Fimmtudagur 22.01.2015 - 11:47 - FB ummæli ()

Eftirlitssveitir ríkisins

Mér finnst alltaf sérlega óþægilegt þegar ég fæ það á tilfinninguna að búið sé að stilla mér upp við vegg. Slík tilfinning gerði vart við sig þegar frumvarp um náttúrupassa var kynnt í ríkisstjórnarflokkunum fyrir skömmu. Ráðherra lagði fram efnislega sama frumvarp og búið var að hafna í fyrra. Það að ekki náðist að ljúka málinu í fyrra  þýddi að frumskólalögmál ríkti á ferðamannastöðum fram eftir sumri. Varla þarf að minna á uppákomur á Geysissvæðinu. Núna kemur nýtt frumvarp fram nokkrum mánuðum áður en sumarvertíðin hefst. Mikil andstaða er við náttúrupassann í í þinginu. Staðan er hins vegar sú  að umfangsmiklar efnislegar  breytingar á frumvarpinu kalla á mikla vinnu, sem vandséð er klárist fyrir þinglok í vor. Flest bendir því til þess að valið standi á milli þess að samþykkja náttúrupassa eða standa frammi fyrir  nýjum Geysisuppákomum fram eftir sumri.

Við hefðum ekki verið í þessari stöðu hefði Ragnheiður Elín komið málinu frá sér fyrr. Sjálfur mun ég ekki greiða atkvæði með náttúrupassa. Sú leið er ótæk og ekki vænleg til árangurs, auk þess sem kostnaður er of mikill. Þetta er leið sem mun valda sífelldum deilum og óánægju, ekki síst hjá þeim sem heimsækja landið okkar.  Ég ætla ekki að fjalla um rétt okkar til að ferðast um eigið land, en tilgreina nokkur önnur atriði.

Landeigendur mega velja hvort þeir taki þátt í náttúrupassa eða ekki. Hjá flestum þeirra verður þetta einfalt reikningsdæmi. Þeir munu reikna út ávinning þess að rukka sjálfir eða fá úthlutað úr sjóði ríkisins. Flestir munu velja fyrrnefndu leiðina, enda auðvitað best að geta stjórnað eigin tekjum sjálfir. Það að kaupa náttúrupassa tryggir því ekki óheft ferðalög um landið. Eftirlitssveitir ríkisins verða á fjölsóttum ferðamannastöðum og krefjast sönnunar fyrir greiðslu, á öðrum stöðum geta ferðamenn búist við að sérstaklega verði rukkað af einkaaðilum. Þetta er óskilvirkt og ósanngjarnt kerfi. Ferðamönnum verður seldur náttúrupassi – en neðanmáls verður væntanlega klásúla um að hann gildi bara sums staðar.  Það getur því verið sannkölluð óvissuferð að bregða sér austur á Geysi. Að stoppa á leiðinni getur þýtt að landeigandi svífi á mann með posann og krefjist greiðslu. Óánægjan verður mikil, jafnt hjá innlendum sem erlendum ferðamönnum.

Það mun kosta mikla fjármuni að markaðssetja náttúrupassann – kynna hann fyrir útlendingum sem koma hingað til lands. Slík markaðssetning er ekki tímabundin, hún þarf alltaf að vera til staðar. Það þarf að semja við söluaðila og það kostar mikla fjármuni. Til að eftirlit sé virkt þarf síðan að ráða  eftrirlitssveitir sem staðsettar verða á fjölsóttum ferðamannastöðum. Slælegt eftirlit þýðir að fólk mun ekki kaupa passann og þar með hrynur kerfið. Kostnaður við þetta eftirlit er vanhugsaður.

Ég hef verið talsmaður þess að lögð verði á komugjöld sem nái til þeirra sem komi með flugi og skipum til landsins. Þetta er hægt að útfæra á ýmsan hátt, t.d. með því að tengja við kennitölur þannig að Íslendingar sem ferðast oft á ári þurfi ekki að greiða gjaldið nema einu sinni á ákveðnu tímabili. Á sama hátt væri hægt að tengja gjald erlendra ferðamanna við nafn þeirra. Þetta er einföld leið og skilvirk. Flest erum við vön því að greiða aukagjöld þegar við ferðumst. Hóflegt gjald á þá sem koma til landsins mun ekki trufla marga.

Ráðherra hefur haldið því fram að óheimilt sé að leggja á landamæragjald og vísar til erlendra skuldbindinga okkar. Það er eflaust rétt, en það er ekkert því til fyrirstöðu að leggja gjöld á farseðla flugs og skipa – slíkt tíðkast víða.  Gistináttagjöld tíðkast líka víða, sem er önnur útfærsla, en hefur ekki gefið góða raun hérlendis.

Hver sem niðurstaðan verður þá þurfum við ekki á nýjum eftirlitssveitum ríkisins að halda árið 2015.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Karl Garðarsson
Höfundur er fyrrverandi þingmaður Framsóknarflokksins á Alþingi
RSS straumur: RSS straumur