Sunnudagur 04.05.2014 - 16:31 - FB ummæli ()

Kosið um framtíð ESB

Kosið um framtíð ESB

Kosningar til ESB-þingsins snúast mest um framtíð ESB. Önnur mál fá litla athygli.

ESB-þingmenn eru vel launaðir en völd þeirra eru ekki í samræmi við það. Þeir geta ekki haft frumkvæði að lagasetningu heldur geta aðeins samþykkt það sem frá framkvæmdastjórninni og ráðherraráðinu kemur. Þetta áhrifaleysi þingsins er ein af ástæðum þess að Evrópubúar hafa fremur lítinn áhuga á kosningum til ESB-þingsins. 

Þingið býr við þær sérstöku aðstæður að þurfa að flytja starfsemi sína tvisvar í mánuði á milli Strasborgar og Brussel; 700 þingmenn, 5000 starfsmenn og gögn sem fylla átta stóra gáma en kostnaðurinn við flutningana er árlega sem svarar um 30 milljörðum króna. Það eru all margir flutningar á hverju fimm ára kjörtímabili.

Kosningaþátttakan til ESB-þingsins hefur minnkað stöðugt. Árið 1979 tóku 62% kosningabærra þátt, en þátttakan hefur minnkað stöðugt frá 1999 og var komin niður í 43% árið 2009. Kannanir benda til þess að þátttakan verði ekki meiri en 40% þegar kosningar fara fram í lok þessa mánaðar.

Það er erfitt að benda á sérstök kosningamál. Sænski íhaldsmaðurinn Christofer Fjellner sem býður sig fram í þriðja sinn segir að aðalmálið núna sé að koma í veg fyrir að ESB klofni. Í viðtali við sérútgáfu sænska blaðsins Dagens Industri í tilefni af ESB-kosningunum segir Fjellner að hann óttist afleiðingar þess að hluti ESB-landa muni taka þátt í bankabandalagi og setja á laggirnar sérstakan fjármagnsskatt á meðan annar hluti muni ekki taka þátt í slíkum aðgerðum. Fjellner óttast að frjálst flæði fjármagns geti orðið úr sögunni í Evrópu innan nokkurra ára, og svipuð gætu orðið örlög fyrir frjálsa för fólks.

Reyndar eru aðrir stjórnmálamenn, einkum á vinstri vængnum, mjög ósáttir við að ESB-reglur heimili innflutning á vinnuafli sem fær langtum lægri laun en fólk fær á heimamarkaði samkvæmt samningum. Jafnframt fylgir slíkum tilflutningum á verkafólki mikið félagslegt óréttlæti.

Hans Strandberg, blaðamaður Dagens Industri, segir í sérútgáfu blaðsins um ESB-kosningarnar að ESB hafi byrjað sem eins konar úrvalsverkefni (elitprojekt) fyrir forsætisráðherra, utanríkisráðherra og sendiráðsstarfsmenn. Starfsemin hafi þó verið takmörkuð í upphafi, en smám saman hafi hún bæði náð yfir fleiri verksvið og stærri svæði. Þátttakan í kosningunum sýni þó að þessi þróun hafi ekki haft almennan stuðning.

Vandamálið við kosningarnar til ESB-þingsins er í sumum löndum að það eru fyrst og fremst stuðningsmenn þeirra flokka sem bjóða fram sem taka þátt í kosningunum. Það fólk sem telur sig ekki neina sérstaka stuðningsmenn framboðsflokkanna situr fremur heima. Í venjulegum þingkosningum í heimalöndunum mætir þetta fólk frekar og merkir við einhvern flokkanna vegna þess að þar eru það þó frekar einhver málefni sem tekist er á um.

Í ESB-löndunum fer sem sagt fram kosningabarátta sem snýst að miklu leyti um framtíð ESB fremur en um einhver sérstök málefni. Sérstök málefni kveikja að jafnaði ekki í kjósendum í þessum kosningum. Það er kannski von til þess að stjórnmálamönnum og fjölmiðlum í álfunni takist að hífa aðeins upp þátttökuna ef hægt er að telja fólki trú um að kosningarnar snúist um framtíð ESB. Niðurstaðan kemur í ljós í lok þessa mánaðar.

(Byggt að miklu leyti á sérútgáfu Dagens Industri frá 16. Apríl 2014).

Flokkar: Óflokkað · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Nei við ESB - vefrit
Þau samtök sem standa að Nei við ESB eru Heimssýn, hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, Ísafold, félag ungs fólks gegn ESB-aðild, Herjan, félag stúdenta í H.Í. gegn aðild að ESB, Vinstrivaktin gegn ESB og Þjóðráð.

Slóðin að vefnum Nei við ESB er www.neiesb.is

Ábyrgðarmaður er Jón Bjarnason.
RSS straumur: RSS straumur