Fimmtudagur 15.11.2012 - 05:17 - FB ummæli ()

Nú er mælirinn fullur

Ferð höfundarins

Augu Obama að bregðast við kvikmyndinni Titanic.

„Nú er mælirinn fullur“ fær aðra og nýja merkingu ef horft er til þess að líkaminn er í raun mælir. Mælir sem vegur gæði bíómyndarinnar sem hann horfir á í það og það skiptið. Líffæri líkamans eru blessunarlega laus við tilgerð og algerlega laus við gáfur. En líkaminn er engu að síður barmafullur af visku og innsæi. Skiptingin „góð“ eða „slæm“ á ekki við hér. Líffærunum er alveg sama um hana. Ef til dæmis áhorfandi kemur út af bíómynd þar sem hann grét, svitnaði í lófunum, fékk hnút í magann og hló, en segir að myndin hafi verið innantóm og léleg afþreyingarmynd, hefur hann þá rétt fyrir sér? Ekki ef marka má líkamann.

Hlátur áhorfenda í bíó er ef til vill skýrasta dæmið um líkamsviðbragð, en hvaða fleiri líffæri bregðast við sögum? Svefnstöðvarnar eru nærtækar. Ef kvikmynd er langdregin eða leiðinleg, nema hvort tveggja sé, bregst líkaminn oft við með því að slökkva á sér. Það gerist stundum þótt æðstistrumpurin (gáfumennið) í höfðinu vilji fyrir alla muni vaka. Vinur minn sem fór í sérstaka hópferð til Kanada til að vera viðstaddur frumsýningu á nýju Stjörnustríðsmyndinni,  Skuggaógninni  (The Phantom Menace) 1999, svaf yfir megninu af henni.

Stundum er sagt að blóðið hafi frosið í æðunum. Við hvaða aðstæður gerist það? Er það ekki annað orð yfir að vöðvar líkamans hafi orðið stjarfir, og þá af hræðslu eða spennu?

Það eru margskonar kirtlar í líkamanum sem seyta úr sér vökva við örvun. Adrenalínframleiðslan fer ósjaldan á fullt á hasarmyndum. Hjartsláttur eykst, andardráttur verður örari, augun blikka oftar, hárið rís á húðinni og nasavængirnir þenjast út.

Ferð höfundarins

Líffærin segja sannleikann, er meðal þess sem fram kemur í bókinni.

Í Ferð höfundarins er fróðlegur kafli sem fjallar um líffæri líkamans og hvernig þau bregðast við sögum og list almennt. Höfundur bókarinnar, Christopher Vogler sagðist hafa lært að nota líkamann sem mæli um gæði þeirra kvikmyndahandrita sem hann vann við að lesa yfir. „Ég treysti æ meira á visku líkamans við að meta styrk sögu,“ skrifar Vogler. „Góðu sögurnar höfðu þau áhrif á skrokkinn að hann hresstist við og líffærin kvikuðu til lífsins hvert af öðru. Hann varð árvakur, léttur og glaður og dældi vellíðunarvökva til heilans.“

Það væri trúlega öllum hollt að hlusta meira á líkamann vegna þess að hann er ekki eins vitlaus og hann lítur út fyrir að vera.

Flokkar: Menning og listir

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Sigurgeir Orri Sigurgeirsson
sögumaður. Sagði söguna af Alfreð Elíassyni og Loftleiðum í samnefndri heimildarmynd og Árna Sam. í SAM-bíóunum í bókinni Á fullu í 40 ár.
RSS straumur: RSS straumur