragnar: „You ain’t seen nothing yet. Þetta er ekki neitt, bara forleikurinn að Kötlu“ (annað dæmi eru bráðnandi Himalayjajöklar).

Næst þegar Ólafur mætir í bandaríska fjölmiðla getur hann fengið hárin til að rísa á þarlendum með því að benda á þá staðreynd að Yellowstone þjóðgarðurinn er kominn fjörutíu þúsund ár fram yfir steypirinn og ætti að fara að gjósa á hverri stundu (en það gerist víst á sex hundruð þúsund ára fresti). Við það ætti að hríslast um hann þessi sæta tilfinning sem félagar hans Laden og Gore kannast svo vel við.

Bláókunnugt fólk sagði mér það í óspurðum fréttum í Kaliforníu að það væri að fara að gjósa risastórt eldfjall á Íslandi sem ætti eftir að valda miklu meiri óskunda en þeim sem Eyjafjallaeldstöðin olli. Þetta eru fórnarlömb hræðslumangarans. Þetta er fólkið sem hætti við að koma til Íslands í frí í sumar.

Sameinuðu þjóðirnar, Evrópusambandið, Fifa, Nató, Opec, Amnesty International og allir sem vettlingi geta valdið ættu að taka sig saman og upplýsa heimsbyggðina um eðli og inntak hræðslumangarans. Það væri öllum til góðs. Þessir skaðlegu menn hafa fengið að vaða uppi í fjölmiðlum óáreittir allt of lengi.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 17.5.2010 - 20:40 - FB ummæli ()

Leikarar óskast

Frægt leikskáld sagði eitt sinn að lífið væri leikrit og mennirnir leikarar á sviðinu. Íslenska útgáfan af leikriti lífsins er ólík mörgum erlendum uppfærslum að því leyti að í því eru of fáir leikarar. Það vantar fleiri leikara sem fara út að borða, kaupa í matinn, fylla tankinn, drekka vín, fara í bíó, ferðast um landið og gera yfirleitt það sem leikarar í leikriti lífsins gera.

Halló! Er einhver þarna?

Halló! Er einhver þarna?

Erlendur leikari eyðir 20 þúsund á dag
2008 komu um 473 þúsund útlendingar til landsins og dvaldist hver um viku í landinu (spáð var 600 þús í ár). Ekki er óvarlegt að áætla að hver ferðamaður á Íslandi verji um 20 þúsund krónum á dag meðan á dvöl stendur, fyrir utan ferðakostnað. Það gera níu og hálfan milljarð á ári. Peningurinn dreifist á marga aðila. Hótel, veitingahús, leiðsögumenn, bílaleigur, verslanir og svo framvegis. Fái leikari sér til dæmis rauðvínsglas, greiðir hann gríðarlega háan skatt til ríkisins af því, sömu sögu er að segja ef hann fyllir tankinn á bílaleigubílnum. Snæði ferðamaðurinn á veitingahúsi skapar hann störf í eldhúsi og framreiðslu og afleidd störf í innflutningi og matvælaframleiðslu. Það þarf ekki að telja meira upp til að sjá að hver leikari í leikriti lífsins á Íslandi skapar atvinnu hvert sem hann fer og skilar tekjum á ýmsum stigum til þjóðarbúsins, í formi launa og skatta.

Þröskuldar reistir
Nýlega var svokallað „flugverndargjald“ hækkað um 53% úr 620 krónum í 950 krónur, nýtt 150 króna „farþegagjald“ lagt á hvern farþega og „leiðarflugsgjald“, sem er líka nýtt, lagt á. Reiknað hefur verið út að flugfélögin þurfi að greiða um það bil 400 milljónir til opinberra stofnana á þessu ári ofan á það sem þau greiddu fyrir.

Fella skattana niður
Sá tiltölulega litli beini hagnaður ríkisins af sköttum á flugferðir er dropi í hafið miðað við tekjurnar og umsvifin sem skapast af fleiri ferðamönnum á Íslandi. Miklu vænlegra til árangurs er að fella alla skatta (hvaða nafni sem þeir nefnast) af farmiðum niður. Það mætti meira að segja færa fyrir því rök að það borgaði sig að greiða niður farmiða til landsins með lánum AGS.

