Fimmtudagur 24.8.2017 - 13:13 - FB ummæli ()

„Það finnst bara enginn betri“

Fyrir ekki svo löngu var ég sendur af Evrópuráðinu til Kazakhstan til að sinna kosningaeftirliti. Í því landi ræður Nursultan Nazarbayev ríkjum og hefur gert frá 1991. Í síðustu forsetakosningum fékk hann um 98% atkvæða. Í þingkosningum fékk flokkur hans litlu minna.

Á kjördag var ég á flakki milli kjörstaða fyrir utan höfuðborgina Astana, ásamt bílstjóra og túlki. Mér varð á að spyrja þau af hverju ekki fengist frambærilegur frambjóðandi gegn forsetanum. Það sló þögn á ferðafélaga mína og þau litu á hvort annað. Loks sagði túlkurinn: “ Það finnst bara enginn betri.“

Mér hefur oft verið hugsað til þessara orða þegar kemur að foringjavali í íslenskri pólitík. Leiðtogar flokka eru yfirleitt sjálfkjörnir hafi þeir á annað borð áhuga á að starfa áfram. Frá þessu eru reyndar allmargar undantekningar, en það þarf almennt nokkuð mikið að ganga á áður en sjálfir leiðtogarnir falla.

Framundan eru áhugaverðir fundir hjá stóru flokkunum. Þannig er landsfundur Sjálfstæðisflokksins handan við hornið, sömuleiðis landsfundur Vinstri grænna, að ógleymdu flokksþingi Framsóknarflokksins strax eftir áramót.

Hér vakna spurningar. Ljóst er að breytingar verða í forystusveit sumra flokka, ekki síst hvað varaformennsku varðar. En ná breytingarnar lengra? Er t.d. sjálfgefið að Bjarni Benediktsson gefi kost á sér sem áframhaldandi formaður Sjálfstæðisflokksins? Bjarni hefur sannað sig sem sterkur stjórnmálamaður, en er hugsanlegt að áhuginn sé farinn að dvína?

Ég veit ekki svarið.

Eða verður niðurstaða allra þessara funda kannski bara eins og í Kazakhstan. „Það finnst bara enginn betri.“

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 18.8.2017 - 09:47 - FB ummæli ()

Týnda fólkið

Stjórnarandstæðingar nota oft þann frasa að ráðherrar komi litlu í verk, þá skorti kjark til að taka á aðkallandi málum o.sv.frv. Þeir séu í raun „týndir“ í embættum sínum.

Þetta er auðvitað gott og blessað – menn nota þau vopn í pólitískri baráttu sem þeir telja sig hafa hverju sinni. Oft er lítil sem engin innistæða fyrir svona upphrópunum – ráðherrar reyna auðvitað að gera sitt besta, sama í hvað flokki þeir eru. Þeir eru líka misduglegir við að koma sér á framfæri.

Þetta kom hins vegar upp í hugann í gær þegar ég þurfti að finna út hvaða ráðherra hefði með ákveðinn málaflokk að gera. Þá áttaði ég að mig á því að ég mundi ekki nafn viðkomandi ráðherra. Það má kannski skrifa þetta á elliglöp, en varð til þess að ég velti fyrir mér hvort raunverulega væri hægt að tala um „týndu ríkisstjórnina.“ Auðvitað vita flestir hverjir gegna embættum forsætis- og fjármálaráðherra. En hvað með hina?

Hér er því lítil þraut á föstudagsmorgni:

a) Hver er iðnaðarráðherra?
b) Hver er sveitastjórnarráðherra?
c) Hver er jafnréttismálaráðherra?
d) Hver er menntamálaráðherra?
e) Hver er menningarmálaráðherra?
f) Hver er landbúnaðarráðherra?

Sjálfur fór ég inn á vef stjórnarráðsins til að hafa svörin á hreinu. Það væri hins vegar óskandi ef önnur eða báðar sjónvarpsfréttastofunar færu á stúfana í dag og spyrðu almenning þessara spurninga.

Svörin gætu komið á óvart.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 21.4.2017 - 19:45 - FB ummæli ()

Ástir samlyndra hjóna í ríkisstjórn

Þorsteinn Víglundsson félagsmálaráðherra var spurður í RÚV í kvöld hver væru helstu afrek ríkisstjórnarinnar á fyrstu 100 dögum hennar. Hann taldi fram ríkisfjármálaáætlun og tvær nefndir sem til stæði að tilnefna í.

