B. Þróun ESB
a. réttarreglur ESB.
b. efnahagsleg þróun.
C. Útlit varðandi þróun sambandsins.
a. Lagalegar og pólitískar horfur
b. Efnahagslegt útlit
D. Samantekt niðurstaðna.
Flokkar: Óflokkað
Í ljósi þeirrar þróunar sem átti sér stað allt síðasta kjörtímabil, þegar þáverandi stjórn klúðraði því tækifæri sem hún hafði á að koma Íslandi inn í ESB, og í ljósi síðustu kosninga og núverandi stjórnarsamstarfs er alveg ljóst að það er sjálfsögð og eðlileg krafa að stjórnarflokkarnir ljúki ferlinu formlega með því að draga umsóknina til baka með ályktun Alþingis.
Alþingi Íslendinga samþykkti 16. júlí 2009 þingsályktun sem var svohljóðandi: „Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að leggja inn umsókn um aðild Íslands að ESB og að loknum viðræðum við sambandið verði haldin þjóðaratkvæðagreiðsla um væntanlegan aðildarsamning. Við undirbúning viðræðna og skipulag þeirra skal ríkisstjórnin fylgja þeim sjónarmiðum um verklag og meginhagsmuni sem fram koma í áliti meiri hluta utanríkismálanefndar.“
Alls greiddu að lokum 33 þingmenn þessari tillögu atkvæði sitt, 28 voru á móti og 2 sátu hjá. Hlynntir þessari tillögu voru allir 20 þingmenn Samfylkingar, 8 þingmenn Vinstri grænna, 3 þingmenn Framsóknarflokks, einn þingmaður Sjálfstæðisflokks og einn þingmaður Borgarahreyfingar. Á móti voru 14 þingmenn Sjálfstæðisflokks, 6 þingmenn Framsóknarflokks, 5 þingmenn Vinstri grænna og 3 þingmenn Borgarahreyfingarinnar. Tveir þingmenn sátu hjá, en þeir voru frá Vinstri grænum og Sjálfstæðisflokknum.
Fram kom í umræðum um málið að hægt yrði að ljúka aðildarviðræðum á mjög stuttum tíma. Árni Páll Árnason, Baldur Þórhallsson og Jóhanna Sigurðardóttir töluðu um að hægt yrði að ljúka viðræðum á einu til tveimur árum.
Klofin ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna gat ekki klárað verkið
Við vitum hvernig fór. Ríkisstjórnin var klofin í afstöðu sinni til umsóknarinnar. Nokkrir þingmenn yfirgáfu Vinstri græna meðal annars vegna þessa. Jón Bjarnason landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra barðist á móti aðildinni og Ögmundur Jónasson ráðherra gerðist þessu ferli afhuga.
Fyrir ári síðan ákvað stjórnin að hægja á ferlinu að kröfu Vinstri grænna sem samþykktu á landsfundi sínum að gefa umsóknarferlinu ár til viðbótar. Þá vildi reyndar núverandi formaður flokksins, Katrín Jakobsdóttir, að kosið yrði um framhald viðræðna en lenti í minnihluta með þá afstöðu. Nú er það ár að verða liðið og því eðlilegt að Vinstri grænir séu spurðir að því hvort þeir telji þetta umsóknarbrölt þá ekki orðið gott.
Stefna ríkisstjórnarflokkanna að hætta viðræðum og vera utan ESB
Fyrir kosningar móta flokkarnir stefnu sína í ESB-málunum. Hér skal einungis tilgreind stefna þeirra flokka sem mynduðu ríkisstjórn að kosningum loknum. Æðstu lýðræðissamkundur beggja flokka samþykktu sömu stefnu. Hún fólst í andstöðu við aðild að ESB, að viðræður við sambandið yrðu stöðvar og að þeim yrði ekki haldið áfram nema að undangengnum kosningum meðal þjóðarinnar um málið. Aðalatriðið í þessu er andstaðan við aðild að ESB. Af því leiddi að flokkarnir vildu stöðva viðræður. Það var einnig tengt fyrri umræðu um málið árið 2009 þegar farið var í viðræður án þess að þjóðin yrði spurð álits, að því var slegið föstu í samþykktum flokkanna að ekki yrði farið í viðræður nema þjóðin yrði spurð fyrst. Þetta ákvæði var eins konar varúðarákvæði um að þing eða stjórn gætu ekki haldið áfram viðræðum nema með því að spyrja þjóðina fyrst.