Einlægur ásetningur, óheppileg niðurstaða
Stjórnmálamenn sem nú fara með völdin í landinu eru vitaskuld einlægir í viðleitni sinni að bæta hag almennings og ríkissjóðs (kannski aðallega þess síðarnefnda). Sú spurning vaknar óhjákvæmilega hvort aukin skattheimta á ferðir hingað sé misráðin. Flugmiðar þola eflaust einhverja skatta, en minn rökstuddi grunur er sá að engir skattar af flugmiðum skili miklu meiri skatttekjum til ríkisins þegar upp er staðið.

Fátt er sorglegra en leikhús án leikara
Þegar mest þörf er á tekjum og atvinnu er ekki skynsamlegt að setja hindranir á ferðir til og frá landinu. Slík gjöld renna vitaskuld beint út í verðið og draga úr sölu, en sýnt hefur verið fram á það af lærðum mönnum að eftirspurn minnkar í hlutfalli við hækkandi verð.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 6.5.2010 - 19:32 - FB ummæli ()

Lætin í miðbænum

Hvort kom á undan, glaumur skemmtanalífsins í miðbænum eða kverúlantinn sem getur ekki sofið? Vissi hann ekki af því, þegar hann ákvað að búa þar, að fólk hefur safnast saman þar um helgar í áratugi?

Þetta mál er hlægileg vitleysa sem allra síst á heima á forsíðum blaða. Eins og það sé ekki nóg af fréttum.

Mér þykir óþægilegt að búa í miðbænum vitandi af svona fólki í nágrenninu.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 25.2.2010 - 08:06 - FB ummæli ()

McDonalds aftur á Íslandi!

Jibbí.

Eftir að McDonalds yfirgaf Ísland er fátt um fína drætti fyrir sanna McDonalds hamborgaraunnendur. En örvæntið eigi. Þótt McDonalds hafi gefist upp á að elda McDonalds borgara á Íslandi, er ekki þar með sagt að allir þurfi að hætta því. Það er nefnilega ekki svo mikið mál að gera ekta, upprunalegan, ljúffengan og ódýran McDonalds hamborgara heima hjá sér. Aðalatriðið er að FYLGJA uppskriftinni og gera nákvæmlega það sama og McDonalds-bræðurnir gerðu þegar þeir fundu upp hamborgarann vinsæla. Hér á eftir fer uppskrift að hinum eina sanna, venjulega McDonalds hamborgara.

Venjulegur McDonalds hamborgari — uppskrift.

Formáli
Venjulegi hamborgarinn frá McDonalds er hinn eini sanni, gamli góði, hamborgari sem kom fyrirtækinu á kortið 1948. Síðan þá hafa margir hamborgarar verið hesthúsaðir og Venjulegi borgarinn þróast og breyst. Til hins betra segja sumir. Til hins verra segja aðrir. Um miðjan níunda áratuginn datt einhverjum McDonalds liðsmanninum það snjallræði í hug að steikja borgarana báðum megin í einu og stytta þannig steikingartímann um helming. En sú breyting kostaði sitt. Nefnilega bragðið. Það breyttist. Enn eru til menn sem gráta gamla góða, upprunalega, eina sanna McDonalds hamborgarabragðið.

Sögustund
Sölumaður að nafni Ray Krog kynntist McDonalds bræðrunum í San Bernardino í Kaliforníu 1954. Hann var þá að reyna að selja þeim mjólkurhristingsmaskínu. Hann varð svo hrifinn af hamborgaranum að hann gerði samning við bræðurna um að opna útibú í De Plaines í Illinois. Sem hann og gerði ári seinna. Ray loðnaði nokkuð um lófana næstu árin.

Uppskriftin
Nú er rétt að vinda sér að uppskriftinni. Uppskriftin getur af sér tíu hamborgara. Hvort hún dugi tíu manns er ekki gott að segja.

