Tinni var og er hetjan mín. Svo kom Indiana Jones og hann varð hetjan mín um tíma eins og Súperman, Spiderman, Rambó, Jason Bourne og margir fleiri sem ég man ekki eftir í svipinn. En Indiana Jones og Tinni voru víst tengdir, voru „frændur“. Sagan segir að Spielberg hafi verið í samningaviðræðum við Hergé um að gera kvikmynd um Tinna, en Hergé hafi látist áður en samkomulag náðist, svo ekkert varð úr Tinnamyndinni. Í staðinn ákvað Spielberg að gera mynd um Tinna, nema kalla hann ekki Tinna heldur Indiana. Fyrsta myndin um Indiana Jones, Leitin að týndu örkinni, er einhver besta hasarmynd sem gerð hefur verið. Ef ég man í hvaða bíói ég sé mynd, þá er hún virkilega góð. Svo komu framhaldsmyndir sem voru nokkrir eftirbátar fyrstu myndarinnar. Það sem fór mest fyrir brjóstið á mér í framhaldsmyndunum var að kafað var ofan í sálarlíf söguhetjunnar, endalausir komplexar og axarsköft úr fortíðinni voru dregin fram í dagsljósið. Kaldur faðir, svik við æskuástina og eitthvað fleira sem ég er viljandi búinn að þurrka út úr minninu. Ég spurði mig: Af hverju er Indiana Jones ekki bara að eltast við vondu kallana og redda málunum? Af hverju þarf að láta hann dragnast með fortíðina á bakinu?
Í hvert skipti sem ég opna Tinnabók er Tinni mættur á svæðið, keikur og ferskur, reiðubúinn að leysa ráðgátur og koma óþokkum bak við lás og slá. Aldrei er hann í rusli yfir uppeldinu eða kvennamálum. Alveg eins og Indiana Jones var í fyrstu myndinni. Þannig vil ég hafa mína hasarhetju. Ekki það að ég hafi engan áhuga á komplexuðum hetjum, ég er mikill aðdáandi Hamlets til dæmis. En það eru annars konar hetjur. Ég held að þeir sem bjuggu Indiana Jones til hafi farið út af sporinu strax í sögu númer tvö; urðu hetjuvilltir eða of uppteknir af aukaatriðunum. Að vísu telja margir að hetjan sé ekki áhugaverð nema hún kljáist við fortíðardrauga. Aldrei saknaði ég þess varðandi Tinna. Tinni heldur áfram að vera hetjan mín á meðan aðrar hetjur, Indiana Jones og Rambó til dæmis, koma og fara.