Verkleysi ríkisstjórnarinnar er hins vegar ekki helsta vandamálið sem blasir við í stjórnarsamstarfinu. Fylgishrun Viðreisnar og Bjartrar framtíðar er stærri og erfiðari biti.

Það er engin tilviljun að samstarfsflokkar Sjálfstæðisflokksins tapa alltaf fylgi á meðan hann fitnar eins og púkinn í fjósi Sæmundar. Sjálfstæðisflokkurinn er eins og vel smurð vél og deilur innan flokksins ná sjaldan upp á yfirborðið, Bjarni Benediktsson er einn sterkasti forystumaður stjórnmálanna í dag og stefnan er skýr í flestum málaflokkum. Kjósendur vita að hverju þeir ganga.

Á meðan eru sumir aðrir flokkar meira og minna þjakaðir af sundurlyndi og innbyrðis átökum.

Það á kannski ekki sérstaklega við um Viðreisn og Bjarta framtíð, en Sjálfstæðisflokkurinn hefur hins vegar gert þessum flokkum þann „greiða“ að eftirláta þeim erfið og umdeild ráðuneyti. Slíkt leiðir sjaldnast til fylgisaukningar.

Óttarr Proppé og Benedikt Jóhannesson eiga erfiða daga framundan. Fylgi þeir ekki stefnu Sjálfstæðismanna í stóru málunum blasa kosningar við – það myndi henta Sjálfstæðisflokknum ágætlega, en yrði ávísun á þjáningarfullan dauðdaga Viðreisnar og Bjartrar framtíðar. Við slíkar aðstæður er betra að láta undan.

Við sjáum fyrstu merki þessarar undanlátssemi í fréttum þessi dægrin, þar sem Óttarr Proppé fer undan í flæmingi þegar talið berst að einkavæðingu heilbrigðiskerfisins.

Öðruvísi mér áður brá.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 20.3.2017 - 16:44 - FB ummæli ()

Þangað leitar klárinn…

Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar hefur nú kvittað upp á að íslenskir launþegar greiði okurvexti til vogunarsjóða næstu árin, þökk sé sölunni á góðum hlut í Arion banka. Hélt í fáfræði minni að menn hefðu fengið nóg af þeim samskiptum. Það er aldeilis ekki.

Tók einmitt lán hjá Arion í síðasta mánuði og brosi allan hringinn. Sé ekki eftir vaxtagjöldum til góðra málefna.

Um Fjármálaeftirlitið, Bjarna Benediktsson og Benedikt Jóhannesson er hins vegar eitt að segja:

Þangað leitar klárinn sem hann er kvaldastur.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 18.3.2017 - 13:49 - FB ummæli ()

Geimferð aldraðra

Fyrir nokkrum mánuðum horfði ég á þingmann Pírata nánast tárast þegar tillaga þeirra um aðild að Geimvísindastofnun Evrópu var samþykkt á Alþingi. Á sama tíma var tillögu undirritaðs og fleiri þingmanna Framsóknarflokksins um að aldraðir fengju umboðsmann kurteislega sópað undir teppið.

Nú ætla ég ekki að gera lítið úr geimvísindum og möguleikum okkar þar – en þetta vakti mig þó til umhugsunar um forgangsröðun þingsins.

það eru tæp tuttugu ár frá því að tillaga um stofnun umboðsmanns aldraðra leit fyrst dagsins ljós á Alþingi. Aldrei hefur málið náð í gegn. Þörfin er hins vegar mikil. Við búum í flóknu þjóðfélagi þar sem aldraðir þekkja oft á tíðum illa rétt sinn Þetta leiðir iðulega til þess að lífsgæði þeirra verða lakari en ella. Það þarf að upplýsa aldraða um réttindi sín og það þarf að gæta þess að ekki sé brotið á þeim.

Nú berast fréttir af málaþurrð á Alþingi. Á meðan dunda þingmenn sér við að leggja fram gömul mál að nýju. Ekki hef ég heyrt af því að umboðsmaðurinn sé kominn á dagskrá.

