Þriðjudagur 13.12.2016 - 20:54 - FB ummæli ()

Sláum þrjár flugur í einu höggi….

Nýtt fjárlagafrumvarp fyrir árið 2017 var lagt fram á alþingi í byrjun mánaðarins. Þar kennir ýmissa grasa, m.a. að fjármála- og efnahagsráðherra er veitt heimild til að selja húsnæði Héraðsdóms Reykjavíkur við Lækjartorg og kaupa eða leigja annað hentugra húsnæði fyrir starfsemina.
Ég fagna því að þessi heimild er komin í fjárlög því ég hef aldrei skilið það til fulls af hverju héraðsdómur var staðsettur á besta mögulega verslunarstað í Reykjavík. Húsið við Lækjargötu býður uppá gríðarlega möguleika fyrir framsækna verslunar- og þjónustustarfsemi. Ég leyfi mér að segja að hús Héraðsdóms við Lækjargötu geti hentað vel sem verslunarhúsnæðií anda Magasin du Nord í Kaupmannahöfn.

Að mínu mati vantar í frumvarp til fjárlaga heimild til fjármálaráðherra til að nota hluta eða allt andvirði söluverðs sem fæst fyrir hús Héraðsdóms við Lækjargötu til að byggja nýtt og hentugt hús yfir starfsemi héraðsdóms. Ég legg til að nýtt hús undir starfsemi Héraðsdóms Reykjavíkur verði staðsett í nýrri byggingu á lóð sem tilheyrir Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu við Hverfisgötu og er í eigu ríkisins. Þessi umrædda lóð er gríðarlega stór og  er nýtt í dag undir bílastæði. Á lóðinni væi hægt að byggja stóra byggingu með bílakjallara sem gæti hýst alla starfsemi héraðsdóms sem og stjórnsýslubyggingar á vegum Innanríkisráðuneytisins eins og embætti Ríkislögrelgustjóra ásamt Fangelsismálastofnun.

Það tekur ákveðinn tíma að gera þarfagreiningu um hvernig hús héraðsdómur í Reykjavík þarf. Þegar sú þarfagreining liggur fyrir er hægt að hefja vinnu við að teikna nýtt hús og í framhaldi að hefja framkvæmdir. Þetta ferli gæti tekið þrjú til fjögur ár. Á þeim tíma eværi  hægt að selja húsið og áframleigja það undir starfsemi héraðsdóms þangað til nýtt hús verður tekið í notkun.

Gengi þetta eftir yrði niðurstaðan sú að héraðsdómur Reykjavíkur fengi nýtt og hentugra hús til að starfa í. Allar löggæslustofnanir á höfuðborgarsvæðinu yrðu staðsettar á einum stað. Miðbærinn fengi öflugt verslurnarhúsnæði sem myndi þjóna hlutverki sínu með prýði.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gunnar Alexander Ólafsson
Ég er með BA gráðu í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands, MPA gráðu í opinberri stjórnsýslu frá Háskólanum í Gautaborg og meistaragráðu í heilbrigðisstjórnun frá Norræna heilsuháskólanum í Gautaborg. Ég hef mikinn á áhuga á ríkisrekstri, íslenskri stjórnsýslu, heilbrigðis- og efnahagsmálum, norrænni samvinnu, ESB, öryggis- og varnarmálum. Tölvupóstur: gunnaralexander1212@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur