Föstudagur 03.06.2016 - 05:07 - FB ummæli ()

Undirlægju eða skörung?

Eins og öllum ætti að vera orðið ljóst studdi Guðni Th. Jóhannesson forsetaframbjóðandi fyrsta Icesave-samninginn sem hinn alóreyndi samningamaður Svavar Gestsson gerði sumarið 2009, en hann var langversti samningurinn af þeim sem gerðir voru. Með honum hefðu níðþungar byrðar verið lagðar á Íslendinga, ekki síst vegna vondra vaxtakjara á „láni“ sem Bretar og Hollendingar tóku upp á að veita íslenska ríkinu að því forspurðu.

Bretar og Hollendingar ætluðu að beita Íslendinga ofríki af því að þeir treystu því að íslenskir ráðamenn — og álitsgjafar — gæfust upp. Margir þeirra gerðu það og tóku jafnvel þátt í ljótum leik; að hræða þjóðina til hlýðni með því segja að Ísland yrði eins og sum draumaríki kommúnismanns ef hún skrifaði ekki undir. Guðni Th. og félagar töldu sig eflaust vera að sýna samningsvilja og skilning í erfiðum aðstæðum en í raun voru þeir einfeldningar og undirlægjur. Það kom í ljós síðar þegar hinir reyndu og slægu erlendu samningamenn slógu stórkostlega af kröfum sínum.

Davíð Oddsson forsetaframbjóðandi var frá upphafi með þá skoðun í Icesave-málinu að Íslendingar bæru ekki ábyrgð á Icesave-innistæðunum. Eftir að hafa talað fyrir daufum eyrum valdsmanna ákvað hann, 22. október 2008, að skrifa Geir Haarde bréf:

BrefDavids

Kæri Geir. Er það virkilega svo að íslensk stjórnvöld ætli án lagaheimildar að taka á sig stórkostlegar erlendar skuldbindingar að kröfu Breta og fl. Slíkar byrðar myndu sliga íslenskan almenning sem ekkert hefur til saka unnið; seinka endurreisn íslensks efnahagslífs og tryggja lágt mat matsfyrirtækja um langa hríð. Reyndar þykir mér með ólíkindum ef íslensk stjórnvöld taka á móti breskri sendinefnd meðan Bretland hefur íslenska starfsemi opinberlega á lista með fáeinum mestu fjöldamorðingjum veraldarinnar. Davíð. – Morgunblaðið 5. júlí 2009.

Þótt álar séu kyrrir nú um stundir, þarf ekki mikið að gerast í umbreytingasömum heimi að það syrti í þá. Þá er mikilvægt að á Bessastöðum sé maður sem heldur málstað Íslands á lofti en ekki leggist ekki flatur fyrir útlendingum.

Valið í forsetakosningunum er einfalt. Það er milli undirlægju eða skörungs.

Flokkar: Dægurmál · Stjórnmál og samfélag
Efnisorð: , ,

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Sigurgeir Orri Sigurgeirsson
sögumaður. Sagði söguna af Alfreð Elíassyni og Loftleiðum í samnefndri heimildarmynd og Árna Sam. í SAM-bíóunum í bókinni Á fullu í 40 ár.
RSS straumur: RSS straumur