Sunnudagur 17.07.2016 - 13:19 - FB ummæli ()

Að loka augum og eyrum

Vestrænir stjórnmálaleiðtogar anda léttar eftir hina misheppnuðu uppreisn í Tyrklandi og það er helst að skilja að þar sé allt í góðum gír. Það fer lítið fyrir opinberri gagnrýni á Erdogan forseta, þrátt fyrir eftirfarandi:

– Stjórn Erdogans hefur svipt þingmenn friðhelgi, þannig að hægt er að sækja þá til saka verði þeim á að gagnrýna stjórnvöld. Hundruð stjórnarandstæðinga á þingi eiga málshöfðanir yfir höfði sér.

– Bannað er að móðga forsetann í ræðu og riti, samkvæmt nýsamþykktum lögum. Þannig var t.d. fyrrverandi fegurðardrotting í Tyrklandi dæmd í 14 mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir að móðga forsetann í ljóði sem hún birti á samfélagsmiðlum.

– Erdogan hefur látið loka um 110.000 vefsíðum sem birtu efni sem var ekki að skapi stjórnvalda.

– Undanfarin tvö ár hafa um tvö þúsund mál gegn blaðamönnum og fræðimönnum sem eru sakaðir um að hafa móðgað forseta landsins verið sótt fyrir tyrkneskum dómstólum.

– Þúsundir stjórnarandstæðinga hafa verið myrtir í átökum, ekki síst í suðaustuhluta landsins.

– Mannréttindi hafa verið þverbrotin í landinu á sama tíma og lýðræðislegar stofnanir eru undir járnhæl forsetans.

Allt þetta er réttlætt með því að landið verði að grípa til róttækra aðgerða til stemma stigu við hryðjuverkum. Vissulega er Tyrkland í bakgarði ISIS og landsmenn hafa þurft að horfa upp á skelfileg hryðjuverk á undanförnum mánuðum.

Við megum ekki heldur gleyma að Tyrkir hafa tekið móti milljónum flóttamanna frá Sýrlandi og öðrum löndum og gert það með sóma. Þetta hefur verið þungur baggi, þar sem vestræn ríki sýndu málinu engan áhuga fyrr en flóttamannstraumurinn fór að berast í þeirra eigin kálgarð.

Við megum hins vegar aldrei gefa afslátt á mannréttindum. Og við megum aldrei líta til hliðar – það verða vestrænir stjórnmálamenn að muna.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Karl Garðarsson
Höfundur er fyrrverandi þingmaður Framsóknarflokksins á Alþingi
RSS straumur: RSS straumur