Hver kannast ekki við að hafa verið í þeim sporum að hafa varað sterklega við einhverju en enginn hlustað?
Þú ert ekki einn.
Þú ert í góðum félagsskap Kassöndru hinnar grísku sem sá framtíðina fyrir en enginn lagði trúnað á forspár hennar eða viðvaranir. Og þú ert í góðum félagsskap Davíðs Oddssonar sem varaði margoft við útþenslu bankanna þegar partýið hjá Díonýsosi dunaði sem hæst. Því miður drukknaði rödd hans í veisluglaumnum.
Þetta kemur meðal annars fram í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis á bankahruninu, sérstaklega 6. bindi. Davíð varaði við útlánaþenslu bankanna og yfirvofandi hættu á fundi með Geir Haarde og Árna Mathiesen 13. janúar 2008 (bls. 102), á fundi með Geir Haarde, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, Árna Mathiesen og embættismönnum 7. febrúar (bls. 117–124), á fundi með Geir Haarde 6. mars (bls. 136–137), á fundi með Geir Haarde 18. mars (bls. 143) og á fundi með Geir Haarde og Árna Mathiesen 30. mars (bls. 148).
Þótt Davíð yrði að fara varlega sem seðlabankastjóri (hann mátti ekki tala traustið niður) má líka lesa sterkar viðvaranir út úr ræðu hans á ársfundi Seðlabankans vorið 2008. Hann varaði við á fundi með Geir Haarde og Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur 1. apríl (bls. 152) og á fundi með Geir Haarde, Árna Mathiesen og Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur 7. maí (bls. 173). Hinir bankastjórar Seðlabankans voru með Davíð á flestum þessara funda. Ingibjörg Sólrún sagði við Rannsóknarnefnd Alþingis, að á fundinum 7. febrúar hefði Davíð „farið mikinn“. Hún var einn þeirra ráðamanna sem tóku ekki mark á viðvörunum hans.
Það er mikilvægt að þetta komi fram nú vegna þess að sú draugasaga hefur verið á kreiki í mörg ár að fall íslensku bankanna þriggja sé Davíð Oddssyni að kenna. Raunar er honum líka kennt um kreppuna á heimsvísu. Það er vitaskuld kostulegt og sýnir ef til vill best hve stór hann er í augum andstæðinga sinna.