Erlendir blaðamenn sem segja fréttir af atburðum og framvindu mála á Íslandi geta fæstir kynnt sér málin á eigin spýtur af þeirri einföldu ástæðu að þeir tala ekki málið. Þeir þurfa að treysta á innlenda aðila um upplýsingar; innlenda aðila sem hafa þarf varann á í mörgum tilvikum.
Heimild höfundar þessarar dellu gekk að öllum líkindum til að ná sér niður á pólitískum andstæðingi. Hún var eflaust sigri hrósandi þegar hún las þetta, en hún gerði sér væntanlega ekki grein fyrir — og gerir trúlega ekki enn — að með þessu var hún einnig að vega að orðspori eigin þjóðar. Míga í bælið sitt.
Það er vitaskuld kostulegt að einhverjum skuli detta allsgáðum í hug að Davíð Oddsson beri á einhvern hátt ábyrgð á fjármálakrísunni 2007-2009. Það segir meira um andstæðinga hans en hann sjálfan.
Í textanum er fullyrt að hann hafi einkavætt þrjá banka og röng ályktun dregin að það hafi valdið hruninu á Íslandi. Sannleikurinn er sá að Íslandsbanki, bankinn sem hét Glitnir við fall hans, var alla tíð einkabanki. Hann var stofnaður 1990 með sameiningu Alþýðubankans, Verslunarbankans og Iðnaðarbankans. Þess má til gamans geta að eigandi Glitnis var með þúsund milljarða skuldahala á eftir sér við fall hans. Hverjum var það um að kenna öðrum en honum sjálfum?
Mér finnst mikilvægt að svona vitleysa sé leiðrétt. Ekki bara í aðdraganda forsetakosninganna, heldur yfirleitt.
Eftir stendur spurningin: Hver laug að Time? Það er bolur í verðlaun.