Fimmtudagur 04.08.2016 - 06:11 - FB ummæli ()

Rentukóngurinn – Festa á hlutunum

Einn helsti styrkur rentukóngsins er að hann kemur festu á hlutina. Innanlandsflugið fyrir 1952 er gott dæmi. Þar sem áður var opinn, ógnvænlegur, spennandi og krefjandi markaður var nú komin ein föst stærð með einum sællegum rentukóngi.

Sama á við um mjólkurvörumarkaðinn. Þar er svo mikil festa á hlutunum að næstum hver einasta vara í mjólkurkælinum í Krónunni, svo dæmi sé tekið, er frá einu fyrirtæki.

Leigubílamarkaðurinn er að sama skapi í föstum skorðum. Svo föstum að ný fyrirtæki eins og Über geta ekki hafið starfsemi. Penir rentukóngar aka um bæinn á gljáfægðum leigubílunum sínum í skjóli fyrir samkeppninni sem er jú „dýr og almennt til leiðinda,“ svo vitnað sé í einn af fyrrum stjórnmálaleiðtogum okkar.

Bara ef það væri meiri festa á öðrum sviðum. Til dæmis í ástarmálum. Hvað ef öll hjónabönd væru ákveðin fyrirfram af hlutlausri nefnd á vegum ríkisins? Væri það ekki yndislegt? Enginn þyrfti framar að leggja út á þá ógnvænlegu, spennandi og krefjandi braut sem makaval getur verið.

Flokkar: Dægurmál · Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál
Efnisorð: , , , , ,

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Sigurgeir Orri Sigurgeirsson
sögumaður. Sagði söguna af Alfreð Elíassyni og Loftleiðum í samnefndri heimildarmynd og Árna Sam. í SAM-bíóunum í bókinni Á fullu í 40 ár.
RSS straumur: RSS straumur