500 gr nautahakk (80% magurt)
10 lítil hamborgarabrauð
10 súrsaðar akúrkusneiðar
10 tsk þurrkaður, saxaður laukur
McDonalds hamborgarakrydd (sjá neðar)
Sinnep
Tómatsósa
10 stk. vaxpappírsblöð, 30×30 sm að stærð

McDonalds hamborgarakrydd
4 msk salt
2 msk bragðbætir (sodium glutamate, msg, „Þriðja kryddið“)
1 tsk malaður svartur pipar
1/4 tsk laukduft

Hrært saman og sett í kryddstauk með nægilega stórum götum fyrir piparinn. Uppskriftin gerir um 90 gr af kryddi. Nauðsynlegt er að setja þetta krydd á ALLA McDonalds hamborgara eigi þeir að standa undir nafni. Þeir sem eru með ofnæmi fyrir msg (glutein ofnæmi) eða vilja ekki nota msg geta einfaldlega sleppt því og aukið salt og pipar um 1 tsk hvort.

Borgararinn
Skipta hakkinu í 10 jafn stórar kúlur. Fletja hverja kúlu út á vaxpappír svo hún verði um 10 sm að stærð og 6 til 7 mm á þykkt. Frysta borgarana í amk. klukkustund (það kemur í veg fyrir að þeir detti í sundur við steikingu).

Laukurinn
Setja þurrkaða laukinn í skál með loki. Vatnið verður að flæða talsvert yfir laukinn, um 10 sm. Skálin látin standa lokuð í ísskáp í hálftíma. Hella vatninu af. Laukurinn ætti þá að vera orðinn eins og ekta, upprunalegur McDonalds laukur. Setja lokið aftur á og kæla í ísskápnum að matartíma.

Súrsaða gúrkan
Súrsaða gúrkan frá McDonalds er alveg sér á báti hvað varðar bragð. Hún er fremur súr. Eina súrsaða gúrkan sem kemst nálægt því að bragðast eins og ekta, upprunaleg McDonalds súrsuð gúrka er frá Heinz. Hægt er að kaupa óskornar súrsaðar gúrkur og skera á eigin spýtur. Gæta ber þess að sneiða gúrkuna afar þunnt. Það er nokkuð vandaverk og eiginlega varla á færi áhugamanna nema þeir eigi áleggsskurðarvél. Annað sem ber að gæta er að sneiða gúrkuna skáhalt því annars verða sneiðarnar of litlar.

Brauðið
Skilja alveg að kórónuna og hælinn. Ekki er víst að það fáist hamborgarabrauð af réttri stærð á Íslandi. Lesendur ættu endilega að láta höfund vita ef þeir vita um stað sem selur slík brauð.

Vaxpappírinn
Mjög mikilvægt er að vefja hamborgaranum í vaxpappírinn að matreiðslu lokinni.

Matreiðsla
Mikilvægt er að hafa innihald uppskriftarinnar tilbúið þegar hafist er handa, vegna þess að eldamennskan tekur afar stuttan tíma. Stilla bakarofninn á 50 gráður, eða lægstu stillingu („Halda heitu“ stillingu). Tvær steikarpönnur, ein fyrir hamborgarana og hin fyrir brauðið. Fíra undir pönnunum. Meiri hita undir hamborgarapönnunni en brauðpönnunni. Það er erfitt að meta hvað er nákvæmlega rétt hitastig. Það fer eftir eldavélum, tegundum og hvort þær eru drifnar af gasi eða rafmagni (æfingin skapar meistarann).

1. Setja kórónur fjögurra brauða á pönnuna þannig að topparnir snúi NIÐUR. Setja eldfast mót (eða eitthvað álíka) ofan á brauðin. Það er gert til að ristunin verði með jöfnum þrýstingi.

2. Setja hálf-frosnu borgarana á pönnuna (eða grillið). Eftir 20 sek þrýsta þeim niður með steikarspaða. Nota höndina sem ekki heldur um spaðann til að þrýsta fremsta hluta steikarspaðans niður í 2 sek. Gæta þess að brenna sig ekki! Steikarhljóðið ætti að magnast við þrýstinginn. Krydda vel með McDonalds hamborgarakryddi.

3. Fjarlægja brauðin af pönnunni. Setja hælana á pönnuna og rista á sama hátt og kórónurnar.

4. Snúa borgurunum eftir 1 mín steikingu. Krydda og setja u.þ.b. 4 tsk af lauk á pönnuna (nota fingurna, ekki tsk, það tekur of langan tíma, æfingin skapar meistarann). 1 tsk á hvern borgara.

5. Skreyta brauðið. Kóróna: 5 kossar af sinnepi á þykkt við blýant í hring um 1,5 sm frá ytri brún með jöfnu millibili. 5 kossar af tómatssósu (helst Hunts) á stærð við íslenska krónu í mynstur eins og fimmta hliðin á teningi lítur út. Setja súrsuðu gúrkuna í miðjuna.

6. Þegar þessu er lokið ættu borgararnir að vera tilbúnir svo fremi brauðskreytingin hafi ekki tekið lengri tíma en 1 mín og 10 sek. Fjarlægja hamborgarana af pönnunni og halla á hlið til að láta auka feiti leka af. Halda lauknum föstum með hinni hendinni. Setja hamborgarann á skreyttu kórónuna, sem er á hvolfi, með laukinn upp. Setja hælinn á.

7. Leggja einn hamborgara á HVOLF á miðjan vaxpappírinn. Vefja þétt utan um borgarann. Það á að líta út eins og sporöskjulaga, ílöng túpa með 2 opna enda en borgara í miðjunni. Vefja opnu endunum undir botninn á hamborgaranum þannig að hann lokist alveg.

8. Setja umvafða hamborgarann í volgan bakarofninn. Þroska í 8 til 10 mín. Á meðan elda hinn helminginn af borgurunum. Gæta þess að pannan sé laus við brenndan lauk þegar næsti skammtur er matreiddur.

Athugið! Mikilvægt er að passa að ofninn hitni ekki of mikið. Þá er hætta á að borgararnir ofþroskist. Einnig má setja hamborgarana í örbylgjuofní 15 sek. Það þroskar þá líka en það gefur ekki sama upprunalega bragðið. Sumum finnst örbylgjuþroskun gefa betra bragð en hefðbundin ofnþroskun.

Gjörið svo vel! Svona voru upprunalegu McDonads hamborgararnir gerðir. Nákvæmlega svona var þeim ÆTLAÐ að vera.

(Þessi frábæra uppskrift mun í fyllingu tímans verða birt á Matarkörfunni, en ég hef gert margra aukastafa útgáfusamning við þá ágætu vefsíðu um uppskriftir eins og þær EIGA að vera.)

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 3.2.2010 - 07:26 - FB ummæli ()

Rúv næsta Netflix?

Nýlega gerðist ég viðskiptavinur Netflix og greiði fyrir þjónustuna fjórtán dali á mánuði. Fyrir þá sem þekkja ekki Netflix, þá er Netflix sjónvarpsstöð og vídeóleiga sem sendir myndir út til viðskiptavina með pósti og yfir internetið. Inni í þessum fjórtán dölum eru tveir diskar á dag og ótakmarkað gláp í gegnum tölvu, Play Station eða sjónvarpið (sé það útbúið móttökutækni).

Netflix

Netflix hefur slegið í gegn í Bandaríkjunum.

Kunningi minn er með Netflix eins og ég. Sá er þó munurinn á okkur að hann er eingöngu með Netflixið. Ekkert hefðbundið sjónvarp.  Ekki með stöðvar á borð við RÚV, Stöð tvö, ÍNN og Skjá einn. Enga stöð sem mallar daginn út og inn án tillits til þess hvort það henti áhorfendum eða ekki.

Stóra Planið á Netflix

Stóra Planið á Netflix.

Netflix er einn af boðberum mikilla breytinga sem eru að eiga sér stað. Hefðbundið sjónvarp er barn síns tíma, barn þess tíma þegar eini möguleikinn á miðlun efnis var einhliða. Fyrirtæki sem senda úr efni á hefðbundinn hátt verða að bregðast við nýjum veruleika og hasla sér völl á þessu sviði. Netið er að taka yfir sem miðill efnis. Áhorf á hefðbundið sjónvarp, eins og til dæmis RÚV, fer minnkandi. Enda ekki skrýtið, flestir vilja ráða því sjálfir hvenær þeir horfa.

Nói Albínói á Netflix.

Nói Albínói á Netflix.

Ríkismiðillinn íslenski er í góðri aðstöðu til þess að gerast slíkur miðlari (gæti heitið Rúvflix, borið fram rúhffligs, beygist eins og kornflex. So: rúvflixa). Í safni Rúv er mikið af íslensku efni, útvarps- og sjónvarpsefni, sem myndi án efa njóta vinsælda ef hægt væri að leigja eða kaupa sérstaklega og horfa eða hlusta á yfir net eða af diski.

Umbreyting á Rúv í gagnvirkan miðlara efnis yrði þó að vera gert með samningum um að hlú að íslenskri menningu og tungu, vegna þess að menningarþátturinn er eiginlega eina haldgóða röksemdin fyrir tilverurétti Rúv. Flestir eru sammála um að það er ekki hlutverk ríkisins að sýna sjónvarpsþáttinn „Aðþrengdar eiginkonur“, svo dæmi sé tekið (þótt góðir séu). Það þarf líka að gæta þess sérstaklega að staðið sé við gerða menningarsamninga (en á því virðist vera misbrestur. Það að skrækja íslensku inn á erlent barnaefni er sögð vera íslensk kvikmyndagerð í bókum Rúv).

Úrvalið hjá Netflix er afar gott. Hér eru gamanmyndir frá fjórða áratug síðustu aldar (sem ég er hrifinn af í augnablikinu).

Úrvalið hjá Netflix er afar gott. Hér eru gamanmyndir frá fjórða áratug síðustu aldar (sem ég er hrifinn af í augnablikinu).

Rúvflix gæti, ef rétt er á málum haldið, orðið vettvangur innlendrar kvikmyndagerðar af öllum tegundum. Framhaldsþætti, stuttmyndir, heimildarmyndir, viðtöl og hvaðeina sem sköpunargáfan getur af sér, mætti sýna á Rúvflixinu. Semja mætti við rétthafa um greiðslu fyrir hvert skipti sem horft/hlustað er á efnið. Með því móti fæst góður mælikvarði á vinsældir og höfundar fá greitt í samræmi við notkun. Enginn þarf að kvarta undan mismunun þegar áhorfendur sjálfir greiða fyrir notkunina, hvort sem það er beint eða með nefskattinum.

Queen Raquela á Netflix. Það má með sanni segja að Netflix sé Íslandsvinur. Að sama skapi er ljóst að Ólafur Jóhannesson kvikmyndagerðarmaður er útrásarvíkingur.

Queen Raquela á Netflix. Það má með sanni segja að Netflix sé Íslandsvinur. Að sama skapi er ljóst að Ólafur Jóhannesson kvikmyndagerðarmaður er útrásarvíkingur.

Það setur strik í reikninginn að ríkisfyrirtæki eins og Rúv er í eðli sínu ekki framsækið. Ég tel að það stafi af því að langflestir gera sér grein fyrir að ríkisrekstur á fjölmiðli er óviðeigandi, þótt þeir viðurkenni það ekki opinberlega og það hefur lamandi áhrif svipað og vond samviska. Flestar röksemdirnar fyrir sérstöku ríkisfyrirtæki í fjölmiðlarekstri hafa verið hraktar, einkum síðari ár. Hvort sem það er öryggishlutverk vegna hamfara, þjónusta við landsbyggðina, stuðningur við menningu eða hlutleysi í fréttaflutningi. Netið eitt og sér tryggir öllum greiðan aðgang að fjölmiðli og þar fær menning þjóðarinnar notið sín með sínum kostum og göllum. Líkurnar á því að Rúv gerist Rúvflix verða að teljast frekar litlar.