Á ég að trúa því að enginn ætli að leggja fram tillögu um umboðsmann aldraðra? Eða eru aldraðir kannski bara best geymdir úti í geimnum?

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 7.12.2016 - 22:37 - FB ummæli ()

Hjólað í blaðamenn!

Sem áhugamaður um hjólreiðar þá fagna ég því hvað áhugi á þessari góðu íþrótt fer vaxandi hérlendis. Þannig líður varla sá dagur að maður lesi ekki um einhvern sem er að „hjóla í“ þennan eða hinn. Nýjasti hjólreiðamaðurinn er Björn Bjarnason, sem að sögn eyjunnar í dag „hjólar í Fréttablaðið.“

Kannski verður Reykjavík hjólaborg Evrópu 2017.

Gísli Ásgeirsson hefur um árabil haldið vel utan um þessa hjólaáráttu á facebook síðu sinni. Og eins og hann orðar það réttilega: „Að hjóla í fólk er góð skemmtun.“ Hér kemur mín eigin stutta útgáfa:

1) Björn hjólar í Fréttablaðið (Eyjan 07.12.16)
2) Vilhjálmur hjólar í Gylfa (DV 23.11.16)
3) Donald Trump hjólar í Alec Baldwin (Vísir 20.11.16)
4) Ingó hjólar í Iceland Airwaves (Vísir 7.11.16)
5) Sara Heimis hjólar í Rich Piana (Nútíminn 17.11.16)
6) Bjarni hjólar í borgaralaun (Mbl. 29.09.16)
7) Carragher hjólar í markvörð Liverpool (433.is 15.12.16)
8) Friðrik Dór hjólar í Bónus (Séð og heyrt)
9) Höskuldur hjólar í Sigmund (RÚV 06.09.16)
10) Brynjar Níelsson hjólar í Birgittu Jónsdóttur (fréttastofa.is 1.11.16)
11) Sigmundur Davíð hjólar í þjóðfélagsumræðuna (fréttastofa.is 20.10.16)
12) Hjörleifur hjólar í Svandísi sem segist vera döpur (T24 22.11.16)
13) Dagur B. hjólar í borgarbúa (martagudjonsdottir.blog.is 06.09.16)
14) Davíð hjólar í blaðamenn og Birgittu (Hringbraut 14.04.16)
15) Ragga hjólar í fjölmiðla (Bleikt.is 16.08.16)
16) Sunna hjólar í Eggert (Stundin.is 2.02.16)
17) HSG hjólar í WOW Cyclothon (hjalparsveit.is 14.06.16)
18) Birgitta hjólar í Viðreisn (Eyjan 16.11.16)
19) Benedikt hjólar í Frosta vegna fundar með Guðmundi í Brim (DV 24.11.16)
20) Logi Bergmann hjólar í fýlupoka (DV 11.06.16)

Lifi hjólreiðar!

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 2.12.2016 - 18:32 - FB ummæli ()

Pólitískt harakiri!

Það er örugglega gaman að vera ráðherra. Að vera „aðal“ í pólitíkinni. Og geta sagt barnabörnunum seinna frá afrekunum.

Allavega svona oftast nær.

Nú freista Píratar þess að koma saman fimm flokka stjórn ólíkra flokka. Það væri vissulega forvitnilegt að sjá slíka tilraun heppnast – svona út frá pólitísku sjónarhorni. Og það væri ekki síður gaman að sjá Birgittu Jónsdóttur í stól forseta Alþingis – í hlutverki vinnustaðasálfræðingsins. Hlutverk forseta þingsins er nefnilega ekki síst að ná sáttum og finna leiðir til að ólíkt fólk geti unnið saman. Hann þarf að vera sannkallaður vinnustaðasálfræðingur.

Sjálfur sé ég ekki Birgittu fyrir mér í þessu hlutverki, minnugur þess að kalla þurfti til slíkan sálfræðing til að miðla málum í þriggja manna þingflokki Pírata ekki fyrir löngu.

Annað er þó athyglisverðara. Ólíklegt er að fimm flokka stjórn lifi lengi. Til þess eru flokkarnir of ólíkir. Þá mun þvælingslegt og óljóst stjórnkerfi Pírata koma í veg fyrir eðlilega stjórnsýslu. Líklega yrði fljótlega boðað til kosninga að nýju – hætt er við að samstarfið við Pírata verði banabiti eins eða fleiri flokka í þessu samstarfi.

