Miðvikudagur 08.06.2016 - 01:35 - FB ummæli ()

Davíð að kenna

Andstæðingar Davíðs Oddssonar mega eiga það að þeir komu einni ranghugmynd á legg sem reynst hefur langlíf. Hún er sú að hann hafi nánast verið einræðisherra á Íslandi. Af því draga margir þá ályktun að fyrst hann var svona voldugur þá hljóti a) bankahrunið á Íslandi að vera honum að kenna og b) hinum vestræna heimi líka. Þeir hafa sannfært sig um að hann hefði átt að gera eitthvað til að stöðva þetta aðvífandi lestarslys en ekki gert það. Ergó: Allt Davíð að kenna.

Það er ánægjulegt að Davíð sé blóraböggull hrunsins í heild sinni vegna þess að það afhjúpar ranghugmyndina (og raunar rætnina, eineltið og vanstillinguna sem býr að baki henni). Það sýnir hve galin ásökunin er og það sýnir einnig hve galin sú hugmynd er að hann beri ábyrgð á bankahruninu á Íslandi. Í frjálsu, vestrænu lýðræðissamfélagi eins og Íslandi eru mörg fyrirtæki stór og smá sem saman mynda fjölþætta heild sem enginn einn stjórnmála- eða embættismaður getur haft taumhald á. Sem dæmi tryggði EES samningurinn íslenskum fyrirtækjum, þar með talið bönkum, aðgang að — og jafnræði á — sameiginlegum markaði Evrópu, frjálst flæði fjármagns, fólks osvfrv.

DavidAdKenna

Hver hefur ekki lent í þeirri óþægilegu aðstöðu að þurfa að finna blóraböggul? En ekki lengur. Það er kominn bolur. Þetta var allt Davíð að kenna.

Það er sérstaklega pínlegt fyrir þá sem ala ranghugmyndina „Davíð að kenna“ við brjóst sér að horfast í augu við það að að hann var nánast eini ráðamaðurinn á Íslandi sem varaði við útlánaþenslu bankanna. Eitt skýrasta dæmið um viðvaranir Davíðs var ræða hans hjá Viðskiptaráði 6. nóvember 2007, heilu ári fyrir bankahrunið:

„Á sama tíma og íslenska ríkið hefur greitt skuldir sínar hratt niður og innlendar og erlendar eignir Seðlabankans hafa aukist verulega, þá hafa aðrar erlendar skuldbindingar þjóðarbúsins aukist svo mikið, að þetta tvennt sem ég áðan nefndi er smáræði í samanburði við það. Allt getur þetta farið vel, en við erum örugglega við ytri mörk þess sem fært er að búa við til lengri tíma.“

Alvaran í orðum hans dylst ekki. Því miður tóku fæstir mark á honum. Svo mikil var tregðan til að bregðast við viðvörunum hans og almennt að hlusta á hann að Seðlabankinn varð að lokum að senda einkaflugvél með þremur erlendum sérfræðingum til landsins til að telja ríkisstjórnina á að leggja áherslu á að draga varnarhring um Ísland og gæta hagsmuna ríkisins og almennings frekar en hluthafa og kröfuhafa bankanna, eins og lýst er í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis (7. bindi, bls. 102–3).

Það er mikilvægt að benda á þetta í aðdraganda forsetakosninganna vegna þess að væntanlegur forseti þarf fyrst og fremst að gæta hagsmuna Íslands.

Flokkar: Dægurmál · Stjórnmál og samfélag
Efnisorð: , , ,

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Sigurgeir Orri Sigurgeirsson
sögumaður. Sagði söguna af Alfreð Elíassyni og Loftleiðum í samnefndri heimildarmynd og Árna Sam. í SAM-bíóunum í bókinni Á fullu í 40 ár.
RSS straumur: RSS straumur