Þriðjudagur 14.10.2014 - 20:20 - Lokað fyrir ummæli

Hárrétt hjá Stefáni Ólafssyni.

Í bloggi sínu hér á Eyjunni vekur Stefán Ólafsson athygli lesenda á þeim mikla kostnaði sem almenningur hefur tekið á sig vegna bankahrunsins.

Það er löngu orðið tímabært að Íslendingar fari að fjalla málefnalega um þann skaða sem gömlu bankarnir ollu með starfsemi sinni.  Andvaraleysi almennings gagnvart þessu máli er ekki til þess fallið að minnka hann.

Nú hafa bæði Evrópusambandið og Bandaríkjastjórn hafa nú komið sér saman um regluverk sem á að koma í veg fyrir að almenningur sitji eftir með kostnað af falli banka. Lítið hefur farið fyrir umræðu um það hérlendis.

Ég leyfi mér að endurbirta hér að neðan grein sem ég ritaði ásamt nokkrum félögum mínum úr  InDefence hópnum í Fréttablaðið fyrir skömmu.

 

Hvernig á að bæta skaðann sem bankarnir ollu þjóðinni?

Íslenskir skattgreiðendur hafa nú þegar orðið fyrir gríðarlegum kostnaði vegna gjaldþrots einkarekinna banka og enn hvíla óuppgerð þrotabú þeirra á þjóðinni eins og mara.

Í vinnuskýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins frá 2012¹ kemur fram að fjárhagskostnaður íslenska ríkisins vegna hruns bankanna á Íslandi hafi verið um 44% af þjóðarframleiðslu, eða u.þ.b. 740 milljarðar. Auk þess þurfti ríkissjóður að auka skuldir sínar um 70% af landsframleiðslu eða um 1.200 milljarða með tilheyrandi kostnaði vegna falls þessara fyrirtækja.

Það er fráleitt óréttlæti að skattgreiðendur á Íslandi hafi þurft að bera slíkan ofurkostnað vegna gjaldþrota einkarekinna banka. Raunar stríðir slík ráðstöfun einnig gegn yfirlýstri stefnu Evrópusambandsins² og Bandaríkjastjórnar³ um gjaldþrot einkarekinna banka. Þar er gert ráð fyrir því að hluthafar og kröfuhafar eigi að bera kostnaðinn af falli slíkra fyrirtækja og jafnvel aðrir aflögufærir bankar, en alls ekki skattgreiðendur.

Í ljósi þessa er furðulegt að orðræðan á Íslandi skuli snúast mest um hagsmuni og meintan rétt kröfuhafa föllnu bankanna í stað þess að snúast um óréttmætt fjárhagstjón íslenskra skattgreiðenda. Sumir ganga svo langt að tala um íslenskar og erlendar eignir þessara kröfuhafa í þrotabúum bankanna. Hið rétta er að þeir eiga engar slíkar eignir. Þeir eiga aðeins kröfur í þrotabúin sem eru algerlega háðar íslenskum gjaldþrotalögum og verða ekki að eignum fyrr en þrotabúið hefur verið gert upp samkvæmt þessum lögum. Þrotabúin hafa nú fengið fimm ár til að hámarka heimtur, og það er orðið löngu tímabært að klára uppgjör þeirra í samræmi við lög um gjaldþrotameðferð og gjaldeyrishöft. Eina eðlilega niðurstaðan er sú að kröfuhafar fái greitt úr þrotabúum eingöngu í íslenskum krónum eins og dómafordæmi er fyrir. Á sama tíma ber stjórnvöldum skylda til að sækja bætur fyrir þann skaða, sem bankarnir ollu þjóðinni, í þrotabú þeirra. Íslenska ríkið ætti með réttu að vera stærsti kröfuhafinn í þrotabú föllnu bankanna.

Til samanburðar mætti hugsa sér dæmi um olíufyrirtæki starfrækt á Íslandi, sem hefði mengað náttúru landsins með þeim afleiðingum að íslenska ríkið hefði þurft að kosta til meira en 1.000 milljörðum til að hreinsa eftir það. Nú væri fyrirtækið farið í gjaldþrot og þá ætluðu kröfuhafar í þrotabú olíufyrirtækisins að fá allar eigur þrotabúsins en íslenska ríkið ætti ekki að fá neitt. Það er ljóst að slík ráðstöfun stenst ekki skoðun. Það sama gildir um uppgjörið á þrotabúum bankanna.

Í samræmi við þær reglur sem Evrópusambandið og Bandaríkjastjórn hafa sett til að verja skattgreiðendur þegar einkareknir bankar verða gjaldþrota, ættu íslensk stjórnvöld að beita sektum, sköttum eða öðrum meðölum sem leynast í vopnabúri fullvalda ríkis til að sækja bætur fyrir það fjárhagstjón sem fall bankanna olli íslenskum skattgreiðendum. Ríkissjóður Íslands má undir engum kringumstæðum fara óbættur frá málinu.

Ólafur Elíasson, Agnar Helgason, Torfi Þórhallsson og Ragnar F. Ólafsson

Heimildir
1. https://www.imf.org/external/pubs/ft/wp/2012/wp12163.pdf
2. http://europa.eu/rapid/press-release_MEMO-13-1140_en.htm?locale=en
3. http://www.fdic.gov/about/srac/2012/gsifi.pdf

Flokkar: Óflokkað

«
»

Höfundur

Ólafur Elíasson

Píanóleikari og tónlistarmaður.
Er einnig með MBA í viðskiptafræðum frá Háskóla Íslands.

Er ekki tengdur neinum sérstökum hagsmunaaðilum né pólitískum samtökum.
Starfaði með InDefence hópnum gegn Icesave samningunum.
RSS straumur: RSS straumur