Fimmtudagur 09.06.2016 - 17:32 - FB ummæli ()

Hvar eru almannahagsmunir?

Dómur Hæstaréttar um að loka beri NA-SV braut Reykjavíkurflugvallar er gríðarleg vonbrigði fyrir mig sem stjórnmálamann, og nefndarmann í umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis, sem barist hefur fyrir því að flugvöllurinn fái að vera áfram í Vatnsmýrinni og hann megi nýta að fullu með öryggishagsmuni borgaranna að leiðarljósi, s.s. í sjúkraflugi. En hver ber ábyrgð?  Minn eigin flokkur, Sjálfstæðisflokkurinn, getur ekki vikist undan ábyrgð og ekki heldur Hanna Birna Kristjánsdóttir fyrrverandi innanríkisráðherra.  Samt hafði Landsfundur lýst yfir eindregnum stuðningi við Reykjavíkurflugvöll.  Þetta eru ekki lýðræðisleg vinnubrögð eða í skásta falli léleg vinnubrögð.

Úr dómi Hæstaréttar í dag:

,,Þegar efni skjalsins 25. október 2013 er túlkað er hafið yfir skynsamlegan vafa að með því gekkst innanríkisráðherra undir þá skuldbindingu að tilkynna um lokun flugbrautar 06/24 á Reykjavíkurflugvelli samtímis því að nýtt deiliskipulag fyrir flugvallarsvæðið yrði auglýst og að þá skyldi jafnframt endurskoða gildandi skipulagsreglur fyrir flugvöllinn til samræmis. Atvik í aðdraganda að gerð þessa skjals og atvik sem síðar urðu, ekki síst tilkynningar innanríkisráðuneytisins til Isavia ohf., eins og gerð hefur verð grein fyrir að framan, renna enn frekari stoðum undir þennan skilning. Verður ekki dregin önnur ályktun en sú að stjórnvaldsákvörðun um lokun flugbrautarinnar hafi þegar verið tekin, svo og um að skipulagsreglur fyrir Reykjavíkurflugvöll skyldu endurskoðaðar og að skuldbindingar þær sem um ræðir lúti að því við hvaða aðstæður þessar ákvarðanir yrðu framkvæmdar.“

Reykjavíkurflugvöllur í Vatnsmýri eru einhver helstu lífsgæði okkar Íslendinga; flugvöllur inn í miðri höfuðborg, já það eru lífsgæði. Reykjavík er nefnilega höfuðborg allra landsmanna og þangað þurfa landsmenn eðlilega margt að sækja. Við eigum að vera stolt flugvellinum okkar sem þjónar svo mörgum en ekki að finna honum allt til foráttu. Flugvöllurinn afar mikilvægur fyrir sjúkraflug enda steinsnar frá Landspítalanum sem er eina bráðasjúkrahús landsins og eykur þar með öryggi þeirra sem búa á landsbyggðinni.  NA-SV brautin, sem nú verður að loka, hefur verið talin nauðsynleg í því að hafa það öryggisnet sem þéttast og best.  Þetta er að mati sjúkraflugmanna og fleiri.

Hvar eru almannahagsmunir í þessu máli?

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Elín Hirst
Alþingismaður

Elín er fædd í Reykjavík 4. 9. 1960.
RSS straumur: RSS straumur