Föstudagur 09.10.2015 - 15:35 - FB ummæli ()

Innanlandsflugvellir – TAKA 2

Stjórnendur Isavia og fulltrúar hlutaðeigenda ráðuneyta mættu á fund fjárlaganefndar í dag til að ræða stöðu innanlandsflugvalla vítt og breitt um landið. Sambærilegur fundur var haldin fyrir ári síðan og fundarefnið var það sama.

Rekstur millilandsflugs hjá Isavia stendur vel fjárhagslega og skilar afgangi á meðan flugvellir og önnur starfsemi í innalandsflugi gengur erfiðlega. Eftirlitsstofnun EFTA hefur lagst gegn því að millilandaflugið niðurgreiði innanlandsflugið. Þess vegna ákvað fjárlaganefnd að fara þá leið að leggja til að ISAVIA greiddi arð í ríkissjóð sem síðan yrði varið til flugvallaframkvæmda á landsbyggðinni.

Isavia hefur staðið í miklum framkvæmdum í Keflavík vegna stóraukins ferðamannafjölda. Forsvarsmenn fyrirtækisins báru sig mjög illa yfir því að þurfa að greiða arð í ríkissjóð og sögðu að slíkt setti í hættu fjárfestingar í Keflavík. Því ákvað fjármálaráðuneytið að ganga ekki á eftir því að Isavia greiddi arð í ríkissjóð.

Nú ári síðar erum við stödd á sama stað. Fjárfestingarþörfin er gríðarlega í Keflavík á sama tíma og ekkert fjármagn er eyrnamerkt til uppbyggingar á innanlandsflugvöllum á næsta ári. Ekkert hefur gerst í því að koma þessum málum í framtíðarfarveg sem tryggir uppbyggingu innanlandsflugvalla.

Það þarf nauðsynlega að byggja upp innanlandsflugvellina og því er ekki hægt að una óbreyttu ástandi.

Fjárlaganefnd verður því að leggja til sömu tillögu og gert var á síðasta ári með tilheyrandi fjölmiðlaumfjöllun. Líklega verður að hækka fjárhæðina og gera arðsemiskröfu á Isavia upp á ? milljónir og leggja til að fjármagnið verði notað til innanlandsflugvalla. Isavia mun síðan gagnrýna ákvörðun fjárlaganefndar, fjármálaráðuneytið dregur arðsemiskröfuna líklega til baka en fjármagnið til framkvæmda stendur.

Svo er bara að málin verði komin í framtíðarfarveg á næsta ári og fjármagn verði tryggt til innanlandsflugvalla. Ef ekki þá er það TAKA 3 að ári, svo gáfulegt sem það nú er.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Ásmundur Einar Daðason
Félags- og barnamálaráðherra
RSS straumur: RSS straumur