Samþykkt landsfundar Sjálfstæðisflokksins sem haldinn var 21. til 24. febrúar 2013 um þennan málaflokk hósfst á þessum orðum: „Sjálfstæðisflokkurinn telur megintakmark utanríkisstefnu Íslands vera að standa vörð um fullveldi þjóðarinnar…“. Síðar segir stuttu síðar að landsfundurinn „telur að hagsmunum Íslands sé betur borgið með því að standa fyrir utan Evrópusambandið. Áréttað er að aðildarviðræðum við ESB verði hætt og þær ekki teknar upp aftur nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.
Samþykkt flokksþings Framsóknarflokksins 8. til 10 febrúar 2013 var svohljóðandi: „Framsóknarflokkurinn telur hag lands og þjóðar best borgið utan Evrópusambandsins. Ekki verði haldið lengra í aðildarviðræðum við Evrópusambandið nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.“
Samfylkingin beið afhroð í kosningunum með sín stefnumið um ESB
Eins og sjá má á þessu er stefnan sem æðstu samkundur stjórnarflokkanna samþykktu í öllum meginatriðum hin sama. Flokkarnir gengu til kosninga á þessum grunni og Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn náðu góðum meirihluta þingmanna og mynduðu ríkisstjórn. Samfylkingin sem hefur verið sá flokkur sem hafði það helst á stefnuskrá að ganga í ESB beið mikið afhroð í kosningunum. Auðvitað var kosið um fleiri mál, en það er ekki hægt að líta fram hjá þessu atriði.
Stjórnarsáttmálinn er alveg skýr um ESB
Stefnuyfirlýsing ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks er alveg skýr í þessum efnum. Þar segir: „Gert verður hlé á aðildarviðræðum Íslands við Evrópusambandið og úttekt gerð á stöðu viðræðnanna og þróun mála innan sambandsins. Úttektin verður lögð fyrir Alþingi til umfjöllunar og kynnt fyrir þjóðinni. Ekki verður haldið lengra í aðildarviðræðum við Evrópusambandið nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.“
Nú er búið að stíga fyrstu skrefin í þessum efnum. Það er búið að gera hlé á viðræðum við ESB og úttektin um viðræðurnar og um þróun mála innan sambandins er að verða tilbúin. Hún verður síðan lögð fyrir þingið til umfjöllunar og kynnt þjóðinni.
Það er ekki viðbúið að margt nýtt komi fram í skýrslunni um stöðu og möguleika Íslands í alþjóðlegu samstarfi eða hvað varðar gjaldmiðlamál. Fjölmargar aðrar skýrslur hafa verið skrifaðar um það, m.a. annars um 700 síðna skýrsla Seðlabanka Íslands fyrir rúmu ári. Búast má við nýjum upplýsingum í skýrslunni um þróun og stöðu viðræðnanna og svo um þróunina í ríkjum ESB. Þar hljóta að verða ítarlegar upplýsingar um hið gífurlega atvinnuleysi sem til staðar er m.a. vegna evrusamstarfsins. Þar hlýtur að vera ítarleg lýsing á því hvernig hagþróunin hefur verið sundurleit hvað varðar verðlag, viðskiptajöfnuð, skuldaþróun og atvinnu. Eins og allir vita hefur Evrópusambandinu mistekist þar það ætlunarverk sitt að stuðla að samleitni, þ.e. að vextir, verðbólga, atvinna og svo framvegis þróist í sömu og jákvæða átt innan sambandsins.
Það er rökrétt að Alþingi afturkalli þá ályktun sem hóf ferlið árið 2009
Að loknum umræðum um skýrsluna er aðeins ein rökrétt niðurstaða. Hún er sú að Alþingi samþykki að afturkalla þá umsókn sem send var á grundvelli klofinnar afstöðu þáverandi stjórnarflokka árið 2009 og í andstöðu við vilja þjóðarinnar um aðild. Það er eina rétta niðurstaðan.