Ég myndi taka því fagnandi og jafnvel gerast áskrifandi ef efni úr safni Sjónvarpsins yrði gert aðgengilegt á netinu. Safn sjónvarpsins er nefnilega eins og Borgarbókasafnið sem heldur utan um menningu þjóðarinnar. Munurinn er þó sá að Borgarabókasafnið er aðgengilegt almenningi en Safn sjónvarpsins ekki.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 17.1.2010 - 04:05 - FB ummæli ()

Bolir á útsölu

Ég var beðinn fyrir hönd ákveðinnar hönnunarstofu hér í bæ að falbjóða tvo boli á niðursettu verði. Mér finnast þessir bolir frekar ljótir (litlausir, minna á gráan hversdagsleika kommúnistaríkjanna sálugu) og hvet engan til að kaupa þá, en ég kann ekki við að vera dónalegur við vin minn sem bað mig að gera sér þennan greiða.

Þennan texta bað hann mig að láta fylgja með:

Afsláttarverðið er ekkert minna en æðislegt, þú sparar 378% frá listaverði og þarft aðeins að reiða fram 29,990 krónur fyrir stykkið, staðgreitt. Inn í þessu einstaka afsláttarverði er 30% virðisaukaskattur, en hann er hafður svona hóflegur vegna hinnar GLÆSILEGU niðurstöðu íslensku samninganefndarinnar í Icesave málinu. Sérstakur afsláttur er veittur ef báðir bolirnir eru keyptir, eða 456% af listaverði. Samtals kosta bolirnir tveir, pakkaðir í plast, aðeins 75,990 krónur.

Bolirnir fást í öllum stærðum, hvítir með svötru letri. 0,001 prósent af sendingarkostnaðinum rennur óskipt til Stjórnmálamannahjálpar Sameinuðu þjóðanna.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 9.12.2009 - 07:06 - FB ummæli ()

McHrútspungar

Einu sinni var Guðmundur Ólafsson, hinn ágæti leikari og rithöfundur, á ferðalagi í útlöndum. Eins og gerist stundum þá rakst Guðmundur á heimsfrægan mann. Engan annan en Luciano Pavarotti. Þar sem Guðmundur er framfærinn maður og sjálfur liðtækur söngvari (lék slíkan í leikritinu Tenórinn) gaf hann sig á tal við Pavarotti. Fór vel á með þeim skildist mér á Guðmundi, en hann sagði þessa sögu í útvarpinu fyrir nokkrum árum. Það sem mér þótti eftirminnilegast við sögu Guðmundar var staðurinn sem fundum hins ítalska stórsöngvara og íslenska leikara bar saman.

Sjálfur hef ég rekist á frægt fólk í útlöndum, en þó ekki er ég fór í menningarferð til Hong Kong. Hong Kong er fögur borg sem iðar af mannlífi og blikkandi neonskiltum og þar eru margir veitingastaðir vestrænir sem austrænir. Mig langaði að kynnast menningu borgarinnar og þefaði uppi ekta hong kongískan veitingastað. Veitingahúsið var lítið og notalegt og það sátu eingöngu innfæddir til borðs. Er ég gluggaði í matseðilinn komst ég að því að hann var á ljómandi útlitsfríðri mandarínsku. Þar sem ég skil ekki það tungumál valdi ég matinn af handahófi. Rétturinn sem ég pantaði var fráhrindandi. Sjávarskordýr á núðlubeði með slorbragði. Sjávardýrið hef ég hvorki fyrr né síðar séð.

Ég yfirgaf staðinn án þess að borða matinn og fór á næsta McDonalds. Matseðilinn þar skildi ég vel vegna þess að á honum voru myndir auk þess sem hann var á ensku. Ekki nóg með það, ég vissi hvernig rétturinn sem ég pantaði var á bragðið þótt ég hefði aldrei komið inn á þennan stað áður.

Á framandi slóðum er gott að eiga fasta keðju í tilverunni. Þótt hægt sé að lesa sig til um góða veitingastaði í ferðahandbókum, eru ekki allir sem nenna því, einkum ef ferðin er stutt. McDonalds var mér skjól og það gerði mér svo aftur kleift að kynnast annarri menningu Hong Kong saddur og sæll en ekki svangur og fúll. Maður þarf jú að borða nokkrum sinnum á dag og er ekki alltaf reiðubúinn að prófa „eitthvað nýtt“.

