Föstudagur 11.12.2015 - 11:21 - FB ummæli ()

Illmenni á Alþingi

Þegar rætt er um kjör aldraðra og öryrkja mætti helst halda að það séu tóm illmenni á Alþingi.

Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar, og ítreka hana hér, að ég tel að lágmarksgreiðslur til aldraðra og öryrkja eigi að að ná 300 þúsund krónum á næstu þremur árum. Ég hefur oftar en einu sinni skýrt frá þessu viðhorfi mínu á fundum hjá mínum flokki, síðast fyrir örfáum mánuðum.

Í dag fá aldraðir útborgaðar að lágmarki um 192 þúsund krónur á mánuði, en lífeyrir þeirra nemur um 225 þúsund krónum. Um næstu áramót hækkar þessi tala um 9,7% og fer lágmarkslífeyrir þá í um 245 þúsund krónur. Miðað við spá um launavísitölu bætast síðan 8% til viðbótar við eftir ár og verða lágmarksgreiðslur til aldraðra komnar yfir 260 þúsund krónur. Ríkisstjórnin á að stíga skrefið til fulls og tryggja þessum hópum 300 þúsund króna lágmarksgreiðslur á sama tíma og aðrir fá þær.

Aldraðir og öryrkjar fengu 3% hækkun um síðustu áramót – ekki frá 1. mars – og fá 9,7% til viðbótar núna um áramótin. Það var því ekki hægt að greiða atkvæði með tillögu um afturvirkni greiðslna til þessara hópa – þeir eru ekki að fá minna en aðrir á árinu.

Hópur aldraðra og öryrkja getur ekki lifað af þeim lágmarksgreiðslum sem kerfið tryggir þeim í dag. Hin raunverulega kjarabót þeirra felst hins vegar  í 300 þúsund króna lágmarkslífeyri – engu öðru. Allra síst eingreiðslu upp á nokkrar krónur í boði stjórnarandstöðunnar.

Á umræðunni er helst að skilja að ráðamenn séu vondir menn sem vilji sjúklingum, öldruðum og öryrkjum allt hið versta. Ég þekki ekki nokkurn mann sem styður ekki þessa málaflokka – hvorki innan þings né utan. Maður gæti haldið, miðað umræðuna á samfélagsmiðlum að hér séu ekkert nema illmenni. Svo er auðvitað ekki. Málefni sem tengjast öldruðum og öryrkjum er eitt af stóru málum okkar samtíðar.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Karl Garðarsson
Höfundur er fyrrverandi þingmaður Framsóknarflokksins á Alþingi
RSS straumur: RSS straumur