Á mánudaginn var byrjaði nýr þáttur með Jay Leno í sjónvarpinu. Jay Leno er alltaf jafn fyndinn finnst mér og ég er þakklátur fyrir það að þátturinn nýji er eiginlega alveg eins og gamli þátturinn. Eini munurinn, fyrir utan að hann er klukkustund fyrr á dagskránni – klukkan 22 – er að grínarinn góði er ekki lengur við skrifborð heldur í Maður er nefndur stól og gestirnir sem koma í þáttinn verða að gera eitthvað annað en bara mæta og röfla og horfa á sýnishorn úr myndinni sinni. Holdgervingur kapítalismanns, Michael Moore, kom í gær og kynnti nýju myndina sína Kapítalismi, ástarsamband, og söng bara þrælvel, einn og óstuddur, lag Bob Dylans, Tímarnir breytast.
Nú er ég að horfa á þáttinn þar sem enginn annar en Eric Clapton leikur á gítarinn, svakalegt sóló í gangi akkúrat núna. Það gekk þó ekki þrautalaust að horfa á þáttinn, vegna þess að á slaginu tíu þegar ég var nýsestur fyrir framan sjónvarpið, hringdi Heiðrún og leiddist í vinnunni, en eins og allir aðdáendur Jay Leno vita er uppistandið í upphafi yfirleitt fyndnasti hluti þáttarins. Mér tókst að kveðja Heiðrúnu ótrúlega fljótt, en þá vildi svo illa til að ég missti nýopnaðan Corona Extra bjórinn á gólfið og það sullaðist meira og minna allt úr flöskunni. Sem betur fer átti ég Shamwow! tusku í skúffunni og þurrkaði bjórinn upp á örskotsstundu, en sú tuska er algert undur og getur haldið hátt í lítra af vatni án þess að nokkuð leki úr henni. Ég flýtti mér í ísskápinn til að sækja annan, en fyrir algeran klaufaskap rak ég flöskuna í hilluloftið og missti hana á gólfið svo hún brotnaði. Þá kom töfratuskan sér aldeilis vel. En ég klikkaði eiginlega á að sópa fyrst upp glerbrotin áður en ég þurrkaði upp bjórinn því glerbrotin festust í tuskunni og gerðu mér erfitt fyrir að vinda hana. Nú er ég að bíða eftir að gólfið þorni svo ég geti ryksugað það. Þriðji bjórinn í kvöld er nú búinn þótt ég hafi aðeins drukkið einn. Ég ætla að nota tækifærið á þessum vettvangi til að kvarta undan limeinu sem ég keypti í Costco. Pokinn var greinilega kominn fram yfir síðasta söludag. Costco, munið að setja ekki gamalt lime í búðina.