Fimmtudagur 04.02.2016 - 10:05 - FB ummæli ()

Vandi Samfylkingar

Kröfur eru innan Samfylkingar um að bregðast við fylgistapi með því að skipta um formann. Slíkt á þá væntanlega að hleypa krafti í flokksstarfið og auka fylgið.

Maðurinn í brúnni er vissulega mikilvægur. Þegar knattspyruliðum gengur illa er þjálfarinn yfirleitt rekinn. Stundum virkar það – oft ekki.

Það hefur ekki virkað hjá Bjartri framtíð. Fylgi flokksins hefur haldið áfram að dala þrátt fyrir nýja leiðtoga. Hvernig stendur á því?

Karl Th. Birgisson hefur rétt fyrir sér þegar hann segir að ekki eigi að skipta um formann nema annar betri sé í boði. Í Samfylkingunni er enginn slíkur í sjónmáli, þar liggur vandinn. Dagur B. Eggertsson er áhugalaus, auk þess sem pólitísk staða hans hefur versnað svo um munar í borginni. Er Sigríður Ingibjörg líkleg til að hífa upp fylgið?

Eða Össur? Hann leiddi Samfylkinguna í gegnum tvennar kosningar sem formaður með fylgi upp á 31-32%. Össur er skynsamur – hann mun ekki leggja höfuð sitt og feril á þann pólitíska höggstokk að fara í formennskuslag hjá flokki sem er með um 9% fylgi.

Kannski liggur vandinn frekar í innra starfi Samfylkingar og stefnumálum hennar. Það væri kannski skynsamlegt að byrja á réttum enda – stefnunni – og fara yfir það sem aflaga hefur farið.

Þar ber hæst að Samfylkingin virðist hafa misst tengslin við umbjóðendur sína – fólkið í landinu, alþýðuna. Fólkið finnur ekki samhljóm með stefnu flokksins. Áherslan á ESB aðildina er dýrkeypt.

Kannski þarf að leita lausna innan flokksins, frekar en að horfa bara á formanninn.

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Karl Garðarsson
Höfundur er fyrrverandi þingmaður Framsóknarflokksins á Alþingi
RSS straumur: RSS straumur