Flokkar: Óflokkað
Í dag hefur verið fjallað mikið um samtökin Open Europe og rannsóknir þeirra í kjölfar þess að utanríkisráðherra vitnaði í rannsóknir samtakana. En Open Europe er sjálfstæð hugsmiðja sem hefur skrifstofur í Brussel, London og Berlín, þeirra markmið er að gera Evrópusambandið betra fyrir fyrirtæki og auka viðskiptatækifæri. Evrópusinnar hafa í dag verið mjög uppteknir að því að gera lítið úr rannsóknum þessa samtaka, en þó á furðulegustu nótum.
„Mér finnst að ráðherrann ætti að biðjast afsökunar, þetta er það stór yfirsjón,“ segir Jón Steindór Valdimarsson, formaður Já Íslands, samtök Evrópusinna á Íslandi, um ummæli Gunnars Braga Sveinssonar í fréttaskýringaþættinum Kastljósi í gær.
Steindór heldur áfram:
Þessi fullyrðing er byggð á skýrslu samtaka sem heita Open Europe, frá árinu 2008. Samtökin berjast gegn aðild Bretlands að Evrópusambandinu.
Formaður Já Íslands, Steindór Valdimarsson, heldur því fram að Open Europe séu samtök gegn aðild Breta að Evrópusambandinu á vef Vísis í dag. Þarna opinberar formaður Já Íslands vanþekkingu sína á samtökunum, en honum væri lítið mál að kynna sér samtökin betur með því að kíkja á heimasíðu þeirra http://www.openeurope.org.uk. En eins og nefnt hefur verið er markmið Open Europe að koma á breytingum innan Evrópusambandsins. Spurning hvort honum Steindóri beri ekki að biðjast afsökunar á þessari stóru yfirsjón?
Á facebook síðu Já Íslands þora menn ekki að taka jafn sterkt til máls eins og formaðurinn í umfjöllun um Open Europe, en þar er rannsókn Open Europe meðal annars gagnrýnd á grundvelli þess að hún komi frá aðilum sem telja að Evrópusambandið þurfi að taka breytingum. Þetta er líklega furðulegasti málflutningur sem heyrst hefur fyrr og síðar. Eru félagsmenn Já Íslands sannfærðir um að aðeins Evrópusambandið í núverandi mynd sé gott og að allir sem vilja gera breytingar á því séu ómarktækir? Er Evrópusambandið í núverandi mynd fullkomið og þarfnast engra breytinga í þeirra augum?
Sú frétt var byggð á skýrslu frá breskum samtökum sem heita OpenEurope og hafa það að markmiði að berjast gegn Evrópusambandinu í núverandi mynd.
Sú afstaða sem birtist mönnum á facebook síðu Já Íslands mætti gefa til kynna viðhorf sem er í andstöðu við hverja einustu stjórnmálahreyfingu eða hagsmunasamtök sem eru að finna í Evrópu. Enda telja þau væntanlega öll að Evrópusambandið þurfi að taka einhverjum breytingum. Eða er viðhorf Já Íslands byggt á því að Open Europe talar fyrir öðrum breytingum en þeim sem þóknast Evrópusinnum á Íslandi?
Það er vitað mál að það eru einhverjir hérlendis sem eru hlynntir aðild Íslands að Evrópusambandinu og það ber að virða það, en það er full mikið ofstæki að gera alla gagnrýni á starfsemi sambandsins tortryggilega og loka eyrum og augum fyrir mögulegum ágöllum Evrópusambandsins.
Umrædd rannsókn Open Europe er að finna á heimasíðu samtakna.
Flokkar: Stjórnmál og samfélag
Efnisorð: Já Ísland, Open Europe
Nei við ESB mun standa að fullveldishátíð í samstarfi við önnur samtök fullveldissinna á sunnudag 1. desember.
