Bólu Hjálmar taldi ég í æsku að hlyti að hafa verið með bólóttari mönnum fyrst hann hafði þetta viðurnefni. Síðar komst ég að því að hann bjó um skeið á bæ sem hét Bóla.
Merking orðsins bóla er mismunandi þótt hún sé af sömu rótinni runnin. Bærinn Bóla, bóla í andliti, lofbóla, bóla sem farsótt, bóla sem tískusveifla (t.d. verðbréfabóla) og teiknibóla. Orðabókin segir að bóla geti líka þýtt lítil málmhlíf eða hnúður úr beini sem og hattbóla; kúptur hattur.
Er ég var að glugga í ljóðasafn Hjálmars um daginn rakst ég á vísu sem hann samdi um orð sem hafa fleiri en eina merkingu.
Hjálmar var eitt sinn að spurður, hvort á væri aðeins bókstafur eða gæti þénað fyrir orð í málinu. Hann kvað:
Á er stafrófs upphaf flestra tíða,
á er straumur fram hjá rótum hlíða,
á er máltak eigindómsins fríða,
á þeir menn, er stundardvalir bíða,
á er heiti alvalds stýrir lýða,
á er frýjað þar sem deilur stríða,
á er hvað, sem ofar náir ríða,
á menn nefna móður Hallinskíða.
Hjálmar samdi aðra vísu eftir að hann sat eitt sinn hjá vefara sem óf rúmföt og barði þau saman með miklum atburðum. Hjálmar kvað:
Skeið er brúkuð skarpan vef að banga,
skeið er æfitíðin stutta og langa,
skeið í gljúfrum sker sig millum dranga,
skeið hét Erlings mikla dýrið ranga,
skeið er jósins skrið við foldar vanga,
skeið við máltíð opnar munna svanga,
skeið er hús að sköfnungs fjaðurtanga,
skeið er móðurlífsins fósturganga.
(Hjálmar Jónsson frá Bólu. Ritsafn I. Ljóðmæli, bls. 429, Ísafoldarprentsmiðja, Reykjavík 1965)
Kveðskapur Bólu Hjálmars er svolítið skringilegur og hvass, en bragsnilld hans var einstök. Hann virtist hafa svo gott vald á listinni að hann gat svarað að augabragði í rammbundnu máli. Hjálmar vílaði ekki fyrir sér að yrkja níð og nota til þess nánast óprenthæf orð. Myndin sem birtist af honum í gegnum kveðskapinn er heillandi en fremur nöturleg. Hann virðist hafa verið mikill skapmaður, eiginlega fráhrindandi, en líka skemmtilegur eins og þessar vísur bera með sér.
Ég ákvað að herma eftir Hjálmari og setti saman vísu um orðið við:
Við og við er iðkuð trú,
við erum saman, ég og þú,
við skal ávalt verja fú,
við hlið mér situr mín ektafrú,
við hávaða vaknaði mjólkurkú,
við götunni skakkt stendur bú,
við er hann látinn vonandi nú,
við það sagði maðurinn jú.