Fimmtudagur 02.04.2015 - 16:32 - FB ummæli ()

Þingsályktun um þjóðaratkvæðagreiðslu

OdinnSigthorssonSamfylkingin og fylgiflokkar hennar skila nánast auðu í ESB-málum. Það er niðurstaða Óðins Sigþórssonar, fyrrverandi formanns samtakanna Nei við ESB, í grein sem birt var í Morgunblaðinu í vikunni. Þar segir hann að með framkominni þingsályktunartillögu um að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla um hvort taka skuli upp áframhaldandi viðræður við ESB um aðildarumsókn sé verið að forðast umræðu um það sem skipti máli, nefnilega spurninguna um afstöðu til aðildar að ESB.

Grein Óðins Sigþórssonar er birt hér í heild sinni: 

Komin er fram á Alþingi þingsályktunartillaga um að þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram um hvort taka skuli upp áframhaldandi viðræður við ESB um aðildarumsókn. Skemmst er þess að minnast að síðasta ríkisstjórn heyktist á viðræðunum rétt fyrir kosningar og setti þær á ís. Þetta stórpólitíska mál mátti ekki ræða í kosningabaráttunni, enda málið ofurviðkvæmt öðrum stjórnarflokknum. Þá var heldur ekki heppilegt að lyfta teppinu af hinum stóru hagsmunamálum Íslands í viðræðunum fyrir kosningar, en Alþingi setti skýra fyrirvara vegna meginhagsmuna sem ekki skyldi framselja til ESB. Allt kemur það fram í meirihlutaáliti utanríkismálanefndar frá sumrinu 2009. Þá var einnig einkar óheppilegt að stækkunarstjóri ESB hafði í viðtölum margoft vísað öllum hugmyndum þáverandi utanríkisráðherra um undanþágur til föðurhúsanna með góðlátlegu brosi á vör.
Fyrrverandi stjórnarflokkar treystu sér einfaldlega ekki í kosningabaráttu með þetta stórpólitíska mál í fanginu.
Texti þingsályktunar sem stjórnarandstaðan ber fram sameiginlega er vægast sagt mjög sérstakur. Spurningin til þjóðarinnar hljóðar svo: „Vilt þú að Ísland taki upp þráðinn í viðræðum við Evrópusambandið með það að markmiði að gera aðildarsamning sem borinn yrði undir þjóðina til samþykktar eða synjunar?“
Nú hljóta margir að spyrja á móti. Ef á að leiða þjóðina að kjörborðinu á annað borð og með tilheyrandi kostnaði, af hverju forðast flutningsmenn þá að orða spurninguna með þeim hætti að leiddur sé fram þjóðarvilji um afstöðuna til þess að ganga í Evrópusambandið? Hefði ekki verið heiðarlegra gagnvart þjóðinni og Evrópusambandinu að spurt væri hvort kjósandinn vildi að Ísland tæki upp þráðinn í viðræðum við Evrópusambandið með það að markmiði að gerast aðili að Evrópusambandinu? Ástæðan er einföld. Sjötíu prósent þjóðarinnar vilja ekki ganga í ESB en ámóta meirihluti getur hins vegar vel hugsað sér að kjósa bara um viðræðurnar. Þetta vita flutningsmenn og nú þarf að vanda sig við að blása lífi í nasirnar á dauðvona sjúklingnum. Alkunna er að ekki verður af aðild Íslands að ESB nema að undangenginni breytingu á stjórnarskrá Íslands og að fengnu samþykki þjóðarinnar.Áfram ætla flutningsmenn sér því að leiða þjóðina í eyðimerkurgöngunni til fyrirheitna landsins. Þannig skal umræðan í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslunnar snúast um réttinn til að kjósa um framhald viðræðnanna en ekki má nefna það grundvallaratriði hvort Ísland skuli gerast aðili að Evrópusambandinu. Nú er mál að linni. Aðild að Evrópusambandinu og staða Íslands í alþjóðasamfélaginu er stærra mál en svo að ábyrgir stjórnmálamenn geti vikið sér undan þeirri umræðu með því að afvegaleiða kjósendur með tillögu um að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla um nánast ekki neitt.

Höfundur er fyrrverandi formaður samtakanna Nei við ESB.
(Leturbreytingar eru Nei við ESB)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Nei við ESB - vefrit
Þau samtök sem standa að Nei við ESB eru Heimssýn, hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, Ísafold, félag ungs fólks gegn ESB-aðild, Herjan, félag stúdenta í H.Í. gegn aðild að ESB, Vinstrivaktin gegn ESB og Þjóðráð.

Slóðin að vefnum Nei við ESB er www.neiesb.is

Ábyrgðarmaður er Jón Bjarnason.
RSS straumur: RSS straumur