Föstudagur 27.07.2012 - 02:33 - FB ummæli ()

Fjallabaksleið með kínverskan kompás

Ég fékk eins konar hugljómun í fyrradag. Áttaði mig á máli sem ég hef verið að velta fyrir mér í þónokkurn tíma og ekki komist til botns í. Fann samhengið. Þetta er pælingin sem mig langar að bera undir lesendur.

Eins og margir muna flutti Sigrún Davíðsdóttir nokkra pistla og fréttir þegar skyndilega fréttist að maður nokkur vildi kaupa 0,3% af Íslandi – bæði um manninn sjálfan og fjárfestingar landa hans víða um heim. Það er ekki úr vegi að rifja þá upp áður en lengra er haldið.

Kvöldfréttir Ríkisútvarpsins 31. ágúst 2011

Kínverskar fjárfestingar – Spegillinn 5. september 2011

Fjárfestingar Kínverja í Evrópu – Spegillinn 8. september 2011

Huang Nubo og fjárfestingar hans – 30. september 2011

Einnig var talsvert fjallað um málið í sjónvarpsfréttum og eitthvað af þeim má sjá í pistli mínum frá 10. maí – Allir vildu (kínverska) Drekann kveðið hafa. Ég á eftir að taka saman fleiri fréttir um þetta mál og birti þær væntanlega í sérpistli.

Eins og þeir heyra (og sjá) sem rifja upp pistla Sigrúnar og horfa á fréttaklippurnar frá í haust hefur starfsemi Nubos Huang í ferðaþjónustu víða um heim gjarnan verið flaggað til vitnis um að hér fari nú aldeilis maður með reynslu. Við vitum jú að hann stundar ferðaþjónustu í heimalandi sínu, Kína.

Í Speglinum í kvöld var talað við Halldór Berg Harðarson, ungan mann sem er búsettur í Kína. Hann sagði efnislega að ferðaþjónusta Nubo Huangs í Kína gengi aðallega út á að selja aðgang að þorpum sem hann hefur einkaleyfi til að nýta í 20 ár (hann á að fá Grímsstaði í 2 x 40 ár). Þar á meðal er Kashgar, sem er vægast sagt umdeild starfsemi en ekki var minnst á það í Speglinum. Aðspurður sagði Halldór að viðskiptamódelið væri greinilega það sem Huang ætlaði að nota á Grímsstöðum. Það fæ ég ekki til að ganga upp, kannski misskil ég eitthvað.

Við vitum líka að hann segist reka ferðaþjónustu og ferðamannastaði víðar um heiminn, eða eins og segir á heimasíðu Zhongkun Travel og er dagsett 24. október 2011:

 Zhongkun has numerous vacation attractions, resort hotels and resort resources in China, the United States, Iceland, and other countries. In 2010, those places attracted more than 3 million visitors, and ticket sale was over 100 million RMB (more than 16 million US dollars).

Maður rekur auðvitað upp stór augu yfir að Ísland hafi átt þátt í – árið 2010 – að laða að 3 milljónir gesta sem gáfu ríflega 2 milljarða íslenskra króna í aðra hönd! En þar sem Huang hefur verið svo margsaga um áætlanir sínar kemur þetta kannski ekki stórvægilega á óvart. En ljóst er að þarna lýgur hann blákalt. Hvers vegna?

En þarna stendur líka að fyrirtækið eigi ferðamannastaði í Bandaríkjunum og öðrum löndum – en segir hann satt með það frekar en Ísland? Sigrún Davíðsdóttir fjallaði um eignir hans í Bandaríkjunum í þessum pistli sem ég tengdi líka í hér að ofan. Þriðja eignin sem Sigrún nefnir er búgarður (ranch) í Tennessee – og nú er ég loks komin að erindinu. Ég fann þennan meinta búgarð og hringdi til Tennessee. Komst síðan í tölvupóstsamband við matsmann fasteigna í Benton County, héraðinu þar sem Nubo Huang kveðst reka ferðaþjónustu og kallast „Lucky Star Ranch„. Það voru mjög athyglisverð samskipti.

Til að gera langa sögu stutta eru þetta 4 ferkílómetrar af ruddum skógi sem nákvæmlega ekkert er á, afskekkt og ekkert vitað um áætlanir nýja eigandans, Nubos Huang. En gefum matsmanninum orðið:

I do not know anything about Mr. Huang. I do know the property he bought. I live within 3 miles of it. Right now the property is isolated cut over timberland. The previous owner cut the timber. It is in a remote part of our county, without many services needed to develop it. I have heard he has plans to develop it in some way, but that is about all I know of his plans. At the time I was told about this he did not know what he was going to do with it. He has not given our County any plans for anything.

