Föstudagur 7.3.2014 - 18:32 - FB ummæli ()

Seðlabankinn og málaferlin

Þann 13. nóvember 2012 lagði ég fram fyrirspurn á Alþingi í tveimur liðum varðandi kostnað við málaferli Más Guðmundssonar gegn Seðlabankanum. Þann 31. janúar 2013 barst svar frá þáverandi fjármála- og efnahagsráðherra:

Spurningarnar og svör voru:

1. Hvar var kostnaður Seðlabanka Íslands af málaferlum seðlabankastjóra gegn bankanum?
Kostnaður til þessa dags nemur samtals 4.060.825 kr. samkvæmt upplýsingum Seðlabanka Íslands.

2. Mun seðlabankastjóri greiða bankanum þann kostnað?

Báðir málsaðilar, þ.e. seðlabankastjóri og Seðlabanki Íslands, gerðu kröfu um að hinn greiddi málskostnað vegna dómsins sem kveðinn var upp af Héraðsdómi Reykjavíkur 3. október 2012. Í dómsorði var kveðið á um að málskostnaður félli niður. Það þýðir að málsaðilar bera hvor um sig þann kostnað sem þeir hafa stofnað til sjálfir, svo sem lögmannskostnað. Seðlabankastjóri áfrýjaði dómi héraðsdóms til Hæstaréttar, sem hefur tekið málið til meðferðar, og því liggur ekki fyrir á þessari stundu hvort þessi niðurstaða er endanleg.

Eftir umfjöllun Morgunblaðsins um málið þá hefur fyrrverandi formaður bankaráðs Seðlabankans sent frá sér yfirlýsingu sem fjallað er um m.a. á vef RÚV. Þar segir m.a. „Í ljósi þessa var sú ákvörðun tekin að bankinn stæði straum af öllum kostnaði vegna málsins.“

Ef seðlabankastjóri lét Seðlabanka Íslands borga lögfræðikostnað sinn vegna málaferla sem hann höfðaði gegn Seðlabanknum þá hefur Alþingi verið sagt ósatt um málið í skriflegri fyrirspurn. Það er mikilvægt að það verði upplýst hvort og þá afhverju Alþingi voru gefnar rangar upplýsingar um málið.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 10.1.2014 - 19:03 - FB ummæli ()

Þjóðarátak gegn verðhækkunum!

Kjarasamningar sem undirritaðir voru í lok síðasta árs voru unnir eftir aðferðarfræði sem reynst hefur vel á norðurlöndum. Eitt af markmiðum þessa kjarasamnings var að ná tökum á verðbólgu og ná þannig fram raunverulegum launahækkunum. Til þess að þetta náist er mikilvægt að allir taki höndum saman og vinni sameiginlega að þessu markmiði.

Það er ánægjulegt að sjá að stjórnvöld og aðilar vinnumarkaðar hafa ákveðið að grípa sameiginlega til aðgerða og að viljinn sé sterkur til að rjúfa vítahring verðbólgunnar.

Í dag höfum við fengið góðar fréttir af því að fyrirtæki hafa dregið verðhækkanir til baka. Í framhaldinu er mikilvægt að hefja aukna umræðu um hvernig fyrirtæki og ríkisvald geta aukið hagræðingu í rekstri þannig að ekki þurfi að velta hækkunum út til almennings. Í sumum tilvikum er um að ræða róttækar breytingar eins og dregið var upp í McKinsey skýrslunni.

Stundum er ekki mögulegt að bregðst við hækkunum með aukinni hagræðingu og þá kann að vera nauðsynlegt að hækka verð. Fyrir því verða þá að liggja skýr og trúverðug rök. Almenningur gegnir mikilvægu aðhaldshlutverki og getur haft áhrif með því að upplýsa opinberlega verði þeir varir við verðhækkanir. Það þarf að þjóðarátak gegn verðhækkunum!

