Þriðjudagur 24.05.2016 - 00:25 - FB ummæli ()

Hver laug að Lewis?

Þegar ég las grein hins frábæra rithöfundar Michaels Lewis (Big Short, Moneyball) um bankahrunið á Íslandi „Wall Street on the tundra“ í greinasafninu Boomerang kom mér ýmislegt spánskt fyrir sjónir. Að sumu hló ég, eins og því bulli að á hverju ári drepist Íslendingur í sturtu vegna þess að kalda vatnið er tekið af vegna gatnaframkvæmda, en yfir öðru skellti ég bókstaflega uppúr. Engu var líkara en vesalings maðurinn hefði lent í klónum á rugludalli með lygaáráttu á háu stigi. Davíð Oddsson var til dæmis sagður vera ljóðskáld að mennt. Ekki var einu orði vikið að lögfræðimenntun hans. Er nema von að íslensku bankarnir féllu? Seðlabankastjórinn var ljóðskáld sem vildi helst ekki gera neitt annað en semja ljóð. Hvernig gat annað verið en hrunið væri Davíð að kenna? Hann er ljóðskáld!

HverLaugAdLewis

Það er svo sem ekkert við því að segja að einn og einn vesalingur á Íslandi ljúgi að erlendum blaðamönnum og geri þá og sjálfa sig að athlægi um leið, en eftir að Davíð Oddsson bauð sig fram til forsetaembættisins rifjaðist þetta upp fyrir mér. Sá sem laug að Lewis er án efa að láta ljós sitt skína í kosningabaráttunni nú og fer eflaust ekki minna frjálslega með sannleikann og þá. Svona rugludalla þarf að afhjúpa. Þeir eru ekki einungis sjálfum sér til minnkunar, heldur eru þeir landi sínu og þjóð til minnkunar.

Sá sem getur bent á viðkomandi aðila og fært sönnur fyrir máli sínu fær þennan frábæra sérhannaða bol í verðlaun. Bolurinn verður framleiddur í tveimur árituðum eintökum. Í fyrsta lagi á vinningshafann og í öðru lagi á bullukollinn með mynd af honum sjálfum. (Ath. af tæknilegum ástæðum er ekki hægt að framleiða bolinn stærri en XXXXXXXXXL.)

Flokkar: Dægurmál · Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Sigurgeir Orri Sigurgeirsson
sögumaður. Sagði söguna af Alfreð Elíassyni og Loftleiðum í samnefndri heimildarmynd og Árna Sam. í SAM-bíóunum í bókinni Á fullu í 40 ár.
RSS straumur: RSS straumur