This property in Benton County is not really development property. I had heard that it might be split up in around 15 Ac. tracts and cabins put on it for hunting purposes. but that is just what I heard. In Benton County we do not have any zoning, we also do not have liquor by the drink, so anything like a casino, or winery will not work. Also this property is a long way from any major highway. I wish I could help you but there is nothing official yet. If he has a resort it is not here.”

Svo mörg voru þau orð og þá vitum við það. Ekki einu sinni hægt að hafa bar í ferðamannaparadísinni í skóginum.

Lucky Star Ranch, Tennessee

Lucky Star Ranch, Tennessee

En ég fann líka gögn um ferkílómetrana hans fjóra í Tennessee og þau hafa verið að velkjast fyrir mér í þrjá mánuði, eða síðan ég gróf þetta allt upp. Hér til hliðar eru skjáskotin sem ég setti saman af fasteignavefnum þar sem ég fann upplýsingarnar. Slíkar upplýsingar úr fasteignaskrám eru ekki aðgengilegar almenningi á Íslandi – enda er hér svo opið og gegnsætt samfélag. Smellið í læsilega stærð til að sjá betur.

Þarna kemur fram að 29. ágúst 2006 hafi Kevin Grinder keypt ferkílómetrana fjóra á 690.000 dollara. Hann er vel veðsettur, eða rétt rúmlega kaupverðið.

Í janúar 2007 kaupir svo maður að nafni Michael Branand blettinn fyrir 775.000 dollara. Líklega sá sem hirti af honum timbrið og strípaði hann. Þetta er rúmlega 11% verðhækkun á milli ára. Upphæð veðsetningar hjá Branand er hóflegur hluti kaupverðs, eða 495.300 dollarar.

En rúmu ári seinna, eða 28. apríl 2008, er Nubo Huang skráður fyrir eigninni og söluverðið sagt 1.620.000 dollarar (202.500.000 krónur á genginu 125). Það er er hækkun á milli ára um heil 110%! Engin veðsetning er nefnd.

Enn líður rúmt ár og þann 15. júní 2009 hefur Nubo Huang endurfjármagnað kaupin – og nú er eignin veðsett fyrir 1.500.000 dollara. Þá er hrein eign aðeins 120.000.

Neðar í skjalinu kemur fram að skattvirði og markaðsvirði árið 2010 sé 892.500 dollarar svo veðsetningin er óralangt yfir þeirri upphæð.

Nokkur atriði hafa verið að velkjast í huga mínum í allan þennan tíma.

Í fyrsta lagi verðmunurinn á ruddum skógi á afskekktum stað í Tennessee annars vegar – og á lítt snertu hálendi Íslands hins vegar. Ef við reiknum dollarann á 125 krónur þá er kaupverðið á blettinum í Tennessee 50.625.000 hver ferkílómetri. Ef við reiknum kaupverðið á Grímsstaðalandinu og miðum við 300 km2 og milljarð – þá er kaupverð á hverjum ferkílómetra aðeins 3.334.000. Er þetta ekki rétt reiknað hjá mér?

Ferkílómetri af ruddum skógi á afskekktum stað í Tennessee ríki í Bandaríkjunum er samkvæmt þessu rúmlega fimmtánfalt verðmætari en ferkílómetri af víðáttum Íslands.

Í öðru lagi hef ég mikið velt fyrir mér þessu kaupverði Nubos Huang. Af hverju kaupir hann á 1.620.000 dollara þegar hann hefði örugglega getað fengið þessa 4 ferkílómetra á – ja… til dæmis 859.000 dollara. Seljandinn hefði þá fengið 10% hærra verð fyrir eignina en hann keypti á árið áður – og allt timbrið að auki.

Í þriðja lagi er það þessi háa veðsetning. Eins og sjá má var fyrsti eigandinn sem nefndur var veðsettur í topp – en ekki nema örfáum dollurum yfir kaupverði (849 nákvæmlega).

Annar eigandinn er mjög hóflega veðsettur, eða um 64%.

Svo kemur Huang, kaupir á uppsprengdu verði og er búinn að veðsetja eignina um 93% af hinu uppsprengda kaupverði ári síðar.

Hvers vegna? Til hvers?

