Ég er hjartanlega sammála þeim sem bent hafa á þá ósvífni sem áfengisframleiðendur á Íslandi hafa sýnt við að auglýsa vöru sína. Það fór til dæmis ekki framhjá neinum sem horfði á hálfleiki HM á RÚV í sumar.
Á meðan sjálfum leikjunum stóð voru þó enn meiri brot framin á íslenskum lögum en í hálfleiknum. Nægir þar að nefna að HM var í boði Budweiser. Hvílík ósvífni! Veit FIFA ekki að það er bannað að auglýsa áfengi í íslensku sjónvarpi?
HM er því miður engin undantekning. Enski boltinn er jafnvel verri en HM. Gulu spjaldi er varla veifað án þess að áfengisauglýsing sé ekki í bakgrunninum. Sjálfur á ég Liverpool-treyju með Carlsberg auglýsingu framan á. Enski boltinn er trúlega eitt vinsælasta sjónvarpsefni ungmenna á Íslandi. Þarf ekki að gera út sendinefnd á vegum ríkisins til að upplýsa Bretana um þessi svakalegu brot á íslenskum lögum? Sýna þeim gula spjaldið ef til vill?
Það er ekki laust við að sú hugsun læðist að manni að íslensku lögin um bann við áfengisauglýsingum hafi ekki tilætluð áhrif. Ekki síst ef horft er til þess að í tölvum unglinga og erlendum tímaritum í hillum íslenskra bókaverslana, á biðstofum tannlækna, á heimilum barnafjölskyldna og víðar er vín auglýst sem aldrei fyrr.
Hugsunin að baki lögunum er skýr og falleg. Góði viljinn og kærleiksrík hugsunin sem miðar að því að vernda æskuna, draga úr áfengisneyslu og minnka líkur á áfengissýki. En það er eins og það hafi farið framhjá þeim sem komu lögunum um kring að Ísland er ekki eyland þótt eyja sé, ekki gluggalaust, sambandslaust míkrókosmos á sjálfstæðum veltingi í ólgusjó lífsins. Og annað sem farið hefur framhjá höfundum laganna er að það hvers og eins að bera ábyrgð á sjálfum sér, og barna sinna meðan þau eru börn. Sumir virðast halda að með því að banna eitthvað sé hægt að útrýma því. Það er því miður algengur misskilningur. Einhverjir myndu kalla það sjálfsblekkingu en ég ætla ekki að ganga svo langt.
Það er staðreynd að fyrirkomulag áfengismála á Íslandi, ríkiseinokun, gríðarlegur skattur á hvern dropa og umrætt bann við auglýsingum, hefur ekki komið í veg fyrir misnotkun þess. Öðru nær. Neysla áfengis hefur aukist mjög undanfarna áratugi. Árangur meðferðarstofnana er skelfilegur þegar kemur að því að endurhæfa þá sem dottið hafa í ólukkupottinn. Ég man ekki töluna, en innan við 10% af þeim sem fara í meðferðarprógramm bragða ekki áfengi aftur. Er það ásættanlegt? (Þótt ekki sé lítið gert úr þeim sem náð hafa áttum með aðstoð þeirra.)
Góðviljaðri lagasetningu og reglum fylgja ósjaldan afleiðingar sem enginn sá fyrir. Ófyrirséðar afleiðingar af áfengisauglýsingabanninu eru m.a. þær að auglýsingastofur og fjölmiðlar verða af talsverðum tekjum. Það gætu verið aukakrónurnar sem halda auglýsingateiknaranum í atvinnu en ekki atvinnulausum. Eða gerir tímariti kleift að koma út. Eða gerir fjölmiðli kleift að ráða málfarsráðunaut.
Ef einhver þingmaður leggur til breytingar á núverandi fyrirkomulagi verður hann úthrópaður sem „vondi kallinn“ af stjórnlyndum andstæðingum áfengis (þ.e. þeim sem telja sig vita best hvað mér er fyrir bestu). Þingmaðurinn sem hefur í mörg horn að líta, ekki síst nú um stundir, kærir sig ekki um að fá á sig slíkan stimpil í augum kjósenda og kýs að leiða hjá sér málið þótt hann – og vitaskuld flestir sem leiða hugann að þessu – vita að lögin eru marklaus og hafa ófyrirséðar afleiðingar sem eru verri en ef þau væri ekki til staðar.