Fimmtudagur 14.01.2016 - 21:01 - FB ummæli ()

Heimur batnandi fer?

Um þessar mundir sýnir RÚV þætti sem heita Deutschland ´83. Sögusviðið er Austur- og Vestur- Þýskaland á tímum kalda stríðstins. Á þessum tíma var vopnakapphlaup á milli stórveldanna, Bandaríkjanna og Sovétríkjanna í algleymi. Í þetta kapphlaup drógust bandalagsríki stórveldanna, annars vegar Atlantshafsbandalagið (Bandaríkin og bandalagsríki þeirra) og Varsjárbandalagið  (bandalag leppríkja Sovétríkjanna). Sovétríkin höfðu sett upp SS-20 kjarnorkueldflaugar í leppríkjum sínum og Bandaríkin og NATÓ svöruðu kjarnorkuógn í austri með uppsetningu á Pershing II kjarnorkueldflaugum.

Í þessu andrúmslofti ríkti sk. MAD stefna (Mutual assured descrution), þ.e ef til kjarnorkustyrjaldar kæmi gætu þau tortímt hvort öðru nokkrum sinnum með kjarnorkuvopnabúri sínu. Á þesum tíma var ég unglingur og skildi vel hvað kjarnorkuvopn og kjarnorkustríð snérist um. Á þessum tíma sá ég bíómynd sem hét The day after og fjallaði um afleiðingar kjarnorkustyrjaldar. Þessi bíómynd hafði mikil áhrif á mig. Kalda stríðinu lauk kringum 1990 þegar kommúnisminn hrundi í A-Evrópu og Sovétríkin liðuðust í sundur. Við þau tímamót og síðar var samið um fækkun kjarnorkuvopna og eru ofangreind vopn, SS-20 og Pershing II kjarnorkuvopn ekki lengur staðsett í Evrópu. Við lok Kalda stríðsins blésu vindar friðar og minni ógn stóð af átökum.

Í dag er standa málin þannig að gömlu kjarnorkustórveldin, Bandaríkin og Rússland eiga enn nóg af kjarnorkuvopnum til að tortíma hvoru öðru. Að auki eiga Bretland, Frakkland, Kína, Indland, Pakistan, Ísrael og N-Kórea kjarnorkuvopn. Það má rökstyðja að meira öryggi ríkti í Kalda stríðinu því stórveldin gættu þess að hafa stjórn á ástandinu og ekki missa tök á því, þó að á ákveðnum tímapunktum hafi ástand mála verið ískyggilegt eins og við Kúbudeiluna 1962.

Í dag hafa aðstæður þróast þannig að í heiminum er eitt stórveldi, Bandaríkin, með gríðarlegan hernaðarmátt og sterkt efnahagskerfi. Í kalda stríðinu var annað stórveldi, Sovétríkin. Arftaki þess, Rússland, er ekki stórveldi og önnur ríki hafa eflst eins og Kína og Indland. Þessi ríki hafa mikinn hernaðarmátt og búa yfir kjarnorkuvopnum. Pakistan hefur líka kjarnorkuvopn og hefur það og Indland eldað grátt silfur lengi, m.a. átt í stríði tvisvar. Eina ríkið í mið-Austurlöndum sem hefur að ráða yfir kjarnorkuvopnum er Ísrael. Óútreiknalegasta ríkið til að hafa kjarnorkuvopn er N-Kórea. Leiðtogar þess hafa sýnt litla stjórnvisku og er landið á barmi efnahags- og stjórnmálalegrar kollsteypu, m.a. ríkir hungursneyð í landinu. Ástandið sem ríkir í N-Kóreu eykur ekki bjartsýni hjá manni að andi skynsemi og friðar vaxi í þeim heimshluta, því við og við heyrast hótanir frá stjórnvöldum í N-Kóreu að þau muni verjast með öllum tiltækum vopnum árásum grannríkja. Allir sem fyljgast með alþjóðamálum vita að þesar hótanir yfirvalda í N-Kóreu eru innantómar. Eina ríkið sem hefur getu til að halda N-Kóreu við skynsemismörk er Kína.

 

Þó að kjarnorkuvopnum hefur fækkað síðan kalda stríðinu lauk er enn of mikið til af þeim vopnum til í heiminum til að valda ójafnvægi og óstöðuleika. Maður fær ákveðna ónotatilfinningu yfir fréttum af kjarnorkubrölti N-Kóreu og þeim sem muna þá tíma vona að brjálæðið sem fylgdi kjarnorkukapphlaupinu komi aldrei aftur.

Flokkar: Óflokkað

»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Alexander Ólafsson
Ég er með BA gráðu í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands, MPA gráðu í opinberri stjórnsýslu frá Háskólanum í Gautaborg og meistaragráðu í heilbrigðisstjórnun frá Norræna heilsuháskólanum í Gautaborg. Ég hef mikinn á áhuga á ríkisrekstri, íslenskri stjórnsýslu, heilbrigðis- og efnahagsmálum, norrænni samvinnu, ESB, öryggis- og varnarmálum. Tölvupóstur: gunnaralexander1212@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur