Fimmtudagur 05.03.2015 - 18:15 - FB ummæli ()

Góðu mennirnir

Ég er virkilega þakklátur öllum þeim góðu mönnum sem í gegnum tíðina hafa tekið að sér að hugsa fyrir mig. Þegar ég var ungur var svo vel hugsað fyrir mig að ég þurfti ekki að leggja það á veikburða hyggjuvitið að meta hvort mér þætti bjór góður eða vondur. Góðu mennirnir höfðu ákveðið það fyrir mig. Hann var vondur. Takk fyrir það góðu menn! Ég man hvað það var mikið áfall fyrir mig þegar ég þurfti skyndilega að gera það upp við mig á eigin spýtur. Það voru öfugsnúnir tímar.

Góðu mennirnir hafa hingað til sparað mér ómakið við að meta hvort ég skuli kaupa vín og ost í einni og sömu búðinni. Þeir hafa af sinni einskæru snilli, gæsku og fyrirhyggjusemi ákveðið það fyrir mig að vínið skuli keypt í þessari búð og osturinn í hinni. Takk fyrir það góðu og vitru menn.

En nú er vá fyrir dyrum.

Ábyrgðarlausir og illmeinandi menn vilja nú leggja það á mig að ákveða hvort ég kaupi vínið og ostinn í sömu búðinni. Eru þeir galnir? Vita þeir ekki hvað samfélagið beið mikinn skaða af því þegar leyft var að selja mjólk og brauð undir sama þaki? Hafa þeir ekki orðið varir við hnignunina síðan bjórinn var leyfður? Vilja þeir að ég breytist í áfengissjúkling? Hafa þeir ekkert lært?

Það ætti ekki að koma neinum á óvart að það eru sömu góðu og velmeinandi mennirnir sem vildu ekki leggja það á herðar mínar að velja milli vodka eða bjórs og vilja ekki leggja það á herðar mínar að burðast með rauðvínsflösku og oststykki í sömu innkaupakörfunni.

Ég er ekki í nokkrum vafa að Ísland væri miklu betri staður að búa á ef það hefði verið farið að leiðsögn góðu og vitru mannanna í einu og öllu. Ef við aðeins hefðum gefið varnaðarorðum þeirra gaum og leyft þeim að ráða hefði hnignun útvarpsins engin orðið vegna þess að við hefðum enn þann dag í dag eina glæsilega, menningarlega og réttsýna ríkisstöð. Ég er ekki í stakk búinn að vita hvaða sjónvarpsstöð hentar mér best og legg allt mitt traust á góðu og vitru og velmeinandi mennina í þeim efnum. Þeir vita miklu betur en ég hvaða sjónvarpsefni ég vil horfa á og eru svo snjallir að þeir koma því öllu fyrir á einni rás! Og síminn væri enn á þeim glæsta stalli sem hann var á áður ef góðu mennirnir hefðu fengið að ráða. Stóraukið framboð af símum og símafyrirtækjum með tilheyrandi gjallanda hefur stóraukið angist mína og valkvíða. Góðu og vitru mennirnir sáu það fyrir og vöruðu við. Það er órækur vitnisburður um framsýni þeirra.

Eins og sagan kennir með bjórinn þá var það reginhneyksli að afþakka dómgreind og forsjá góðu og velmeinandi mannanna í góðu og velmeinandi stjórnmálaflokkunum í því máli. Það sýnir kannski best hvað við kjósendur þeirra erum í mikilli þörf fyrir leiðsögn að það var ekki fyrr búið að leyfa bjórinn en við vorum komnir á krána að skála fyrir því að geta kneyfað öl að víkingahætti. Og það þótt við værum hjartanlega sammála þeim þegar við hlustuðum á röksemdir þeirra í útvarpinu eða lásum greinar eftir þá í blöðum. Það var vitaskuld til of mikils ætlast af okkur að geta upp á eigin spýtur afþakkað sjálf ölið fyrst vitringunum okkar mistókst það fyrir okkur.

Og enn erum við skjólstæðingar og kjósendur góðu mannanna í góðu flokkunum jafn miklir kjánar og áður. Við látum fá tækifæri til að þamba öl framhjá okkur fara. Hræsni okkar og tvískinnungur er kominn langleiðina í þrítugt! Get ég lifað með þessu öllu lengur? Ég get að minnsta kosti fullyrt það að ég vil ekki þurfa að ganga í gegnum aðra holskeflu og þá sem nú á að steypa okkur í með því að leyfa vínsölu í matvörubúðum. Ég get bókstaflega ekki hugsað þá hugsun til enda að maður geti af fullkomnu ábyrgðar- og dómgreindarleysi keypt rauðvínsflösku í Pétursbúð.

Flokkar: Dægurmál · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Sigurgeir Orri Sigurgeirsson
sögumaður. Sagði söguna af Alfreð Elíassyni og Loftleiðum í samnefndri heimildarmynd og Árna Sam. í SAM-bíóunum í bókinni Á fullu í 40 ár.
RSS straumur: RSS straumur