Stundin rann upp. Fulltrúar Flugfélags Íslands voru mættir. Á miðju borðinu stóð glæsileg súkkulaðikaka. Einhver bið var eftir Loftleiðamönnum. Björn Ólafsson, óvilhallur flugmálaráðherra allrar þjóðarinnar, gekk í salinn með brasshúðaðan kökuhníf í hendi tilbúinn að skera kökuna í réttlátar og sanngjarnar sneiðar. Loftleiðamenn hlutu að birtast á hverri stundu.
Það leið og beið. Ekkert bólaði á Loftleiðamönnum. Loks rann upp fyrir ráðherra og viðstöddum að þeir ætluðu að skrópa. Kliður fór um salinn. Hvað var að gerast? Voru þeir virkilega svo smekklausir að vilja ekki súkkulaðiköku? Öll augu beindust að Birni Ólafssyni sem fitlaði órólegur við kökuhnífinn. Hvað fór úrskeiðis? Hafði hann gert glappaskot, eða öllu heldur hlutlausa nefndin hans? Björn lagði hnífinn frá sér og sagði að hann myndi skrifa bréf þar sem útskýrt væri af hverju nauðsynlegt var að baka köku.
Harðsnúin samkeppni hafði staðið milli Flugfélags Íslands og Loftleiða um langt skeið, skrifaði Björn í bréfinu, harðsnúin, dýr og hættuleg samkeppni. Reynt hafi verið með góðu að fá flugfélögin til að hafa með sér samvinnu, jafnvel sameinast. Það hafi ekki gengið. Því hafi hann neyðst til að skipta flugrútunum milli þeirra með valdi og leggja á kvaðir.
En hvað var svona dýrt og hættulegt við samkeppnina að mati Björns?
Dýrt. Fjárhagsráð ríkisins hafði skrifað bréf til ráðuneytisins 1950 og lýst áhyggjum af gjaldeyrisþörf félaganna vegna samkeppninnar: „Mikil óþörf eyðsla hefur átt sér stað í flutningunum.“ Nauðsynlegt væri að ráða bót á því, sagði þar. Í bréfi fjárhagsráðs birtist aðdáunarverð umhyggja fyrir velferð ríkiskassans.
Hættulegt. Tryggingastofnun ríkisins hafði skrifað ráðuneytinu bréf 1951 með vangaveltum um „hvort ekki sé ástæða til að ætla, að hin harða samkeppni félaganna um fólksflutninga innanlands geti aukið slysahættuna.“ Umhyggja Tryggingastofnunar fyrir velferð þjóðarinnar er aðdáunarverð.
Björn Ólafsson gat bara dregið eina ályktun út frá þessum skotheldu rökum: Óviðunandi ástand! Skipa hlutlausa nefnd og láta hana skipta flugrútunum!
Hlutlausu mennirnir í nefndinni voru Birgir Kjaran þingmaður, Baldvin Jónsson frá Fjárhagsráði og Þórður Björnsson frá Flugráði. Að Baldvini og Þórði ólöstuðum var Birgir Kjaran trúlega þeirra hlutlausastur.
Umhyggja fyrir þjóðinni og ríkissjóði. Það er svo fallegt. Og kunnuglegt. Eiga ekki búvörusamningarnir nýju sem kosta ríkiskassann 14 milljarða á ári næstu 10 árin að spara ríkinu stórkostlegar upphæðir? Eru þeir ekki gerðir af einskærri umhyggju fyrir þjóðinni?