Frumvarp um nýjan náttúrupassaskatt er fyrirtaks dæmi um hvernig ríkið þenst meira og meira út svo í óefni stefnir. Ráðherra segir að náttúran þoli enga bið, það verði að láta ferðamennina borga fyrir viðhald hennar vegna þess að Íslendingar hafi hingað til þurft að greiða þann kostnað. Þetta er satt ef ekki er tekið með í reikninginn að ferðamenn komu með meiri gjaldeyri inn í landið í fyrra en álið og fiskurinn. Drjúgur hluti hans rennur til ríkisins, beint og óbeint. Undir eðlilegum kringumstæðum hefði ráðherra einfaldlega hlúð að gæsinni sem verpir gulleggjunum í stað þess að fara þessa óheillaleið sem er ávísun á mismunun, sóun og spillingu og kemur auk þess til með að skaða samkeppnisstöðu Íslands.
Það er frekar dapurlegt að verða vitni að því að Sjálfstæðisflokkurinn tekur þátt í þessari trylltu útþennslustefnu sem smám saman er að lama hagkerfið. Ef kjósendur eiga ekki skjól þar, þá hvar?