Miðvikudagur 11.03.2015 - 09:52 - FB ummæli ()

Össur gegn Árna Páli

Mikil ólga er innan Samfylkingarinnar í tengslum við flokksþingið sem er framundan. Hávær krafa er um formannsskipti og hefur verið fundað stíft í bakherbergjum síðustu daga. Bent er á slæma stöðu flokksins samkvæmt skoðanakönnunum, þar sem sú staðreynd að flokkurinn er í stjórnarandstöðu hefur ekki skilað sér í auknu fylgi. Þá þykja óljós skilaboð Árna Páls varðandi Evrópusambandið hafa veikt stöðu hans til muna. Uppgjör sé því óhjákvæmilegt.

Óvænt nafn hefur skotið upp kollinum í þessari umræðu. Þannig mun hafa verið lagt hart að Össuri Skarphéðinssyni síðustu daga að bjóða sig fram gegn Árna Páli. Össur er gamall refur í pólitíkinni sem nýtur stuðnings og álits langt út fyrir raðir Samfylkingarinnar. Þannig þykir hann líklegur til að ná upp fylgi flokksins, nú þegar tvö ár eru til kosninga. Ekki spillir fyrir að hann hefur mikla reynslu sem ráðherra og sem fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar. Sjálfur á hann sér mikla drauma um að komast aftur í stól utanríkisráðherra, sem er eini möguleikinn ef takast á að halda Evrópusambandsdraumi hans á lífi.

Það verður því spennandi að fylgjast með þróuninni innan Samfylkingarinnar næstu daga.

Aðeins eitt að lokum. Það er álíka mikið hæft í þessari grein og hugleiðingum Össarar Skarphéðinssonar um ólgu innan Framsóknarflokksins sem geti leitt til formannsskipta. Þessi grein er hugarburður minn, rétt eins og innantómt hjal Össurar.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Karl Garðarsson
Höfundur er fyrrverandi þingmaður Framsóknarflokksins á Alþingi
RSS straumur: RSS straumur