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 9.9.2013 - 16:10 - FB ummæli ()

Tillögur hagræðingarhópsins

Eftir nokkrar umræður í fjölmiðlum síðustu daga um „hugsanlegar tillögur“ hagræðingarhópsins þá er rétt að árétta að hagræðingarhópur ríkisstjórnarinnar er ekki að skrifa fjárlagafrumvarp fyrir árið 2014. Við munum því ekki leggja til beinan niðurskurð t.d. til kvikmyndagerðar. Það er ríkisstjórnin og fjármálaráðherra fyrir hönd hennar sem leggur fram fjárlagafrumvarp og hlýtur að vera að skoða þessi mál og fleiri. Hagræðingarhópurinn mun hinsvegar leggja til ýmsar kerfisbreytingar og ljóst að margar þeirra munu, bæði strax og til lengri tíma, stuðla að breytingum á fjárlögum hins opinbera.

 

Góðar tillögur frá almenningi

Þegar hagræðingarhópurinn tók til starfa fundum við fyrir miklum áhuga almennings á þessari vinnu og var ákveðið að kalla eftir hugmyndum með opnun sérstakrar vefgáttar þar sem hægt væri að senda inn hagræðingarhugmyndir. Hugmyndir hafa bæði komið frá þeim sem starfa innan og utan opinbera geirans og hefur verið unnið með margar þeirra.

Hagræðingarhópur ríkisstjórnarinnar hefur átt í góðum samskiptum við einstaka ráðherra og ráðuneyti. Auk þess starfar hann í góðu samstarfi við ráðherranefnd um ríkisfjármál en í þeirri nefnd sitja fjórir forystumenn ríkisstjórnarflokkanna og áttum við t.d. góðan vinnufund í síðustu viku.

 

Tækifæri sem felast í aukinni framleiðni

Það er verkefni okkar allra að bregðast við þeirri staðreynd að íslenskt samfélag nær ekki endum saman. Flatur niðurskurður eða almenn hagræðingarkrafa á allar stofnanir er ekki lausnarorðið. Staðreyndin er að við þurfum að hvetja til aukinnar framleiðni á öllum sviðum samfélagsins og íslenskt samfélag þarf að fá sem mest fyrir það fjármagn sem veitt er til einstakra málaflokka. Þrátt fyrir að breytingar kalli oft á tíðum á erfiðar aðgerðir þá skapar framleiðniaukning í ríkisrekstri aukið svigrúm til að verja velferðarkerfið. Hvernig aukum við framleiðni hins opinbera? Eru einhver verkefni sem ríkisvaldið getur hætt að sinna eða getur gert á hagkvæmari hátt? Hvernig verjum við velferðarkerfið og aðrar grunnstoðir samfélagsins? Þetta eru nokkrar af þeim grundvallarspurningum sem við þurfum að hafa í huga.

Margir hafa verið að spyrja hvað sé til skoðunar og telja jafnvel að einstaka málaflokkar verði undanskildir. Það hefur eflaust valdið lítilli gleði fjölmiðlamanna að lögð hefur verið áhersla á að tjá sig ekki mikið um einstakar hagræðingarhugmyndir meðan þær eru í vinnslu.  Hinsvegar er mikilvægt að allir átti sig á þeirri staðreynd að kerfisbreytingar sem leiða til aukinnar hagræðingar eru nauðsynlegar á mörgum sviðum samfélagsins og ekki verður hægt að undanskilja einstaka málaflokka.

 

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 23.8.2013 - 15:49 - FB ummæli ()

Mörg hundruð ábendingar

Hagræðingarhópur ríkisstjórnarinnar vinnur nú að tillögum um hvernig hægt sé að hagræða í ríkisrekstri. Liður í þessari vinnu er að kalla eftir ábendingum frá almenningi.

Það hefur verið ánægjulegt að sjá að á 9 dögum hefur hópnum borist hátt í 500 ábendingar. Hópurinn vinnur að því að fara yfir þessar ábendingar. Það er rétt að vekja athygli á því að enn er hægt að senda inn tillögur og verður það hægt fram til 30. ágúst nk.

