Mánudagur 02.03.2015 - 20:11 - FB ummæli ()

Þörf fyrir umboðsmann aldraðra

Í dag lagði ég fram þingsályktunartillögu á Alþingi um að embætti umboðsmanns aldraðra verði komið á fót. Fimm aðrir þingmenn Framsóknarflokksins eru með mér á þessu máli.

Eldri borgarar standa berskjaldaðir gagnvart stofnunum og yfirvöldum og eiga oft á tíðum erfitt með að verja réttindi sín. Löggjöf varðandi málefni aldraðra er flókin, ekki síst á sviði skatta, almannatrygginga og heilbrigðismála. Hlutverk umboðsmanns aldraðra er að vera málsvari sístækkandi hóps aldraðra í þjóðfélaginu, að leiðbeina þeim um rétt sinn og vinna að almennri kynningu á málefnum sem tengjast öldruðum.

Stór hópur aldraðra er í stöðugri baráttu við kerfið og fær aldrei aðstoð eða leiðréttingu sinna mála. Þörfin fyrir umboðsmann aldraðra er mikil og nauðsynlegt að þessi hópur geti leitað til eins aðila með spurningar og athugasemdir. Þá hefur mikið vantað upp á að aldraðir hafi talsmann gagnvart stjórnvöldum.

Mörg þessara mála tengjast lífeyrismálum, skattamálum, búsetu o.sv.frv. Í slíkum tilvikum hefði umboðsmaður mikilvægt hlutverk.

Gert er ráð fyrir að 67 ára og eldri fjölgi um rúmlega 26.000 á næstu 15 árum, eða um 71%. Talið er að 80 ára og eldri fjölgi um tæplega 6600, eða um 55%. Þörfin fyrir umboðsmann hefur aldrei verið ríkari en nú.

Almennt er ég ekki fylgjandi því að stofnunum ríkisins sé fjölgað. Umboðsmenn hafa hins vegar sannað gildi sitt og aldraðir þurfa á slíkum talsmanni að halda.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Karl Garðarsson
Höfundur er fyrrverandi þingmaður Framsóknarflokksins á Alþingi
RSS straumur: RSS straumur