Allir velkomnir
Flokkar: Stjórnmál og samfélag
Málþing Vefpressunnar um snjóhengjuna var forvitnilegt fyrir margra hluta sakir. Seðlabankastjóri sló fram nýyrði um krónueignir kröfuhafa sem ólmir vilja breyta þeim í erlendan gjaldeyrir og flytja úr landi. Nú skal það heita kvikar krónur. Mesta athygli vöktu þó yfirlýsingar fyrrverandi fjármálaráðherra Katrínar Júlíusdóttir. í stuttu erindi sínu lýsti hún þeim stóru vandamálum sem við er að glíma.
Eitt af stóru vandamálunum sagði hún vera skuldabréf Landsbanka Íslands sem gefið var út til þrotabús gamla Landsbankans. Nú er það svo að fyrrverandi ríkisstjórn var staðgöngumóðir þessara viðskipta. Með þessum orðum er fyrrum ráðherrann að lýsa einum stærstu hagstjórnarmistökum síðustu ríkisstjórnar.
Hvernig má það vera að þeir sem svona stóðu að málum hafi reiknað með að Landsbankinn gæti staðið í skilum með afborganir af skuldabréfinu á svo stuttum tíma? Og hvaðan átti að taka allan þennan gjaldeyri eða um 70 milljarða á ári? Því verður vart trúað að Seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið hafi blessað þetta í bak og fyrir. Þessir 300 milljarðar eru náttúrulega ekki bara kvikar krónur. Auðvitað þarf að upplýsa hvaða hagsmunir réðu ferðinni í þeim gjörningi sem nú ógnar fjármálastöðugleika á Íslandi. Þarna virðast stjórnvöld hafa verið ansi kvik á verði fyrir íslenska hagsmuni.
Önnur yfirlýsing Katrínar var ekki síður athyglisverð. Hún sagðist hafa nokkrar áhyggjur af stefnu nýrrar ríkisstjórnar um að hætta viðræðum við ESB. Það sagði hún geta minnkað traust umheimsins og jafnvel að ESB myndi „pressa“ á Íslendinga að aflétta fjármagnshöftum á Íslandi sem fyrst og vísaði til EES samningins í því sambandi. Þessi orð eru einkar athyglisverð úr munni fyrrum ráðherra Samfylkingarinnar. Sú spurning hlýtur að vakna hvort fulltrúar ESB hafa sett fram hótanir við íslensk stjórnvöld í þessa veru. Varla er hér um hræðsluáróður til heimabrúks hjá Katrínu Júlíusdóttur að ræða.
Það kvað hins vegar við nýjan tón hjá nýbökuðum forsætisráðherra. Yfirlýsing hans um að stjórnvöld myndu nýta fullveldisrétt Íslands til að ganga eins langt og þarf til að verja efnahagslegt sjálfstæði þjóðarinnar sýnir svo ekki verður um villst að nú verður örlögum Íslands ráðið í stjórnarráðinu og á Alþingi Íslendinga, en ekki í Brussel.
Það væri óhugsandi að forsætisráðherra gefi slíkar yfirlýsingar hefði ætlan fyrrverandi ríkisstjórnar um aðild Íslands að ESB orðið að veruleika á síðasta kjörtímabili.
Flokkar: Óflokkað
Egill Helgason setur fram vanhugsaða færslu á Eyjubloggi sínu þar sem hann fullyrðir að engin aðlögun eigi sér stað í aðildarferli umsóknarríkis að ESB. Rökin fyrir þessu segir hann helst þau að verði ekki af aðild þurfi ekki að vinda ofan af aðlögunarferlinu undanfarin 4 ár. Fullyrðir hann að samningaferlið sé nefnt aðlögun í áróðurskyni.
Þetta er mikil einföldun hjá þessum annars ágæta álitsgjafa.
Hver skyldi ástæðan vera fyrir því að ekki þarf að vinda ofan af aðlögunarferlinu eftir 4 ára „samningaviðræður“?
Svarið liggur í augum uppi. Á fjórum árum hafa þessi mál lítið þokast umfram það að lesa saman þá kafla sem Ísland hefur í raun innleitt sem skuldbindandi reglur ESB á grundvelli EES samningsins. Þeir kaflar sem útaf standa s.s. varðandi nýtingu náttúruauðlinda og skarast við löggjöf ESB eru óræddir. Á þeim sviðum hafa íslensk stjórnvöld verið að pukrast við samningsmarkmið sem ekki þoldu dagsins ljós fyrir nýafstaðnar Alþingiskosningar.
Þetta á t.d. við um nýtingu hlunninda ýmisskonar s.s. veiðar á viltum dýrum osfrv. Þá eru hin stóru ágreiningsmál einnig órædd. Þar ber sjávarútvegsstefnu bandalagsins hæst. Hvort sem menn vilja kalla það innleiðingu eða aðlögun þá liggur fyrir að það eru skilyrði af hálfu ESB, í samræmi við grundvallarlög bandalagsins, að íslensk fiskimið verði opnuð fyrir togurum sem gerðir eru út innan ríkja bandalagsins og jafnframt að aflétt verði banni við erlendri fjárfestinu í sjávarútvegi. Íslendingar þyrftu einnig að skuldbinda sig til að breyta landbúnaðarstefnu sinni í takt við reglur ESB. Tollar yrðu ófrávíkjanlega að hverfa, löggjöf um greiðslustofu landbúnaðarins þarf að liggja fyrir og jafnfram áætlum um að gerbreyta styrkjakerfi landbúnaðarins sem skal þá taka mið af búsetu- og ræktunarstyrkjum í stað framleiðslutengdra styrkja eins og nú er. Til að svo megi verða þarf að liggja fyrir nákvæm skrásetning landkosta og náttúru landsins. Til þess verks hefur ESB veitt hundruðum milljóna nú þegar.
Evrópusambandið kveður skýrt á um hvaða skyldur eru lagðar á umsóknarríki á heimasíðu sinni.
Til að auðvelda umsóknarríki að uppfylla kröfur ESB áður en til aðildar kemur veitir Evrópusambandið umsóknarlandinu IPA styrki (Instrument for Pre-accession Assistance). Þessir styrkir eru til að undirbúa aðild, nokkursskonar foraðildarstuðningur. Ýmsir hafa gengið svo langt að líkja foraðildarstyrkjum ESB við mútufé. Undir það er ekki tekið hér þótt styrkþegarnir kunni að vera í sjöunda himni. Þessir styrkir eru hinsvegar ætlaðir til að undirbúa umsóknarríki undir að taka á sig skyldur sem aðild fylgja frá fyrsta degi.
Ef fullyrðing Egils er rétt liggur beint við að engin þörf sé á styrkjum frá ESB vegna aðildarferlisins. Styrkirnir væru þá vísast veittir þegar um aðild umsóknarríkis hefur verið „samið“ og hún samþykkt af öllum aðilum.
Einu gildir hvor um þetta ferli er talað sem aðlögun eða innleiðingu. Eitt er víst að Evrópusambandið er ekki í vafa um hvað málið snýst þótt hér deili menn um keisarans skegg.
Flokkar: Óflokkað
Nokkur umræða hefur verið um hvort Ísland geti í samningum um aðild að ESB fallið undir ákvæð í Lissabon-sáttmálanum um svokölluð ystu svæði innan ESB. Jón Sigurðsson fv. formaður Framsóknarflokksins vekur athygli á þessu í grein sem hann skrifar á vefsvæði Pressunnar nýverið en þessar reglur má rekja til Rómarsáttmálans og eru einsskonar þróunaraðstoð ESB til vanþróaðra svæða innan sambandsins. Meirihluti utanríkismálanefndar Alþingis taldi einnig í áliti sínu að þessa kosti verði að meta.
Nokkuð hefur verið rætt um þessar sértæku ráðstafanir eins og um samninginsbundnar undanþágur sé að ræða. Svo er alls ekki. Hér er um heimildarákvæði til handa framkvæmdastjórninni til að veita svæðunum þróunaraðstoð að höfðu samráði við Evrópuþingið. Ívilnandi ráðstafanir sem um ræðir á grundvelli svæðisstefnu ESB eru algjörlega á forræði framkvæmdastjórnarinnar að inntaki og tímalengd.
Eins og fram kemur í 349. grein Lissabon-sáttmálans er litið til áhrifa ýmissa þátta sem taldir eru setja þróun svæðanna miklar skorður og eru skilyrði þróunaaðstoðar ESB.
