Þriðjudagur 15.12.2015 - 09:13 - FB ummæli ()

Ástin á eldri borgurum

Þingmenn Samfylkingar, Vinstri grænna og Pírata hafa síðustu daga kynnt sig sem sérstaka baráttumenn fyrir bættum kjörum aldraðra.

Þessir flokkar fara með stjórn stærsta sveitarfélagsins, Reykjavíkur, og þar hafa verkin verið látin tala. Fyrir skömmu var skert heimaþjónusta til aldraðra í nokkrum hverfum borgarinnar. Heimaþjónustan snýst ekki bara um aðstoð heima við,  heldur hefur félagsskapurinn verið mikilvægur fyrir marga eldri borgara. Margir þeirra búa við einangrun og einmanaleika og heimsóknir til þeirra eru fátíðar. Heimaþjónustan hefur hér gegnt mikilvægu hlutverki.

Nú hafa borist fréttir af því eldri borgarar í Eirborgum í Grafarvogi fái ekki lengur heitan mat um helgar. Fokið er í flest skjól þegar farið er að skerða mat til þessa hóps.

Ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna lét það verða eitt sitt fyrsta verk sumarið 2009 að skerða greiðslur til  ákveðinna hópa aldraðra og öryrkja. Það var afsakað með þeim orðum að hér hefði orðið hrun og að allir yrðu að taka þátt í endurreisn landsins.

Vissulega hefur fjárhagur Reykjavíkur hrunið í tíð Samfylkingar, Vinstri grænna og Pírata. Að láta það bitna sérstaklega á öldruðum er þó með ólíkindum.

Eldri borgarar hljóta að vera spenntir fyrir þeim möguleika að þessir flokkar taki við stjórn landsins eftir næstu kosningar.

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Karl Garðarsson
Höfundur er fyrrverandi þingmaður Framsóknarflokksins á Alþingi
RSS straumur: RSS straumur