Mánudagur 09.09.2013 - 16:10 - FB ummæli ()

Tillögur hagræðingarhópsins

Eftir nokkrar umræður í fjölmiðlum síðustu daga um „hugsanlegar tillögur“ hagræðingarhópsins þá er rétt að árétta að hagræðingarhópur ríkisstjórnarinnar er ekki að skrifa fjárlagafrumvarp fyrir árið 2014. Við munum því ekki leggja til beinan niðurskurð t.d. til kvikmyndagerðar. Það er ríkisstjórnin og fjármálaráðherra fyrir hönd hennar sem leggur fram fjárlagafrumvarp og hlýtur að vera að skoða þessi mál og fleiri. Hagræðingarhópurinn mun hinsvegar leggja til ýmsar kerfisbreytingar og ljóst að margar þeirra munu, bæði strax og til lengri tíma, stuðla að breytingum á fjárlögum hins opinbera.

 

Góðar tillögur frá almenningi

Þegar hagræðingarhópurinn tók til starfa fundum við fyrir miklum áhuga almennings á þessari vinnu og var ákveðið að kalla eftir hugmyndum með opnun sérstakrar vefgáttar þar sem hægt væri að senda inn hagræðingarhugmyndir. Hugmyndir hafa bæði komið frá þeim sem starfa innan og utan opinbera geirans og hefur verið unnið með margar þeirra.

Hagræðingarhópur ríkisstjórnarinnar hefur átt í góðum samskiptum við einstaka ráðherra og ráðuneyti. Auk þess starfar hann í góðu samstarfi við ráðherranefnd um ríkisfjármál en í þeirri nefnd sitja fjórir forystumenn ríkisstjórnarflokkanna og áttum við t.d. góðan vinnufund í síðustu viku.

 

Tækifæri sem felast í aukinni framleiðni

Það er verkefni okkar allra að bregðast við þeirri staðreynd að íslenskt samfélag nær ekki endum saman. Flatur niðurskurður eða almenn hagræðingarkrafa á allar stofnanir er ekki lausnarorðið. Staðreyndin er að við þurfum að hvetja til aukinnar framleiðni á öllum sviðum samfélagsins og íslenskt samfélag þarf að fá sem mest fyrir það fjármagn sem veitt er til einstakra málaflokka. Þrátt fyrir að breytingar kalli oft á tíðum á erfiðar aðgerðir þá skapar framleiðniaukning í ríkisrekstri aukið svigrúm til að verja velferðarkerfið. Hvernig aukum við framleiðni hins opinbera? Eru einhver verkefni sem ríkisvaldið getur hætt að sinna eða getur gert á hagkvæmari hátt? Hvernig verjum við velferðarkerfið og aðrar grunnstoðir samfélagsins? Þetta eru nokkrar af þeim grundvallarspurningum sem við þurfum að hafa í huga.

Margir hafa verið að spyrja hvað sé til skoðunar og telja jafnvel að einstaka málaflokkar verði undanskildir. Það hefur eflaust valdið lítilli gleði fjölmiðlamanna að lögð hefur verið áhersla á að tjá sig ekki mikið um einstakar hagræðingarhugmyndir meðan þær eru í vinnslu.  Hinsvegar er mikilvægt að allir átti sig á þeirri staðreynd að kerfisbreytingar sem leiða til aukinnar hagræðingar eru nauðsynlegar á mörgum sviðum samfélagsins og ekki verður hægt að undanskilja einstaka málaflokka.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Ásmundur Einar Daðason
Félags- og barnamálaráðherra
RSS straumur: RSS straumur