Laugardagur 14.04.2018 - 15:02 - FB ummæli ()

Við lærum fyrir lífið

Reykjavík sem höfuðborg á að vera leiðandi í rekstri grunn- og leikskóla og setja ríkar kröfur um gæði þeirra skóla sem sveitarfélagið á og rekur. Fyrir leikmann eins og mig sem á ekki lengur börn í skólum borgarinnar þá er umræðan mjög vandamálahlaðin og er það miður. Við treystum leik- og grunnskólakennurum fyrir börnunum okkar lungað úr deginum og það er óásættanlegt ef slæmur andi er innan skólaveggjana. Það getur ekki heldur verið gott fyrir starfsandann að standa í kjarabaráttu árum saman. Kulnun í starfi er mjög algeng hjá þessum fjölmennu kvennastéttum og það eitt og sér er rannsóknarefni. Nú bætist ofan á allt að húsnæði einhverra skóla er orðið heilsuspillandi vegna raka og myglu. Borgin hefur sparað sér til tjóns í viðhaldi á skólabyggingum í þessu góðæri sem gengið hefur yfir borgarsjóð.

Miðflokkurinn ætlar að setja nemandann í fyrsta sæti, veita þeim sem þurfa, einstaklingsmiðað nám og efla úrræði fyrir ungt fólk með sérþarfir. Þarna erum við ekki síður að beina sjónum okkar að þeim börnum sem þurfa mjög krefjandi verkefni og leiðist í skólanum af þeim sökum að námsefnið er of létt, frekar en þeim sem þurfa mikinn stuðning. Ísland er þekkt fyrir snjalla frumkvöðla og það verður að hlúa að snillingunum strax í æsku. Fegurðin í einstaklingsmiðuðu námi fyrir báða hópa er að oft finnast mestu snillingarnir og frumkvöðlanir í þeim sem illa ná að fóta sig í þeim fögum sem eru hefðbundin samkvæmt stundaskrá.

Hér á eftir fer stefna Miðflokksins í Reykjavík í skólamálum. Miðflokkurinn ætlar að auka á sjálfstæði grunnskólanna og draga úr miðstýringu að öðru en því sem snýr að innkaupum. Við ætlum að endurskipuleggja algjörlega menntastefnu Reykjavíkurborgar með tilliti til reynslu undanfarinna ára. Áhersla skal lögð á kennslu í lestri, íslensku og reikningi og auka vægi verklegra greina, listgreina og íþrótta. Miðflokkurinn ætlar að hafa gjaldfrjálsa grunnskóla hvað varðar námsgögn. Hádegismatur í skólum verður einnig gjaldfrjáls fyrir börn 6-12 ára. Til að fyrirbyggja sóun á útsvarstekjum þá verða námsgögn boðin út fyrir alla skólana í einu til að ná bestun í innkaupum. Við fullyrðum að hægt er að ná hagstæðari innkaupum í mötuneytum borgarinnar eins og kom í ljós í tilraunaverkefni sem farið var í í Grafarvorgi og hlaut nýsköpunarverlaun 2014. Kostnaður sem borgin ber við að hafa gjaldfrjálsan mat í grunnskólum fyrir þennan aldur er rúmur milljarður á ári.

Margir hafa rætt það að innleiðing skóla án aðgreiningar hafi mistekist. Við ætlum ekki að kveða svo fast að orði en eitt er víst að fara verður ofan í saumana á skólastarfi í borginni því öll erum við sammála um að árangurinn í skólastarfi er algjörlega óásættanlegur miðað við samanburð við aðrar þjóðir. Við ætlum að gera skólastjórnendur ábyrga fyrir að leysa úr eineltismálum í skólum borgarinnar og á þeim málum verður að taka á af mikilli festu. Ljót eineltismál hafa líka komið upp síðustu ár á milli kennara og nemenda þar sem hagur nemandans hefur verið fyrir borð borinn. Við gerum þá kröfu til skólastarfs að nemandinn sé ávallt í fyrsta sæti því samkvæmt lögum hefur hann skólaskyldu.
Við lærum ekki fyrir skólann, við lærum fyrir lífið

Flokkar: Óflokkað

»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vigdís Hauksdóttir
Vigdís Hauksdóttir er borgarfulltrúi Miðflokksins, hún sat á þingi á árunum 2009 til 2016 og var meðal annars formaður fjárlaganefndar frá 2013.
RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir