Þriðjudagur 4.3.2014 - 17:34 - FB ummæli ()

Hin skilyrta umsókn Alþingis um aðild að ESB frá 2009

Það hefur farið framhjá ýmsum að umsókn Alþingis um aðild að ESB var skilyrt, enda sagði að við undirbúning viðræðna og skipulag þeirra skyldi ríkisstjórnin fylgja þeim sjónarmiðum um verklag og meginhagsmuni sem fram komu í áliti meiri hluta utanríkismálanefndar. Miðað við það sem fram kemur í skýrslu Hagfræðistofnunar og yfirlýsingum sérfræðinga sem unnu með stofnuninni er ljóst að ekki verður að óbreyttu haldið áfram með umsóknina þar sem ljóst er að ferlið uppfyllir ekki þau skilyrði sem sett voru.

Heimildin sem Alþingi veitt til umsóknar var því ekki opin. Í greinargerðinni sem fylgdi með umsókninni var fjallað um þá meginhagsmuni sem ekki átti að gefa eftir í samningaviðræðum. Meðal skilyrða sem sett voru í greinargerðinni voru yfirráð yfir sjávarauðlindinni, samningsforræði vegna skiptingar á veiði úr deilistofnum og að stuðningi við landbúnað yrði ekki raskað með afnámi tolla.

Miðað við þetta er ljóst að mögulegt áframhald viðræðna við ESB kallar óhjákvæmilega á að fyrirliggjandi þingsályktun yrði breytt þar sem ljóst má nú vera að í slíkum viðræðum yrði að falla frá því að þeir meginhagsmunir sem að framan greinir séu óumsemjanlegir. Það er í samræmi við niðurstöðu Hagfræðistofnunar sem telur að engar líkur séu á því að við fáum varanlegar undanþágur í líkingu við það sem Alþingi taldi að yrðu að vera fyrir hendi eins og fram kemur í þingsályktun og greinargerð Alþingis frá 16. Júlí 2009.

Miðað við þetta er því ljóst að viðræðum er sjálfhætt.

Flokkar: Bloggar · Dægurmál · Óflokkað · Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 1.3.2014 - 11:31 - FB ummæli ()

Þúsundir sjálfstæðismanna og framsóknarmanna á bak við stefnuna

Það eru meira en þúsund sjálfstæðismenn sem taka þátt í að móta þá stefnu sem endanlega er samþykkt á landsfundi flokksins. Það eru líka fjölmargir sem koma að því að undirbúa þá stefnu sem ákveðin er á flokksþingum Framsóknarflokksins.  Þegar tekið er tillit til þess að pólitísk stefnumótun á sér stað á landsfundi eftir landsfund og flokksþingi eftir flokksþing þar sem stefnan er slípuð og fáguð með tilliti til nýrra upplýsinga sem venjulegt flokksfólk vill hafa til hliðsjónar þá sést að það er talsverður mannafli sem stendur að jafnaði að baki stefnumótun flokkanna. Stefnur af þessu tagi hafa mikið vægi. Á bak við hana liggur miklu meira og lengra lýðræðislegt ferli en á bak við þjóðfund sem skotið er á í örfáa daga.

Þessi stefnumótun fjölda sjálfstæðismanna og framsóknarmanna leiddi af sér sömu stefnuna í ESB-málinu eins og fram kom í ályktunum landsfundar Sjálfstæðisflokksins og flokksþings Framsóknarflokksins fyrir um ári. Stefnan var sú að vera utan við ESB þar sem það þjónaði hagsmunum Íslendinga betur, að stöðva viðræðurnar við ESB og að ekki hefja þær aftur nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu. Í þessu fólst alls ekki loforð um að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu, heldur aðeins að undir engum kringumstæðum yrði sú vegferð hafin á nýjan leik án þess að þjóðin yrði spurð fyrst.

Í kosningabaráttunni  viðhöfðu nokkrir forystumenn við einhver tækifæri ummæli sem viku aðeins frá þeirri stefnu sem samþykkt hafði verið. Slíkt getur hent. Einhver slík ummæli féllu fyrir landsfundinn og flokksþingið. Vissulega skipta ummæli forystumanna máli. En jafnvel þótt stjórnskipun landsins geri ekki ráð fyrir því að þingmenn séu bundnir af samþykktum flokksstofnana þá yrði það pólitískt ómögulegt fyrir frambjóðendur og kjörna fulltrúa að fylgja ekki í langflestum tilfellum samþykktri stefnu flokka sinna. Einstaka þingmenn hafa getað lýst yfir annarri skoðun og hafa fylgt henni eftir, en ekki forysta flokkanna eða meirihluti fulltrúa. Ef ekkert á að gera með samþykktir sem myndast í lýðræðislegu fulltrúaferli flokkanna væri til lítils að hafa þessa flokka. Um þetta ríkir nokkuð almennt samkomulag þrátt fyrir prófkjaramenningu undanfarna áratugi.

Umrædd stefnumótin Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins rataði óbreytt inn í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar eftir að þessir flokkar höfðu unnið stórsigur í þingkosningunum vorið 2013. Það eykur enn vægi stefnunnar. Þau sem viðhöfðu ummæli um að boða til þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald viðræðna við ESB hafa nú lýst því yfir að slíkt sé pólitískt ómögulegt. Núverandi ríkisstjórn, sem er á móti aðild að ESB og vill stöðva viðræður getur ekki átt þátt í því að vinna gegn eindreginni stefnu sinni og sinna flokka með því að stuðla mögulega að því að viðræðum verði fram haldið. Fáránleiki slíks verður enn stærri í ljósi þess að meirihluti landsmanna vill vera fyrir utan ESB.

Vinstri græn létu hafa sig út í að vinna gegn stefnu sinni með því að samþykkja kröfu Samfylkingar um að sótt yrði um aðild að ESB. Umsókn um aðild var risavaxið skref fyrir Ísland því með henni var hraðað aðlögun að regluverki ESB, jafnvel þótt ljóst væri að meirihluti landsmanna vildi ekki fara þangað inn. Samfylkingin og Vinstri græn hunsuðu kröfu um 75% þjóðarinnar um að hún yrði fyrst spurð að því hvort hefja ætti þessa vegferð. Umsóknarferlið átti að taka níu til 18 mánuði, en það rann út í sandinn í tíð fyrri ríkisstjórnar áður en kjörtímabili var lokið.

Alþingi samþykkti umsóknarbeiðni með ályktun. Þess vegna er rökrétt að þingið klári málið nú. Hástemmdar ásakanir Samfylkingarfólks í garð núverandi stjórnvalda um svik eru í fölskum hljómi en hafa samt náð tilteknum hljómgrunni af því að einhverjir trúa því að verið sé að taka frá þeim einhvern rétt. Svo er þó alls ekki eins og einn helsti ESB- og evrusérfræðingur Evrópu, Daniel Gros, benti á í nýlegu viðtali.

Það er því eðlilegt að flokkarnir haldi stefnu sinni. Það þarf ef til vill að rökstyðja ýmsa þætti betur en gert hefur verið. Það þarf ef til vill enn fremur að rýna betur í ýmis skilyrði sem sett voru með umsókninni sumarið 2009 um fyrirvara er varða sum okkar stærstu hagsmunamál, það er sjávarútvegsmál og landbúnaðarmál.

Eigum við ekki bara að vinda okkur í að ræða þessa fyrirvara betur? Þá sjáum við betur hvort einhver líkindi séu til þess að á kröfur okkar yrði fallist í mögulegum viðræðum.

Flokkar: Bloggar · Dægurmál · Óflokkað · Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 27.2.2014 - 13:04 - FB ummæli ()

Styrkur Bjarna Benediktssonar

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra, hefur staðið í ströngu að undanförnu. Honum hefur þó tekist að sýna með mjög sannferðugum hætti að það sé rétt af Sjálfstæðisflokknum, og eina rétta leiðin, að hætta þessum aðlögunarviðræðum formlega. Öðruvísi geta þingmenn ekki snúið sér að þarfari verkefnum og öðruvísi getur þjóðin ekki snúið sér að því að byggja áfram upp velferð hér á landi á eigin gruni.

Vitaskuld er þetta ekki auðveld leið fyrir formann flokksins þegar ákveðinn hópur flokksmanna vill klára aðildarviðræður og verða hluti af ESB. ESB–málið er hins vegar þannig að það er annað hvort eða. Annað hvort höldum við áfram ferlinu og stefnum á að fara þarna inn eða að við hættum því og hugum að okkar málum á sjálfstæðan hátt.

Vissulega var rætt um þann möguleika í aðdraganda kosninga að láta fara fram þjóðaratkvæðagreiðslu um framhaldi viðræðna. Samfylkingin og Vinstri græn tóku það þó ekki í mál, ekki fyrr en Vinstri græn hafa nú nýlega skipt um kúrs og vilja undir forystu Katrínar Jakobsdóttur halda þjóðaratkvæðagreiðslu um málið.

Samþykktir æðstu stofnana Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins eru ótvíræðar: Ísland á ekki heima í ESB, stöðva á viðræður og undir engum kringumstæðum að halda áfram viðræðum nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu. Þúsundir einstaklinga tóku þátt í að undirbúa og samþykkja þessa stefnu.

Flokkarnir náðu góðum meirihluta í kosningum, mynduðu stjórn og í stjórnarsáttmálanum kemur fram sú stefna óbreytt sem æðstu samkundur flokkanna samþykktu. Það er því, þrátt fyrir ýmislegt sem einstakir forystumenn sögðu fyrir kosningar, lýðræðislega ómögulegt að fara á skjön við stjórnarsáttmála sem er í fullkomnu samræmi við samþykktir æðstu stofnana flokkanna sem þúsundir einstaklinga hafa undirbúið. Þær samþykktir hlutu jú einnig gott brautargengi í kosningum.

Bjarni Benediktsson hefur sýnt styrk og jafnaðargeð í þessari umræðu þrátt fyrir talsverðan blástur frá þingmönnum úr stjórnarandstöðu og aðgangshörku fjölmiðla.

Bjarni stendur þetta af sér eins og annað því hann er að gera það eina rétta í stöðunni.

Flokkar: Bloggar · Dægurmál · Óflokkað · Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 26.2.2014 - 13:20 - FB ummæli ()

Undanhald VG

Það er brostinn á flótti í liði þeirra sem hafa viljað toga okkur Íslendinga að og inn í ESB. Nýjasta dæmið um þetta er breytt afstaða Vinstri grænna sem fram kemur í þeirri ályktun sem þau lögðu fyrir Alþingi í gær. Nú vilja Vinstri græn gera hlé á aðildarviðræðum og jafnframt ekki taka þær aftur upp nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu. Þessi afstaða er langt frá þeirri afstöðu sem Steingrímur og Björn Valur keyrðu áfram allt fram á þetta kjörtímabil. Katrín Jakobsdóttir hefur nú náð valdasprotanum úr höndum þeirra félaga.

Vinstri græn hafa vegna þessa sviðið í dag. Þau eru að reyna að marka sér sérstöðu frá Samfylkingunni í Evrópumálunum. Vinstri græn þurfa á því að halda, enda er flokkurinn á móti aðild að ESB. Það er ekkert sem knýr á um fyrir þau að vera í slagtogi með Össuri og félögum. Árni Þór Sigurðsson gerir sér grein fyrir því að ríkisstjórnin mun hafa sitt fram og býr sig nú undir þinglega meðferð á tillögu utanríkisráðherra eins og fram kom í hádegisfréttum. Árni gerir sér grein fyrir því að engar líkur eru á því að ríkisstjórnin muni fallast á tillögu Vinstri grænna, en kannski geta Vinstri græn í meðferð málsins náð að breyta ásýnd flokksins.

Þegar kemur að tiltrú VG í ESB-málinu er stóra málið hvaða afstöðu þingmenn flokksins taka til tillögu utanríkisráðherra. Greiði þingmenn þess flokks sem er á móti aðild að ESB atkvæði gegn tillögu utanríkisráðherra er tiltrú þingflokksins og flokksins alls fokin út í veður og vind. Þingflokkurinn gæti bjargað sér fyrir horn með hjásetu en eina sterka leiðin til að efla traust á flokknum og stefnumálum hans er sú ef að minnsta kosti þau sem greiddu atvkæði gegn ályktun um aðildarumsókn á sínum tíma greiði nú atkvæði með tillögu utanríkisráðherra og að enginn úr röðum VG greiði atkvæði gegn henni. Það er líklega það minnsta sem VG getur gert til að bjarga andlitinu í þessu máli.

Flokkar: Bloggar · Dægurmál · Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 24.2.2014 - 11:15 - FB ummæli ()

Afturköllun umsóknar er hið eina rétta í stöðunni

Bjarni Benediktsson, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og flokkar þeirra hafa sýnt mikinn styrk með því að taka ákveðið og örugglega á ESB-málinu. Umsóknin verður afturkölluð.  Það er það eina rétta í stöðunni miðað við vilja þjóðarinnar gagnvart inngöngu og stefnu stjórnarflokkanna sem nýtur mikils meirihlutastuðnings.
Það eru nokkur atriði sem skipta miklu í þessu máli:
  • Meirihlutavilji til aðildar er grundvallarforsenda umsóknarferlis. Hann vantar hjá almenningi og ríkisstjórnarflokkum.
  • Skýrsla Hagfræðistofnunar sýnir meðal annars að það eru engar varanlegar undanþágur í boði í sjávarútvegi og landbúnaði. Engin fordæmi eru um slíkt. Sérlausnir eru hugsanlegar, en þá aðeins tímabundnar eða háðar ströngum skilyrðum og vilja ESB sem gæti breyst í framtíðinni.
  • Aðeins var búið að loka 11 af 33 samningsköflum á 4 árum – allir erfiðustu kaflarnir eftir. Það átti bara að taka í mesta lagi 18 mánuði að klára ferlið sögðu Samfylkingin og Vinstri græn.
  • Verulegir efnahagserfiðleikar eru í ESB með miklu atvinnuleysi. Litlum hagvexti er spáð í ESB á næstunni og myntsamstarfið hefur átt í verulegum erfiðleikum eins og sést á áhrifum þess á gífurlegt ójafnvægi í viðskiptum á milli evrulandanna. Fátækt er verulegt vandamál í Evrópu. Alls eiga 124 milljónir eða 25% mannfjöldans á hættu að lenda undir fátæktarmörkum og í félagslegri útskúfun. Sambærilegar hlutfallstölur eru miklu lægri á Íslandi. Sjá nánar hér.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 20.2.2014 - 10:44 - FB ummæli ()

Fölsk umsókn, ábyrgðarleysi að halda áfram

Í umræðum á Alþingi í gær um aðlögunarferlið að ESB kom fram að umsóknin að ESB hafi verið á fölskum forsendum. ESB ætlast til þess að þau stjórnvöld sem sækja um aðild vilji gerast aðilar. Svo hafi ekki verið því Vinstri græn í ríkisstjórn voru á móti aðild og Samfylkingin vildi bara kíkja í pakkann. Það voru engin heilindi af neinu tagi á bak við umsóknina. En á meðan leitast var við að kíkja í pakkann létu Vinstri græn og Samfylking aðlögunina halda áfram af fullum krafti, skref fyrir skref var Ísland togað í átt að ESB.

Samt er þjóðin á móti aðild að ESB. En hún var ekki spurð álits í upphafi.

Það er því rétt hjá Gunnari Braga Sveinssyni utanríkisráðherra að það sé algjört ábyrgðarleysi að halda áfram með viðræður núna þegar báðir stjórnarflokkarnir eru auk þess á móti aðild að ESB.

Það er nefnilega gert ráð fyrir því að umsóknarríki stefni að aðild. Umræðurnar fara auk þess algjörlega fram á forsendum Evrópusambandsins. Auk þess hefur komið fram að umsóknarferlið hefur opnað á það að einstök ríki innan Evrópusambandsins hafa getað notað það til þess að ná fram eigin markmiðum í málum sem eru algerlega óskyld ferlinu, svo sem í makríldeilunni þar sem ESB-ríki hafa beitt sambandinu fyrir sig gegn Færeyingum og Íslendingum.

Flokkar: Óflokkað · Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 19.2.2014 - 08:40 - FB ummæli ()

Árni Páll les ekki rétt

Árni Páll Árnason hélt því fram, ranglega,  í samtali við Heimi Karlsson á Bylgjunni rétt í þessu að í gjaldmiðlaskýrslu Seðlabankans frá haustinu 2012 væri bent á eina lausn í gjaldmiðlamálum. Þetta er ekki rétt hjá Árna Páli.

Nægir í því sambandi að benda á lokaorð seðlabankastjóra í fyrsta kafla skýrslunnar. Þar segir hann á síðu 68:

Ekki verða á þessu stigi dregnar einhlítar niðurstöður um það hvaða leið er best fyrir Íslendinga í gjaldmiðils- og gengismálum. Allar leiðir hafa bæði kosti og galla. Þótt mat á þeim byggist á tiltölulega traustum hagfræðilegum grunni er engin hagfræðileg forskrift að því hvernig vega á þessa kosti og galla saman til að fá skýra niðurstöðu. Auk þess er óvissa um hvernig þessir kostir og gallar þróast í framtíðinni. En þá þarf að hafa í huga að víða í ritinu er að finna niðurstöður sem benda til þess að val á gjaldmiðils- og gengisstefnu skipti e.t.v. minna máli fyrir efnahagslega velferð og stöðugleika en halda mætti ef tekið er mið af umræðunni um þessi mál. Dæmi um þetta er hvernig ríki komu út úr fjármálakreppunni (sjá kafla 16 og 17) og hversu hætt er við eignaverðsbólum innan og utan myntbandalags (sjá kafla 11). Þar kemur í ljós að stefnan í ríkisfjármálum, uppbygging og regluverk um fjármálakerfið og hvatar og möguleikar einkaaðila til lántöku skipta mun meira máli, að því er best verður séð af þeirri takmörkuðu reynslu sem fyrir liggur.

Enn fremur má minna á það sem segir á blaðsíðu 266 í skýrslunni:

Það er helst að skellir sem einkenna íslensku hagsveifluna eigi eitthvað sammerkt við skelli í Svíþjóð og Noregi. Tengslin við framboðs- og eftirspurnarskelli á evrusvæðinu eru hins vegar nánast engin. Þótt ætla megi að stór hluti sértækra eftirspurnarskella hverfi við inngöngu í myntbandalag, gæti kenningin um hagkvæm myntsvæði gefið til kynna að innlendar hagsveiflur myndu aukast við aðild að evrusvæðinu þar sem innlendir framboðsskellir virðast hafa lítil tengsl við sambærilega skelli á evrusvæðinu og reyndar á öðrum myntsvæðum líka. Aðlögun þjóðarbúsins án sveigjanlegs gengis gæti því orðið erfiðari en ella.

(Feitletrun neiesb.is)

Sem sagt: Út frá þessu hentar engan veginn fyrir Íslendinga að taka upp evru.

Hvers vegna er Árni Páll að halda stöðugt fram þeirri firru að skýrsla Seðlabankans hafi bent á evruna sem einu leiðina. Heldur hann að við það að endurtaka vitleysuna nógu oft þá fari fólk að trúa henni?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 18.2.2014 - 19:18 - FB ummæli ()

Umsóknin verður afturkölluð

Fram kom í Bylgjufréttum rétt í þessu að tillaga um afturköllun umsóknar að ESB muni verða lögð fram á Alþingi á næstu dögum. Fyrri ríkisstjórn hafði allt síðasta kjörtímabil til að koma Íslandi inn í ESB en mistókst það, enda fór hún í verkið á fölskum forsendum. Össur, Jóhanna, Árni Páll, Baldur Þórhallsson og fleiri létu í veðri vaka að ekki ætti að taka meira en eitt til eitt og hálft ár að ljúka viðræðum. Fyrrverandi stjórn gafst upp á verkinu áður en kjörtímabilinu var lokið. Það kemur enda í ljós í skýrslu Hagfræðistofnunar að það var ESB sem réð algjörlega ferðinni og hafði sína hentisemi í þeim efnum, enda var ekki um venjulegar samningaviðræður að ræða heldur hreint og beint aðlögunarferli að lögum og reglum ESB eins og oft hefur komið fram.

Núverandi ríkisstjórn er búin að hafa rúmt hálft ár til þess að fara yfir málið. Nú liggur skýrsla Hagfræðistofnunar um ESB-ferlið fyrir. Þar kemur ekkert fram sem knýr á um að ferlinu verið haldið áfram. Þvert á móti. Þjóðin er á móti aðild. Ríkisstjórnarflokkarnir telja að aðild þjóni ekki hagsmunum þjóðarinnar.

Það er því kominn tími til að slíta þessu aðlögunarferli formlega með samþykkt Alþingis og snúa sér að öðrum og uppbyggilegri málefnum.

Ein aðalspurningin þegar tekin verður afstaða til tillögu um afturköllun umsóknar verður hvernig Vinstri græn ætla að haga sér. Flokkur þeirra er á móti aðild að ESB þar sem hann telur að slík aðild þjóni ekki hagsmunum Íslendinga. Fyrir ári síðan samþykkti flokksstjórnarfundur Vinstri grænna að gefa viðræðunum ár til viðbótar. Nú er það ár liðið. Ætla Vinstri græn að standa við þau fyrirheit að fylgja þá stefnu sinni fyrst aðlögunarviðræðurnar eru runnar út í sandinn?

Flokkar: Óflokkað · Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 18.2.2014 - 17:25 - FB ummæli ()

Evrusvæðið ekki hagkvæmt segir ESB-skýrslan

Í skýrslu Hagfræðistofnunar um ESB-málin kemur fram að evrusvæðið uppfyllir á engan hátt þau skilyrði sem gera þarf til myntsvæðis. Í skýrslunni kemur fram að vegna menningaráhrifa flytjist fólk af atvinnuleysissvæðum ekki til þeirra svæða þar sem atvinnu er að fá. Í þessum efnum er reginmunur á Evrópu og Bandaríkjunum eða Kanada. Þetta er eitt þeirra atriða sem dýpkað hafa evrukreppuna.

Fram kemur í skýrslunni – sjá bls. 100-101:

Árið 2010 fluttu 0,3% vinnuafls sambandsins á milli aðildarríkja. Til samanburðar má nefna að í Kanada fluttu um 1% íbúanna á milli fylkja það ár, 1,5% íbúa Ástralíu fluttu milli landsvæða Ástralíu og um 2,4% íbúa Bandaríkjanna fluttu milli fylkja. Athyglisvert er að bera saman fólksflutninga á milli allra fylkja Kanada annars vegar – sem var eins og áður var nefnt 1% – og hins vegar á milli Québec-fylkis og annarra fylkja í Kanada, sem var einungis 0,4%. Québec er eina fylki Kanada þar sem enska er ekki opinbert tungumál. Því má segja að þessar tölur séu í takt við niðurstöður Bartz og Fuchs-Schündeln, en þeir nota svæðisbundin gögn fyrir 15 ríki Evrópusambandsins (aðildarríki sambandsins í árslok 2003) til þess að kanna hvort landamæri ríkjanna séu marktækar hindranir fyrir samþættingu vinnumarkaða. Niðurstaða þeirra var að þrátt fyrir reglur um frjálst flæði vinnuafls myndi landamæri tregðu í fólksfluttningum. Að sama skapi finna þeir hvorki vísbendingar um að Schengen-sáttmálinn né upptaka evrunnar hafi aukið flæði vinnuafls. Ennfremur komast þeir að því að svo virðist sem ólík tungumál og ef til vill ólík menning hindri samþættingu vinnumarkaða í Evrópu. Þannig hafa mörk tungumála meiri áhrif á flæði vinnuafls en landamærin ein og sér. Ýmsar skýringar geta verið á þessari tregðu en sýnt hefur verið fram á að erlent vinnuafl hafi að jafnaði veikari stöðu á vinnumarkaði innan ríkja Evrópusambandsins en innlendir ríkisborgarar.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 18.2.2014 - 09:50 - FB ummæli ()

Afturköllum umsóknina að ESB

Það var áfangasigur að aðlögunarviðræðurnar við ESB voru stöðvaðar. Samtökin Nei við ESB efna til baráttufunda til að fylgja því eftir að umsóknin verði endanlega afturkölluð. Næstu mánuðir geta skorið úr um hvort ríkisstjórn og Alþingi geri það eina sem réttast er – afturkalla umsóknina. Öllum er nú fullljóst að ESB veitir engar varanlegar undanþágur frá lögum sínum og grunnsáttmálum:

Aðildarviðræður snúast um skilyrði fyrir og tímasetningar á upptöku umsóknarlands á reglum ESB, framkvæmd þeirra og beitingu – sem fylla 100 þúsund blaðsíður. Um þessar reglur … verður ekki samið.

Þetta eru þeirra eigin orð. Samtökin NEI við ESB ráðast nú í upplýsinga- og kynningarátak um hvað felst í umsókn að ESB og því framsali á lýðræðisrétti og fullveldi þjóðarinnar sem aðild að sambandinu hefur í för með sér. Fyrir utan framsal á löggjafarvaldi og dómsvaldi snertir aðildin að ESB ekki hvað síst forræði okkar á náttúruauðlindum, sjávarútvegi, fiskimiðum, landbúnaði og matvælavinnslu í landinu. Sóknarfærin eru fólgin í sjálfstæðum samskiptum við aðrar þjóðir.

Fyrstu baráttufundir eru:

  • Á Sauðárkróki, Kaffi Krók, miðvikudaginn 19. febrúar, kl.20:30.
  • Á Blönduósi, Pottinum og Pönnunni, fimmtudaginn 20. febrúar, kl. 20:30.

Ávörp flytja: Vigdís Hauksdóttir, alþingismaður og formaður Heimssýnar; Jón Bjarnason, fyrrverandi ráðherra og varaformaður Heimssýnar; Halldóra Hjaltadóttir, formaður Ísafoldar; Erna Bjarnadóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands; Árni Gunnarsson, fyrrverandi alþingismaður, Sauðárkróki; Sigríður Ólafsdóttir, bóndi og ráðunautur, Víðidals­tungu; Guðrún Lárusdóttir, bóndi Keldudal, formaður Búnaðarsambands Skagfirðinga; og Gísli Árnason, framhaldsskólakennari, Sauðárkróki.

Fundarstjórar: Agnar Gunnarsson bóndi, Miklabæ, og Björn Magnússon, bóndi, Hólabaki.

(Fréttatilkynning frá Samtökunum Nei við ESB. Heimssýn – Ísafold – Herjan – Vinstrivaktin gegn ESB – Þjóðráð)

 

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Nei við ESB - vefrit
Þau samtök sem standa að Nei við ESB eru Heimssýn, hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, Ísafold, félag ungs fólks gegn ESB-aðild, Herjan, félag stúdenta í H.Í. gegn aðild að ESB, Vinstrivaktin gegn ESB og Þjóðráð.

Slóðin að vefnum Nei við ESB er www.neiesb.is

Ábyrgðarmaður er Jón Bjarnason.
RSS straumur: RSS straumur