Skilyrði fyrir því að veita megi þeim svæðum sem um ræðir þróunaraðstoð eru að slíkar ráðstafanir megi ekki grafa undan festu í réttarkerfi ESB þ.m.t. á innri markaðnum og í sameiginlegum stefnum.
Stefán Már Stefánsson prófessor við Háskóla Íslands hefur eina mesta þekkingu innlendra fræðimanna á málefnum ESB.
Í viðtali við neiesb.is segir Stefán eftirfarandi:
„Evrópurétturinn gerir ráð fyrir bæði varanlegum og tímabundnum undanþágum. Hann gerir líka ráð fyrir því að ESB reglur séu settar eða þeim beitt í þágu einstakra ríkja eða tiltekinna svæða. Þessu má ekki rugla saman […] Í tilviki Möltu er um að ræða sérlausn í þágu einstaks ríkis í sjávarútvegsmálum, en ekki varanlega undanþágu frá reglum Evrópusambandsins. Evrópusambandið getur síðar breytt þessum lögum með sama hætti og það getur breytt öðrum lögum Sambandsins. Varanlegar undanþágur, þ.e. reglum sem ekki verður breytt nema með samþykki viðkomandi aðildarríkis, eru ansi fátíðar, og eru þær líklegri í þeim tilvikum þegar ríki eru þegar komin inn í Evrópusambandið og Evrópuréttur er að taka breytingum.“
Stefán bætir svo við: „Það er ákveðið áhyggjuefni ef þessum atriðum er ruglað saman og niðurstaðan ekki skýr þegar aðildarsamningur liggur fyrir. Þess vegna er afar brýnt að menn átti sig á því að ekki er um varanlega undanþágu að ræða nema að tekið sé skýrt fram í aðildarsamningi að undanþágan sé varanleg og að henni sé ekki unnt að breyta nema með samþykki viðkomandi ríkis.“.
Nei við ESB tekur heilshugar undir með með Stefáni að ekki má rugla saman reglum ESB um svæðisstefnu (e. Regional Policy) og reglum um varanlegar undanþágur (e. Permanent Derogation) frá sameiginlegri stefnu Sambandsins.
Þegar grannt er skoðað er ljóst að Ísland á fátt sameiginlegt með vanþróuðum svæðum innan ESB sem svæðisstefnan tekur til. Sjávarútvegur Íslands er háþróaður, afkastamilill og í fremstu röð. Hið sama á við um íslenskan landbúnað sé tekið tillit til náttúru og veðurfars. Þá hafa afskipti Eftirlitsstofnunnar EFTA (ESA) á grundvelli EES samningsins ótvírætt leitt í ljós að frávik í löggjöf og markaðsmálum á Íslandi frá reglunum á Evrópska efnahagssvæðiðinu, eru talin grafa undan festu í réttarkerfi og sameiginlegum stefnum ESB.
Hér eftir fer þýðing utanríkisráðuneytis á 349. gr. Lissabondsáttmálans:
349. gr.
(áður önnur, þriðja og fjórða undirgrein 2. mgr. 299. gr. stofnsáttmála Evrópubandalagsins)
Með hliðsjón af atvinnu- og uppbyggingarskilyrðum og efnahagslegri og félagslegri stöðu á Gvadelúpeyjum, Frönsku Gvæjana, Martiník, Réunion, Sankti Bartolómeusar-eyjum, Sankti Martinseyjum, Asoreyjum, Madeira og Kanaríeyjum, sem standa höllum fæti sökum þess að um er að ræða afskekkt eyjasamfélög sem einkennast af smæð, erfiðum staðháttum og veðurfari og efnahag sem reiðir sig á fáar framleiðsluvörur, en varanlegt eðli og samanlögð áhrif þessara þátta setja þróun þeirra miklar skorður, skal ráðið samþykkja, að tillögu framkvæmdastjórnarinnar og að höfðu samráði við Evrópuþingið, sértækar ráðstafanir sem miða einkum að því að ákveða með hvaða skilyrðum ákvæðum sáttmálanna, m.a. sameiginlegum stefnum, skuli beitt gagnvart þessum svæðum. Þegar ráðið samþykkir sértækar ráðstafanir af þessu tagi í samræmi við sérstaka lagasetningarmeðferð skal það einnig taka slíka ákvörðun að tillögu framkvæmdastjórnarinnar og að höfðu samráði við Evrópuþingið. Ráðstafanir samkvæmt fyrstu málsgrein varða einkum svið á borð við stefnu í tollamálum og viðskiptum, stefnu í skattamálum, frísvæði, landbúnaðar- og sjávarútvegsstefnu, skilyrði fyrir framboði á hráefnum og nauðsynlegum neysluvörum, ríkisaðstoð og skilyrði fyrir aðgangi að
uppbyggingarsjóðum og þverlægum áætlunum Sambandsins.