Arfleifðin verður pólitískt harakiri.

Eitt er víst. Það verða jól allt árið í stjórnarandstöðu hjá Sjálfstæðis- og Framsóknarflokki, fari svo að draumur Birgittu um fjölflokkastjórn rætist.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 24.11.2016 - 13:03 - FB ummæli ()

Einþykkni og þrjóska

Það má kannski læra eitt af stöðunni sem komin er upp í pólitíkinni.

Stórar yfirlýsingar um að þessi eða hinn flokkurinn muni ekki vinna með ákveðnum flokkum eru ekki skynsamar. Þær bera þvert á móti vott um pólitískan barnaskap og þrjósku.

Stjórnmál snúast um málamiðlanir. Í stjórnamyndunarviðræðum nær enginn öllu sínu fram. Þó að ljósár séu á milli hugmyndafræði flokka ber þeim samt að ræða saman þegar kemur að stjórnarmyndun. Kanna hvar snertifletirnir eru. Síðan er hægt að meta framhaldið.

Stjórnmálin eru smituð af einþykkni og þrjósku. Ef menn eru ósáttur eða í fýlu stofna þeir bara nýja flokka – um sjálfa sig og sitt egó. Dæmin eru fyrir framan okkur. Það er ekkert að því að hafa ákveðnar skoðanir og standa með þeim – það er hins vegar oft gengið of langt.

Því miður bendir fátt til þess að breytingar verði á. Í öllum kosningabaráttum síðari ára hefur verið rætt fjálglega um breytingar á umræðuhefð og vinnubrögðum.

Það bendir fátt til þess að sá draumur sé að rætast.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 21.11.2016 - 13:12 - FB ummæli ()

Rífandi stemning!

Rífandi stemning er nú á íslenskum hlutabréfamarkaði sem er í frjálsu falli eftir að Katrín Jakobsdóttir tilkynnti um viðræður vinstri flokkanna um stjórnarmyndun.

Þetta gerist á sama tíma og hlutabréfamarkaðir í hinum vestræna heimi eru í mikilli uppsveiflu.

Verðbréfamarkaðir eru næmir fyrir breytingum sem kunna að verða á stjórnarháttum. Hérlendis eru skilaboðin skýr. Fimm flokka ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur mun hafa neikvæð áhrif á hagkerfið, efnahagslífið og heimili landsins.

Katrín byrjaði reyndar strax í Bítinu á Bylgjunni í morgun. Gaf undir fótinn með skattahækkanir á miðstéttina, með því bæta aftur inn skattþrepinu sem átti að fella út um áramótin.

Það verður gaman að lifa á nýju ári!

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 26.10.2016 - 12:52 - FB ummæli ()

Óbærilegur léttleiki

Aflandskrónueigendur eru búnir að kaupa kampavínið til að fagna nýju vinstri stjórninni á Íslandi.

Þeir eru óvitlausir. Vita sem er að nýja vinstri stjórnin verður meðfærilegri en stjórn Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins. Þannig hefur Financial Times eftir lögmanni tveggja fjárfestingasjóða, sem eiga aflandskrónueignir, að væntanlega muni ný stjórn horfa allt öðruvísi á málin en núverandi stjórn hefur gert. Þannig gera þeir sér vonir um að hægt verði að semja um betri kjör komist vinstri flokkarnir til valda.

Þetta er eflaust rétt hjá þeim. Aflandskrónueigendur hafa alltaf litið á Framsóknarflokkinn sem sinn helsta óvin á Íslandi. Í kosningabaráttunni fyrir rúmum þremur árum hlógu fulltrúar vinstri flokkanna að Framsókn, og þá ekki síst Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, fyrir að láta sér detta í hug að hægt væri að ná í fjármagn til kröfuhafa og annarra sem áttu lokað fjármagn hérlendis. Annað kom á daginn.

Aflandskrónueigendur boða núna óbærilegan léttleika tilverunnar komist vinstri stjórn til valda.

Til að koma í veg fyrir það verður að kjósa Framsókn – XB

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Karl Garðarsson
Höfundur er fyrrverandi þingmaður Framsóknarflokksins á Alþingi
RSS straumur: RSS straumur