Umræða hefur verið undanfarið um Landsbankann. Fyrst vegna áætlana forsvarsmanna bankans um að byggja nýjar höfuðstöðvar á dýrustu lóð landsins en dregið var í land eftir mikla gagnrýni. Nú hafa farið af stað umræður um hvort selja skuli hlut í Landsbankanum og nota fjármagnið í það mikilvæga verkefni að greiða niður skuldir ríkissjóðs.
Fyrri ríkisstjórn stefndi að sölu
Fyrri ríkisstjórn tók ákvörðun um að afhenda tvo af stærstu bönkunum (Arion Banka og Íslandsbanka) til erlendra vogunarsjóða. Það er auðvitað fagnaðarefni að margir þeirra sem það gerðu skuli nú sjá að sér og viðurkenna að þeir hafi gert mistök á sínum tíma. Frá þessum tíma hafa þessir bankar skilað tugum milljarða í hagnað til sinna eigenda. Fyrri ríkisstjórn hafði jafnframt þá stefnu að selja Landsbankann enda er heimild um sölu ekki ný í fjárlögum. Þetta kom oft fram á síðasta kjörtímabili.
Hérna má t.d. sjá viðtal við Steingrím J. Sigfússon þáverandi fjármálaráðherra þar sem hann sagði að stefnt skyldi að sölu Landsbankans. Jóhanna Sigurðardóttir, þáverandi forsætisráðherra tók í sama streng og vildi reyndar ganga lengra og sagði að ríkið ætti að stefna að því að eiga einungis 33% hlut í Landsbankanum.
Áfram banki „allra landsmanna“
Framsóknarflokkurinn hefur samþykkta stefnu um að stefnt skuli að því að Landsbankinn verði rekinn á öðrum forsendum, Frosti Sigurjónsson hefur farið fyrir þeirri umræðu fyrir hönd flokksins. Fyrir þessu hafa verið færð ýmis almenn rök.
Það er ýmislegt sem þarf að hafa í huga í þessari umræðu. T.d. gæti verið skynsamlegt að klára uppgjör við þrotabú föllnu bankanna áður en lengra er haldið. Ekki liggur enn ljóst fyrir hvað kemur út úr þessu uppgjöri. Síðastliðið ár þá hafa nokkrir af stærstu sparisjóðunum verið yfirteknir eða sameinaðir stóru bönkunum þremur. Getur Landsbankinn geti orðið bakhjarl Sparisjóðanna?
Eigum við að halda stefnu fyrri ríkisstjórnar?
Er skynsamlegt að halda stefnu fyrri ríkisstjórnar þegar kemur að sölu Landsbankans og nota söluandvirðið til að niðurgreiða skuldir ríkissjóðs? Eða eigum við að stefna að því að Landsbankinn verði áfram undir stjórn almennings? Hvernig tryggjum við best að Landsbankinn verði rekinn með hagsmuni almennings að leiðarljósi?
Það er mikilvægt að fram fari umræða í íslensku samfélagi á næstu mánuðum um þessar og fleiri lykilspurningar.