Svarið birtist mér á Facebook í fyrradag og ég fékk hugljómun. Guðmundur Andri Thorsson skrifaði þetta á Facebook síðu sína:

„Fólk er mikið að velta vöngum yfir Nupo og áformum hans á Grímsstöðum. Ekki finnst mér nógsamlega vel hafa komið fram þessi punktur sem Gísli Sigurðsson benti á hér í umræðum:

„Íslenskur hagfræðingur í Hong Kong skrifaði um þetta grein í Moggann (sem Andri les ekki sjálfur og þarf því að spyrja mig hvað standi þar) og útskýrði að þetta væri sérstök brella í kínverskum bönkum að fá lán út á land í Vestur-Evrópu. Eignarland gefur hæsta lánið en leiguland með löngum samningi gefur líka sæmilega. Þessi hagfræðingur taldi að kínverskir bankamenn horfðu mest til fer(kíló)metra en gerðu sér minni rellu út af byggileika enda hlyti allt að vera verðmætt í Vestur-Evrópu. Má því hver maður sjá að Grímsstaðir á Fjöllum eru ansi verðmiklir þegar komið er inn á kontór bankamanns í Kína – ég tala nú ekki um nú þegar Kínverjar voru að ákveða að lækka bankavexti til að örva hagvöxtinn (tilkynnt skömmu áður en Nupó (sem hlýtur að skrifast svo með norðlenskum framburði) endurnýjaði áhuga sinn á Íslandi…“

Þetta ætti að vera kunnuglegt fyrir okkur, en kannski vill fólk ekki heyra þetta vegna þess að þá verður Ísland ekki jafn sérstakt og ella og allt saman ekki jafn ískyggilegt og mikil James Bond mynd og ekki hægt að velta sér upp úr Gulu hættunni – heldur er þetta bara peningagutti að gíra sig upp.“

Peningagutti að gíra sig upp. Það var og.

Ég varð alveg viðþolslaus og hætti ekki fyrr en ég fann greinina sem verið var að vísa í. Hún birtist í Morgunblaðinu 4. janúar og er eftir Þröst Jóhannsson, viðskiptafræðing í Hong Kong.

Getur verið að um leið og búið er að skrifa undir samninga við Nubo Huang fari hann með samninginn í bankann og slái lán út á hann og veðsetji jörðina? Hver eignast hana þá ef svona skuldabréf gengur kaupum og sölum? Er það þess vegna sem hann leggur svona mikla áherslu á að fá alla 300 ferkílómetrana þótt honum hefðu nægt 10? Minnir þetta ekki óhugnanlega mikið á hrunverjana sem skuldsettu allt upp í rjáfur? Verður ákvæði í nýjum samningi um að ekki megi veðsetja jörðina? Það var ekki í þeim gamla. Heldur ekkert minnst á það í minnisblaðinu fræga.

Lesið þessa grein. Ég vildi að ég hefði séð hana fyrr. Það hefði sparað mér mikil heilabrot.

Huang Nubo og Hafnarfjörður – Þröstur Jóhannsson – Morgunblaðið 4. janúar 2012

Huang Nubo og Hafnarfjörður - Þröstur Jóhannsson - Morgunblaðið 4. janúar 2012
Huang Nubo og Hafnarfjörður – Þröstur Jóhannsson – Morgunblaðið 4. janúar 2012

Halldór sagði frá kínversku auðmönnunum í Speglinum í kvöld. Hann sagði meðal annars að nánast öll viðskipti í Kína séu viðriðin stjórnvöld þar í landi. Þeir komast lengst sem eru í flokknum og Nubo Huang sagði nýlega í erlendum fjölmiðli að hann væri stoltur af að vera í flokknum. Og það er útrásarhugur í þeim. Þeir komast bakdyramegin inn í Evrópusambandið með því að fjárfesta í Evrópulöndum og eru mjög spenntir fyrir því. Zhongkun Europe ehf.?

Það er næstum ár síðan Grímsstaðamálið kom upp og enn er fátt vitað um Nubo Huang. Maður furðar sig á því áhugaleysi sem virðist ríkja um að vita hver þessi maður er sem ætlar að eignast 0,3% af Íslandi – með fjallabaksleið. En eitt og eitt púsl hefur ratað á rétta staði og ef við höldum áfram að spyrja, grafa og grúska hlýtur púsluspilið að fá á sig mynd. Vonandi verður það ekki um seinan.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og fjórum? Svar:

Höfundur



Eldri færslur

Dagatal

júlí 2012
S M Þ M F F L
« jún   ágú »
1234567
891011121314
15161718192021
22232425262728
293031