Hægt er að senda tillögur á netfangið hagraeding@for.stjr.is eða á eftirfarandi vefslóð: http://www.forsaetisraduneyti.is/hagraeding/abending/

Það er full ástæða til að þakka frábærar viðtökur og mun hópurinn fara yfir tillögurnar og nota þær í vinnu sinni.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 2.4.2013 - 10:29 - FB ummæli ()

Aldrei fór ég suður

Þegar ég setti upp þessa bloggsíðu hét ég því að hér myndi ég ekki einungis fjalla um pólitík. Við það ætla ég að standa og er þessi færsla hluti af því. Þeir sem eingöngu hafa áhuga á pólitískum færslum ættu því að hætta að lesa núna og fara til baka 🙂

 

Ísafjörður skartaði sínu fegursta um páskana. a

Ísafjörður skartaði sínu fegursta um páskana.

Um páskana fórum við á hátíðina Aldrei fór ég suður. Hittum mikið af skemmtilegu fólki og það var margt að gerast. Það er svo skrýtið að í hvert sinn sem maður kemur vestur þá fyllist maður af orku og á leiðinni heim er strax farið að spyrja hvenær sé hægt að fara aftur. Vestfirðir hafa verið að sækja á í ferðamennsku undanfarin ár og ég held að við höfum bara séð toppinn á ísjakanum. Það er ekki að ástæðulausu sem Ísafjörður var settur í hóp 50 fegurstu þorpa í Evrópu og ég held að fólk ætti að undirbúa sig undir stóraukna heilsársferðamennsku. Þetta gerist hinsvegar ekki af sjálfu sér og það er mikilvægt að styðja við bakið á fyrirtækjum í ferðaþjónustu bæði hvað varðar gistingu, afþreyingu, markaðssetningu o.fl.

 

Páskareiðtúr, páskaeggjamót og tónleikar

Á föstudaginn langa tókum við þátt í árlegum páskareiðtúr hestamanna í Bolungarvík en þessu fylgdi kökuhlaðborð og hangikjötsveisla í félagsheimili hestamanna um kvöldið. Fórum síðan á tónleika Aldrei fór ég suður þar sem við m.a. sáum Dr. Gunna spila hið sívinsæla og ódauðlega Prumpulag. Fórum á árlegt páskaeggjamót á gönguskíðasvæðinu í Seljalandsdal. Það var líka gaman að hitta hákarlaveiðimanninn Hálfdán Guðröðarson frá Kálfavík en hann var að landa hákarli í Bolungarvík. Þetta er bara brot af því sem var að gerast fyrir vestan um páskana og því miður var tíminn alltof fljótur að líða.

891830_10200487271737289_1559247441_o

Fékk lánaðan hest hjá Valda Ingólfs í Bolungarvík fyrir árlegan páskareiðtúr.

DSC_0468

Ásmundur og Júlía Hlín á Aldrei fór ég suður

 

 

 

 

DSC_0458

Aðalheiður Ella á páskaeggjamóti skíðafélagsins

DSC_0425

Júlía Hlín ánægð með páskaegg eftir skíðamótið

DSC_0517

Hálfdán Guðröðarson að landa hákarli í Bolungarvík

DSC_0532

Einn af þremur hákörlum sem landað var í Bolungarvík

DSC_0534

Aðalheiður Ella áhugasöm að skoða hákarlinn

DSC_0536

Ásmundur og Aðalheiður með Hálfdáni Guðröðarsyni hákarlaveiðimanni frá Kálfavík.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 25.3.2013 - 20:01 - FB ummæli ()

Betra peningakerfi – Spjall við Frosta

Í nokkurn tíma hafa verið í gangi athyglisverðar hugmyndir um að taka upp heildarforðakerfi í peningamálum hér á landi. Þessar hugmyndir snúast í grófum dráttum um að einkabankar hætti að búa til innistæður gegn veði og að þetta vald verði í höndum Seðlabanka Íslands sem síðan veiti fjármagni áfram til annarra fjármálastofnanna. Þessar hugmyndir eru kynntar ítarlega á vefsíðunni www.betrapeningakerfi.is en þar er talað um að þessi breyting geti lækkað ríkisskuldir um hundruði milljarða, dregið úr verðbólgu, lækkað vexti og dregið úr skuldasöfnun almennings og fyrirtækja. 

