Í gær fékk ég skyndilega áhyggjur af því að ef Íslendingum yrði leyft að nota hvaða gjaldmiðil sem er og eiga með honum viðskipti við hvern sem er, án afskipta ríkisstofnunar, myndi menningu minnar kæru þjóðar vera stórkostleg hætta búin.
Er fótur fyrir þessum áhyggjum eða eru þær ef til vill óþarfar? Eru til dæmi í Íslandssögunni um sambærilegar áhyggjur sem reyndust ástæðulausar? Mér datt eitt mál í hug sem gæti hugsanlega létt af mér áhyggjunum.
Þegar herstöð varnarliðsins á Miðnesheiði var og hét var starfrækt þar útvarps- og sjónvarpsstöð. Útvarpið fór í loftið um 1950 en sjónvarpsstöðin nokkrum árum síðar. Keflavíkursjónvarpið, eins og það var kallað, sendi út afþreyingarefni fyrir hermennina en það náðist vel á höfuðborgarsvæðinu. Margir voru ósáttir við það, herstöðvarandstæðingar sem aðrir. Dagskráin var svipuð dagskrá Ríkissjónvarpsins eins og hún er í dag, bíómyndir, framhaldsþættir, fréttir og barnaefni.
Um miðjan sjöunda áratuginn birtist áskorun til Alþingis í blöðum, undirrituð af sextíu manns, um að lokað yrði fyrir aðgang Íslendinga að Keflavíkursjónvarpinu. Röksemdir sextíumenninganna voru mjög skiljanlegar: „Vér undirritaðir alþingiskjósendur teljum á ýmsan hátt varhugavert, auk þess sem það er vansæmandi fyrir íslendinga sem sjálfstæða menningarþjóð, að heimila einni erlendri þjóð að reka hér á landi sjónvarpsstöð, er nái til meiri hluta landsmanna.“ Tíu árum síðar varð draumur þeirra að veruleika. 1974 var ég of ungur til að skilja hvers vegna ég gat ekki lengur horft á köttinn Felix í svart-hvíta sjónvarpinu heima í Kópavogi.
Í ljósi sögunar er það vitaskuld hlægilegt að einhverjir skuli hafa talið menningu þjóðarinnar í hættu ef erlend sjónvarpsstöð næðist á höfuðborgarsvæðinu. Þjóðin hefur í mörg ár haft aðgang að flestum heimsins miðlum og ekki beðið skaða af. Öðru nær. Stóraukið frelsi í þessum efnum hefur aukið víðsýni hennar, styrkt sjálfsvitundina og kennt að meta og dá eigin menningu.
Dómur sögunnar hefur fallið: Áhyggjur sextíumenninganna voru ástæðulausar. Sjálfur anda ég nú léttar.
Afar líklegt verður að teljast að það myndi hafa sömu ánægjulegu áhrifin á menningu okkar ef fleiri en einn gjaldmiðill væri leyfður í landinu rétt eins og það hafði að leyfa fleiri en einn fjölmiðil í landinu.
Það er með krónuna eins og suma hluti. Þegar þeir hafa verið lengi til þá taka þeir á sig stofnanablæ og virðast ómissandi (ekki síst ef reist er um þá virðuleg graníthöll). Þegar öllu er á botninn hvolft hefur þjóðin ekki notast við sérstakan lögeyri nema brot af sögu sinni. Fjölnismenn lifðu til dæmis aldrei þann dag að kaupa sér blekbyttu fyrir íslenska krónu. Krónan er ekki eitt af því sem skilgreinir okkur sem þjóð eins og til dæmis tungumálið og sögurnar. Hafi hún einhvern tíma verið sjálfstæðistákn, er hún það ekki lengur. Hún er miklu frekar ósjálfstæðistákn. Myndi það ekki annars vera merki um ósjálfstæði þjóðar ef gjaldmiðill hennar er hvergi gjaldgengur á tímum gríðarlega aukinna heimsviðskipta?
Þótt furðulegt megi teljast leggja margir traust sitt á krónuna þrátt fyrir að ævisaga hennar sé einn samfelldur hrakfallabálkur. Það hlýtur eitthvað annað að hanga á spýtunni en góð rök, umhyggja fyrir þjóðinni (eða bara almenn skynsemi) þegar kemur að gjaldmiðilsmálum á Íslandi.
Ef til vill getur sagan af áskorun sextíumenninganna 1964 gefið vísbendingar í þeim efnum líka.
Framhald…
—
(Fyrir áhugasama um þann anga Íslandssögunnar sem fjölmiðlarekstur varnarliðsins var, er rétt að benda á hina frábæru ritgerð „Hernám hugans“ eftir Hörð Vilberg Lárusson sem birtist í Nýrri sögu 1998. Í hana eru heimildir í þessari færslu m. a. sóttar.)