Samfylkingin rær nú lífróður með það að markmiði að endurskrifa söguna varðandi gjafmildi þeirra við erlenda kröfuhafa. Þingflokksformaður Samfylkingarinnar er mikill meistari í þessum efnum. Hann gerir enn á ný tilraun á facebook síðu sinni í dag til að draga upp nýja mynd af sögu þessara mála og ver formann sinn.
Framsókn var eini flokkurinn sem sagði að það yrði að taka á erlendum kröfuhöfum. Sigmundur Davíð var ítrekað ásakaður um popúlisma þegar því var haldið fram að hægt væri að krefja erlenda kröfuhafa um að láta fjármagn af hendi.
Staðreyndin er sú að Samfylkingin reyndi ítrekað á síðasta kjörtímabili að auka skuldir Íslendinga í þeim tilgangi að greiða erlendum kröfuhöfum fjármagn sem þeir áttu engan rétt á. Þetta sáum við í Icesave málinu og þetta var líka hugmyndin þegar kom að lausn snjóhengjuvandans. í grein sem Árni Páll birti í Fréttablaðinu á árinu 2012 og bar yfirskriftina „Að brjótast út“ viðraði Árni Páll hugmyndir Samfylkingarinnar í málinu en þar sagði hann m.a.
“Ein leið í þessu efni væri sú að í aðildarviðræðunum yrði samið um að evrópski Seðlabankinn myndi veita fyrirgreiðslu til að unnt yrði að fjármagna útflæðið allt strax í upphafi eða á fárra ára tímabili, með endurgreiðslu yfir lengra tímabil. Slík lausn myndi væntanlega valda því að krónan félli minna en ella við afnám haftanna og greiða fyrir því að rétt verð fengist á hana fljótt, svo auðveldara væri að ganga beint inn í ERM II og taka upp evru án vandkvæða í kjölfarið.“
Hugmyndin var að fara grísku leiðinu og taka erlent lán til að greiða út snjóhengjuna til erlendra kröfuhafa. Forystumenn Samfylkingarinnar kalla eftir því að hlustað sé á þá. Sagan sýnir okkur að það er þjóðhagslega óskynsamlegt að hlusta á Samfylkinguna þegar kemur að þessum málum og enn síður þegar lagt er upp með sagnaritun sem á enga stoð í raunveruleikanum. Það er ekki nema von að menn séu farnir að velta því fyrir sér að koma naktir fram en ef einhver er berstrípaður þá er það Samfylkingin í málum sem snúa að erlendum kröfuhöfum.