Þriðjudagur 26.07.2016 - 09:45 - FB ummæli ()

Enn eitt ruglið

Það hefur aldrei verið neinn skortur á erlendum lukkuriddurum sem vilja fjárfesta á Íslandi. Og það hefur aldrei verið neinn skortur á bláeygðum stjórnmálamönnum sem trúa öllu sem þeim er sagt eins og nýju neti.

Það nýjasta er nýtt og glæsilegt einkasjúkrahús í Mosfellsbæ.

Slíkt sjúkrahús mun óhjákvæmilega leiða til mikils launaskriðs hjá öllum heilbrigðisstéttum, sem síðan myndi yfirfærast á almennan launamarkað, rétt eins og gerðist síðast þegar læknar knúðu fram launahækkanir, sem eiga engan sinn líka. Nú þegar er gífurlegur skortur á sérþjálfuðu heilbrigðisstarfsfólki hérlendis og að halda því fram að opnun 1000 manna sjúkrahúss muni ekki hafa áhrif á laun, er fáviska. Útilokað er að hægt verði að manna slíkan vinnustað að fullu með erlendu starfsfólki. Afleiðingarnar verða mikið launaskrið hins opinbera með tilheyrandi verðbólgu.

Kostnaður ríkisins vegna veittrar heilbrigðisþjónustu hérlendis mun því aukast gífurlega. Og allt vegna þess að erlendir aðilar vilja byggja hér sjúkrahús sem sinna á þeim sem vilja og geta borgað.

Eru íslenskir skattborgarar tilbúnir til þess? Er þetta það sem fólk vill? Viljum við rústa íslensku heilbrigðskerfi? Við erum smáþjóð sem hefur ekki efni á mörgum stórum sjúkrahúsum. Því verðum við að hlúa sem best að þjóðarsjúkrahúsinu. Þar liggur áherslan.

Ég læt vera að varpa fram spurningum um almannatryggingakerfið og hvað áhrif nýtt sjúkrahús hefur á það.

Að lokum. Eru menn virkilega á því að um mitt ár 2016 sé það ásættanlegt að ráðist sé í risaframkvæmdir hérlendis þar sem leynd hvílir yfir eignarhaldi?

Eru menn endanlega gengnir af göflunum?

Er nema von að spurt sé.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Karl Garðarsson
Höfundur er fyrrverandi þingmaður Framsóknarflokksins á Alþingi
RSS straumur: RSS straumur