Frosti Sigurjónsson, oddviti Framsóknar í Reykjavík norður hefur verið í forystu fyrir þá sem vilja að Ísland taki upp þessa stefnu í peningamálum. Ég og Frosti fórum nýlega yfir þessar hugmyndir í þættinum „Svörtum tungum“ og ræddum einnig um stjórnmál almennt og afhverju Frosti valdi að gefa kost á sér fyrir Framsóknarflokkinn.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 22.3.2013 - 06:41 - FB ummæli ()

Penni og skrifblokk í boði ESB!!!

Líkt og fram hefur komið er ég staddur ásamt nokkrum ESB andstæðingum í Brussel. Í ferðinni höfum við m.a. kynnt þá miklu andstöðu sem er við ESB aðild á Íslandi, farið yfir stöðu aðildarviðræðanna og leitað svara við ýmsum spurningum sem hafa verið í umræðunni á Íslandi. Svo vill til að á sama tíma og við förum þessa ferð þá eru 40 sveitastjórnarmenn hér í Brussel í einni af þeim fjölmörgu boðsferðum sem ESB hefur boðað til á undanförnum árum.

Það hlakkaði í mörgum ESB aðildarsinnum þegar þeir héldu að ESB andstæðingar væru í boðsferð til Brussel á vegum ESB. Ég verð því miður að valda þessu ágæta fólki vonbrigðum. Að sjálfsögðu borga ESB andstæðingar sjálfir fyrir þessa ferð en þyggja ekki fjármagn frá Brussel til slíkra ferðalaga.

Í ljósi þessa þurfa ESB andstæðingar að búa við þær „hræðilegu“ aðstæður að fá ekki dagpeninga meðan á dvölinni stendur, geta ekki dvalið á fínasta hóteli borgarinnar, þurfa að sætta sig við það að á hótelinu sé enginn opinn bar, ekkert gufubað, engin líkamsræktaraðstaða, þurfa að borga fyrir kvöldmáltíðir sínar sjálfur og geta ekki drukkið gott kampavín í boði ESB.

Til að gæta allra sanngirni skal þó tekið fram að á fundi með æðstu mönnum stækkunardeildar ESB fékk einn úr hópnum að gjöf bláan penna merktan ESB (sambærilegan þeim sem er á myndinni) og litla skrifblokk 3cm x 6 cm. Síðan fékk hópurinn vatn bæði með og án kolsýru á fundi með sjávarútvegsnefnd ESB þingsins. Hópurinn kannar nú hvort telja þurfi þessar gjafir fram til skatts.

Það er margt áhugavert sem komið hefur fram í þessari ferð og við munum koma með þær upplýsingar inn í umræðuna á næstu vikum. En í ljósi þess að þetta virðist vera stóra fréttin og það sem fólk hefur áhuga á þá er mikilvægt að koma þessum staðreyndum á framfæri.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 20.3.2013 - 17:34 - FB ummæli ()

NeiESB.is – Nýr fréttavefur

logo

Óska ESB andstæðingum til hamingju með nýjan fréttavef sem var opnaður í dag undir yfirskriftinni Nei við ESB (www.neiesb.is). Með þessu verkefni er ætlunin að sameina fréttir og viðburði undir einu merki. Að þessu verkefni standa Heimssýn, Ísafold, félag ungs fólks gegn ESB-aðild, Herjan, félag stúdenta í H.Í. gegn aðild að ESB, Vinstrivaktin gegn ESB, Evrópuvaktin og Þjóðráð.