„Á McDonalds veit maður að minnsta kosti hvað maður fær“ er viðkvæði sumra skyldmenna minna á ferðalögum í útlöndum. Og þetta fólk vandi ekki komur sínar á McDonalds á Íslandi, meðan sá staður var og hét, vegna þess að á Íslandi hefur það komið sér upp næringarkerfi sem það þekkir í þaula. Ég hygg að það öryggi sem skyndibitastaðir eins og McDonalds veita með því að bjóða allstaðar upp á sama matinn sé lykillinn að vinsældum þeirra. Það er miklu meiri óvissu háð að fara td. á Chongs Steakhouse, Jacks Noodle Bar eða Luigis Pastaplace í útlöndum. Hver veit nema Chongs Steakhouse sé sóðaleg búlla? Hver veit nema Jacks Noodle Bar sé frontur eiturlyfjasala og Luigis Pastaplace sé rekið af óvönduðum mönnum sem stela kortanúmerum?

Mannskepnan leitar að öryggi og vanafestu, ekki síst hvað mat snertir, vegna þess að áður fyrr var það trúlega spurning um að komast af að finna þann mat sem hentaði og hengja sig á hann (ekki eitraður, næringarríkur, fór vel í viðkomandi maga). Allir þekkja fólk, ósjaldan börn, sem er dyntótt í mataræði. Sem borðar eingöngu hamborgara með tómatsósu og engu öðru, pylsu með tómatsósu ofan á og undir, drekkur eingöngu Pepsi Max, borðar ekki rauðkál, baunir, blómkál, tómata, lauk osvfrv. Gyðingar borða ekki svínakjöt vegna þess að einu sinni fylgdu því sjúkdómar (etv. inflúensuveira, svínaflensa). Síðan varð það hluti af trúnni. Það að borða ekki svínakjötið var lykilatriði í því að komast af. Matseðill sem virkar vel, er ein af grunnþörfum mannskepnunnar.

Það að McDonalds sé ekki lengur í boði á Íslandi er trúlega meiri ímyndarskaði fyrir landið en virðist í fyrstu. Margir útlendingar sem lásu fréttina töldu að það væri matarskortur á Íslandi eða eitthvað þaðan af verra. Þeir sem hyggjast etv. koma til landsins hafa einum valkosti færra hvað mat snertir eftir að McDonalds hætti. Geta ekki lengur kynnt sér sviða- og hrútspungamenninguna vitandi af McDonalds í nágrenninu.

Hráefnið í McDonalds á Íslandi kom frá Þýskalandi og þeir sem telja það sem miður fer í matvælaframleiðslu í Bandaríkjunum koma því eitthvað við, eru lítilla sanda. Vandinn við fjöldaframleiðslu matvæla er almennur, ekki bundin við einstaka keðjur eða skyndibita. Fáir hafa sakað Þjóðverja um óvönduð vinnubrögð í matvælaframleiðslu þótt eflaust sé þar pottur brotinn eins og annars staðar.

Ítalir eru frægir fyrir að vera matgæðingar, ótal veitingastaðir tengdir Ítalíu bera þess glöggt vitni. En hvar skyldu leiðir hins ítalska stórtenórs Pavarottis og Guðmundar Ólafssonar stórleikara hafa borið saman? Jú, á McDonalds. Nú grunar mig að Guðmundur sé enginn sérstakur aðdáandi bandarískra stórfyrirtækja og allra síst kona hans Olga Guðrún Árnadóttir (sem söng um Keflavíkurveginn og Karl Marx á sínum tíma). Það aftraði honum þó ekki frá því að fá sér einn feitan BigMac. Líklegt má teljast að Guðmundur, eins og margir aðrir, hafi einfaldlega verið svangur og viljað fá sér eitthvað sem hann þekkti á einfaldan fljótlegan hátt. Og Pavarotti líka.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Sigurgeir Orri Sigurgeirsson
sögumaður. Sagði söguna af Alfreð Elíassyni og Loftleiðum í samnefndri heimildarmynd og Árna Sam. í SAM-bíóunum í bókinni Á fullu í 40 ár.
RSS straumur: RSS straumur