Sunnudagur 07.12.2014 - 17:21 - FB ummæli ()

Hvað hefði Alfreð gert?

AlfredEliasson55-59VissiHvadHannSong

Stefna Alfreðs Elíassonar skilaði góðum árangri.

Alfreð Elíasson stofnandi og forstjóri Loftleiða áttaði sig snemma á því að með lágu fargjaldi og betri sætanýtingu væri hægt að skapa jafn mikil eða meiri verðmæti en með háu fargjaldi og verri sætanýtingu. Sú stefna gerði Loftleiðir m.a. að stærsta fyrirtæki landsins á sínum tíma. Loftleiðir „aflaði“ t.d. meira en íslenski togaraflotinn samanlagður 1968.

Ímyndum okkur í gamni að Ísland væri ferðaþjónustufyrirtæki og Alfreð Elíasson forstjóri þess. Hver væri líkleg stefna hans?

Vafalaust myndi Alfreð sjá til þess að aðgengi að landinu væri eins gott og frekast er kostur. Það er að segja flug, gisting, náttúrurperlur og annað ekki skattlagt sérstaklega (enda samkeppnin hörð). Hann myndi bjóða alla ferðamenn velkomna til landsins, ekki bara þá sem eru ríkir, rétt eins og Loftleiðamenn buðu ungt fólk og fátækt velkomið um borð með lágum fargjöldum. Röksemdafærsla Alfreðs væri sú að lægri þröskuldar skiluðu betri „sætanýtingu“ á hótelum, gistiheimilum, veitingastöðum, í leigubílum, rútum og ráðstefnusölum og þar af leiðandi meiri tekjum en hærri þröskuldar og verri sætanýting. Góð sætanýting skapar auk þess skemmtilega stemmningu og spyrst hraðar út. Það var einatt frábær andi um borð í Loftleiðavélunum; leikið á gítar og sungið, sagðar sögur og farið með gamanmál. Slagorðið gæti verið: Ísland fyrir alla!

Hvar sem ferðamaður drepur niður fæti á Íslandi greiðir hann skatta og gjöld, bæði beint og óbeint. Í stað þess að brydda upp á nýjum og nýjum sköttum (eins og umsvif ríkisins séu ekki orðin næg nú þegar) ætti ferðamálaráðherra fyrir hönd íslensku þjóðarinnar að þakka erlendum gestum kærlega fyrir komuna og tekjurnar með því að bæta aðstöðu (fjölga „sætum“) við náttúruperlur eins og Þingvelli og Gullfoss.

Miðað við hvað stefna Alfreðs Elíassonar hjá Loftleiðum skilaði góðum árangri eru talsverðar líkur á að frekari útfærsla á henni í ferðaþjónustu myndi gefa góða raun. Hann var jú einn af frumkvöðlum Íslands í ferðaþjónustu; kom ásamt sínum samhenta Loftleiðahópi Íslandi „á kortið“ eins og sagt er.

1918Only1Lagfargjald

Loftleiðir auglýstu svo ekki fór á milli mála að þeir buðu lægri verð. Ísland gæti gert það sama. Auglýsingatextinn gæti verið: Komið til Íslands. Það er ódýrt og skemmtilegt!

Flokkar: Menning og listir · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Sigurgeir Orri Sigurgeirsson
sögumaður. Sagði söguna af Alfreð Elíassyni og Loftleiðum í samnefndri heimildarmynd og Árna Sam. í SAM-bíóunum í bókinni Á fullu í 40 ár.
RSS straumur: RSS straumur