Tek nú þátt í ferð sem skipulögð er af NEI við ESB til Brussel í þeim tilgangi að upplýsa ráðamenn um þá miklu andstöðu sem er við ESB aðild á Íslandi og til að fá ýmsar upplýsingar um stöðu ESB samninganna beint frá fulltrúum og starfsfólki sambandsins. Áttum í dag fundi með nokkrum evrópuþingmönnum auk þess að sitja sem áheyrnarfulltrúar fund sjávarútvegsnefndar ESB þingsins. Á þessum fundum kom glögglega í ljós hversu litlar upplýsingar hafa borist til Brussel um andstöðu Íslendinga við ESB aðild og ESB þingmenn sem sæti eiga í sjávarútvegsnefnd fjölluðu um hversu fjarstæðukennt væri að tala um varanlegar undanþágur í stórum málaflokkum. Mun fjalla meira um þetta á næstu dögum en einnig er hægt að fylgjast með fréttum af ferðinni og ESB baráttunni á www.neiesb.is.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 18.3.2013 - 14:12 - FB ummæli ()

Flugvöllurinn áfram í Vatnsmýrinni

Reykjavíkurflugvöllur hefur verið talsvert í umræðunni undanfarið eftir að opinberaðir voru samningar um sölu ríkisins til Reykjavíkurborgar á 112.000 fermetrum í Vatnsmýrinni og að þar eigi að rísa 800 íbúðir.

Þetta sýnir hver pólitískur vilji ýmissa stjórnmálaflokka er í þessu máli og þetta er óumdeilanlega fyrsta skrefið í því að flytja flugvöllin úr Vatnsmýrinni. Staðsetning hans þar er gríðarlega mikilvæg fyrir landið allt. Stór hluti af stjórnsýslu landsins er í Reykjavík og umræður um nýtt hátæknisjúkrahús hafa m.a. verið rökstuddar með staðsetningu flugvallarins.

Höskuldur Þórhallsson þingmaður Framsóknar í NA-kjördæmi sagði í samtali við fréttavef MBL að þetta væri stríðsyfirlýsing við landsbyggðina.  Höskuldur sagði m.a. „Það að flugvöllurinn verði áfram í Vatnsmýrinni er einfaldlega eitt af stærstu hagsmunamálum fólks sem býr úti á landi og þarf nauðsynlega á góðum flugsamgöngum að halda við höfuðborgina.“

Stefna Framsóknar í þessu máli var ítrekuð á nýafstöðnu flokksþingi en svo virðist vera sem aðrir flokkar séu með ólíka stefnu eftir staðsetningu.:

Flugvöllurinn í Reykjavík verði áfram í Vatnsmýrinni sem hornsteinn fyrir samgöngur landsmanna, vegna almennings- og öryggishagsmuna“. 

Þetta getur ekki orðið mikið skýrara!

Flokkar: Bloggar · Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 17.3.2013 - 21:40 - FB ummæli ()

Fyrsta færslan – Afnám verðtryggingar o.fl.

Þetta er fyrsta færslan á þessa nýju bloggsíðu en hér er ætlunin að ég að blogga um hin ýmsu mál. Eðli málsins samkvæmt verður bloggsíðan lituð af stjórnmálum. En lífið er fleira en pólitík og ég ætla að leggja áherslu á að hafa þessa bloggsíðu sem fjölbreyttasta. Fylgist endilega með 🙂

Í þessari fyrstu færslu langar mig að deila með ykkur spjalli sem ég og Eygló Harðardóttir, oddviti Framsóknar í SV-kjördæmi áttum nýlega um skuldamál heimilanna, afnám verðtryggingar, nýju neytendalánalögin o.fl.

Ásmundur Einar Daðason og Eygló Harðardóttir ræða um skuldamál heimilanna

 

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Ásmundur Einar Daðason
Félags- og barnamálaráðherra
RSS straumur: RSS straumur