Föstudagur 09.10.2009 - 05:03 - FB ummæli ()

Látúnsbarki með stút

Eins og aðdáendur mínir vita var ég að hugsa um að kaupa notaða, evrópska ryksugu í stað þeirrar amerísku sem skaddaði heyrn mína enn frekar um daginn án þess þó að ryksuga drulluna. Í gær var haldið í ryksuguleiðangur, en sá leiðangur var árangurslaus. Það voru engar hefðbundnar ryksugur til! Ef einhver aðdáenda minna trúir mér ekki, ætti hann að skoða myndina sem fylgir þessari færslu. Hún var tekin í ryksuguhorninu í Goodwill. Bara „vondar“ ryksugur þarna. Ekki vantar að þær líta út fyrir að soga í sig allt sem fyrir verður, en það er ekki svo. Svona tæki eru eftirbátar þeirra ryksuga sem ég hef kynnst og eru þær margar ryksugurnar sem orðið hafa á vegi mínum í gegnum tíðina. Einu sinni hjálpaði ég móður minni vetrarpart við skúringar á leikskóla, svo dæmi sé tekið. Man ekki af hvaða tegund ryksugan var sem við notuðum, en það var Nilfisk ryksuga sem sá um drulluna á æskuheimili mínu. Um það undratæki samdi ég eitt sinn ljóð:

Nilfisk ryksuga.

Villt geimvera á akri teppis?

Látúnsbarki með stút

kyssir rykhnoðra

og syngur ástaróð

á innsogi.

Ryksugur

Uppréttar ryksugur eru ekki eins góðar og þær líta út fyrir að vera.

Ekki er öll nótt úti enn um það hvort mér takist að kaupa ryksugu því ég á eftir að fara í verslun Hjálpræðishersins. Kannski verð ég heppinn, kannski ekki.

(Dickens endaði framhaldssögur sínar, sem hann skrifaði fyrir blöð og tímarit, oft á svokölluðum „cliffhangers“ – spennuþrungnum augnablikum sem gerðu aðdáendur hans eftirvæntingarfulla eftir að lesa næsta kafla. Ég ætla að taka þann mikla meistara til fyrirmyndar og skilja lesendur eftir algerlega að míga í sig af spenningi um hver niðurstaðan í ryksugumálinu verður.)

Flokkar: Menning og listir

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Sigurgeir Orri Sigurgeirsson
sögumaður. Sagði söguna af Alfreð Elíassyni og Loftleiðum í samnefndri heimildarmynd og Árna Sam. í SAM-bíóunum í bókinni Á fullu í 40 ár.
RSS straumur: RSS straumur