Ráðið skal samþykkja ráðstafanir samkvæmt fyrstu málsgrein með hliðsjón af sérstökum einkennum ystu svæðanna og takmörkunum sem þau búa við, án þess þó að grafa undan áreiðanleika og festu í réttarkerfi Sambandsins, þ.m.t. innri markaðnum og sameiginlegu stefnunum.
Flokkar: Óflokkað
Nú liggur fyrir að þeir stjórnmálaflokkar vinna saman að myndun ríkisstjórnar á Íslandi sem eru þeirrar skoðunar að Ísland eigi ekki að ganga í ESB og að stöðva beri viðræður um aðild að sambandinu. Þessi skoðun kemur skýrt fram í samþykktum æðstu stofnana flokkanna. Jafnframt eru þessir flokkar þeirrar skoðunar að ef það ætti á annað borð að halda viðræðum áfram þá yrði það ekki gert nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.
Í landsfundarályktun Sjálfstæðisflokksins segir: „Landsfundur telur að hagsmunum Íslands sé betur borgið með því að standa fyrir utan Evrópusambandið. Áréttað er að aðildarviðræðum við ESB verði hætt og þær ekki teknar upp aftur nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.“
Í flokksstjórnarsamþykkt Framsóknarflokksins segir: „Framsóknarflokkurinn telur hag lands og þjóðar best borgið utan Evrópusambandsins. Ekki verði haldið lengra í aðildarviðræðum við Evrópusambandið nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.“
Af þessu er ljóst að ef Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur mynda saman ríkisstjórn þá verði viðræðum við ESB strax hætt með formlegum hætti. Jafnframt er ljóst að það er ekki vilji flokkanna að halda viðræðum áfram og því engin þörf á að láta að kjósa um framhaldsviðræður við ESB. Það má minna á að viðræður hófust án þess að þjóðin væri spurð og því þarf ekki aðkomu hennar heldur þegar viðræðunum er hætt. Það ætti hins vegar að vera sjálfsagt að meta hvernig viðræðurnar hafa farið fram til þessa og gefa út skýrslu um stöðuna.
Það er jafnframt ljóst að ESB í dag er allt annað samband en það sem ákveðið var að sækja um aðild að fyrir tæpum fjórum árum. Ennfremur er ljóst að æ fleiri sérfræðingar og stjórnmálamenn, að ekki sé minnst á sístækkandi hóp Evrópubúa, sem hafa efasemdir um að evru- og ESB-samstarfið muni skila þeim árangri sem til stóð. Margir ganga meira að segja svo langt, meðal annars sumir þeir sem stóðu að innleiðingu evrunnar, að segja að það verði að losa Evrópuríkin við höft evrunnar ef hagur jaðarþjóðanna eigi að geta vænkast. Það kann því margt að breytast í ESB og í evrusamstarfinu á næstu árum.
Eins og margar aðrar þjóðir standa Íslendingar nú frammi fyrir ýmsum vanda í efnahagsmálum sem leysa þarf úr. Það er brýn þörf á því að við einbeitum okkur við það verk, en látum ekki villuljós eins og ESB-aðild, evruvæðingu, eða aðildarviðræður tefja för okkar. Við þurfum að nýta þá krafta sem farið hafa í tímafrekar viðræður í annað og betra, nefnilega að vinna að lausn vandamála okkar hér og nú.
Flokkar: Óflokkað
Velkomin á blog.pressan.is. Þetta er fyrsta færslan.
Flokkar: Óflokkað